18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (1636)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Bjarni Jónsson:

Öllum mönnum er það kunnugt um lækna, að þeir eru manna skammlífastir, og leiðir það af því, hve starf þeirra er hættulegt og erfitt. Þeir verða að vera til taks hvenær sem er, að degi og nóttu, þá er einhver kallar. Er því ekki að tala um að þeir geti lagt neitt annað fyrir sig. Hvað því viðvíkur, sem sumir nefna gróðafyrirtæki lækna, og er meðalasalan, þá er það mjög tvíeggjað, því að fyrst er það, að meðalasalan er ekki gróðafyrirtæki, heldur áhættu, og í annan stað veit jeg ekki betur en að margir læknar gefi eigi alllítið, og því verður ómótmælt, að það eru fleiri læknar, sem hafa meiri skaða en ábata af meðalasölunni.

Þá er það rjett, að þar sem þeir hafa 1.500 kr. árlega í föst laun sem embættismenn hins opinbera, þá fylgir því sú krafa, að sjá um heilsu manna og hefta sjúkdóma. En mjer er nú spurn: Borgar það sig að taka þessi árslaun, ef sá böggull fylgir skammrifi, að þeir sem læknar hins opinbera eru neyddir til að sætta sig við 30 au. um kl.st. á ferðalögum. Setjum nú svo, að læknir sje á ferð 100 daga á ári, og 10 stundir hvern dag. Og tökum svo til dæmis tímakennara. Svo er nú guði fyrir þakkandi, að enginn tekur nú við minnu en 1 kr. fyrir kl.st; en flestir 2 kr. eða meira. Í útlöndum fengu þeir ekki minna en 2 kr. fyrir 20 árum. Tel jeg ekki ýkjamikið í lagt, þótt læknum sje ætlað sama kaup og tímakennurum. Nú reikna jeg 100 daga, 10 kl.st. á dag og 2 kr. á tíma. Sje nú þetta tveggja kr. tímakaup lagt til grundvallar, verður skaði læknisins kr. 1,70 á kl.st., eða á ári kr. 1.700.00.

Þá er mjer spurn, hvort það sje rjett fyrir þessa stjett að vera í þjónustu hins opinbera og taka þar við slíkum hundsbótum. En hitt er rjett, sem hv. þm. hafa borið fram, að það er hart að taka meira fje af sjúklingum. En það hefur verið stefnan, að taka frá þeim. Þeir hafa orðið að borga lífið fullu verði eins og matinn. Verður því svo að fara, að þeir, sem ekki hafa fjár, verða að deyja drotni sínum, eða fara á hreppinn, og verða aðnjótandi þeirra hlunninda, sem hinu hávísa Alþingi hefur þóknast að skapa þeim, að vera settir á bekk með glæpamönnum og öðrum, sem fyrirgert hafa mannrjettindum sínum, og missa þann rjett, sem hverjum frjálsbornum manni ber, að eiga atkvæði til allra þjóðmála. En þetta er ekki læknunum að kenna. Þeir eiga ekki að gjalda þess, þótt þjóðfjelagsskipun sje ill og svívirðileg. Það getur ekki komið til mála að leggja þá ábyrgð þjóðfjelagsins á læknana eina, heldur þá á allar stjettir. En það má nú segja, að þingið leggi þunga skatta á menn á þessum árum. Þar sem sá maður, sem fær 3.000 kr. laun á ári, þarf 7.000 kr. til að lifa af, þá leggur landið á hann 4.000 króna skatt.

Það var ætlun mín með þessum orðum að minna á, að læknar eigi fulla heimting á því að kjör þeirra sje bætt. Jeg játa að það er hart að taka þetta af fátæklingum, en láta landsjóð ekki borga. En vilji menn nú koma með brtt. um, að landsjóður hækki laun lækna um 1.500—2.000 kr., þá skal jeg fallast á það. En annars verður að sjá læknunum borgið á annan hátt, því að hvernig eigum vjer að lifa ef lífgjafarnir drepast.