18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (1637)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg get þakkað flestum þeim, er talað hafa, undirtektir þeirra, því að þótt þær hafi ekki verið sem bestar hjá öllum undir frv. þetta, þá hefur þó hjá öllum komið fram sú viðurkenning, að ekki sje farið vel með læknana eins og sakir standa.

Hv. þm. Reykv. (J. B.) fanst það stærsti gallinn á frv., að þessi launabót er tekin af sjúklingum, en ekki úr landsjóði. Það er síður en svo, að jeg vilji mótmæla þessari skoðun yfirleitt, eða telji þetta ekki geti komið til mála sem framtíðarfyrirkomulag. Og auk þess ætti það síst að sitja á oss læknum að hafa á móti því að fá borgun vora sem mest úr landssjóði, þar sem það er auðvitað miklu tryggara. En hversu holt það væri fyrir ríkið, er annað mál. par á eru ýmsir agnúar, eins og líka hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) benti á. Þó að reikna megi á pappírnum allmiklar tekjur fyrir ferðalög, þá er ekki borgunin eins trygg úr landssjóði. Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hafði það á móti frv., að það gæti orðið til þess, að menn vanræktu fremur að sækja lækni nema í ítrustu neyð, vegna hækkaðs ferðakostnaðar. Ekki get jeg nú skilið, að þetta sje á rökum bygt, því að þegar þarf að sækja lækni langa leið, er kostnaðurinn við að sækja hann sáralítið fólginn í borgun til læknisins sjálfs. Aðalkostnaðurinn fyrir sjúklingana er einmitt kostnaðurinn við að flytja og sækja læknirinn. Og: flutningskostnaður breytist ekki. En þótt vegalengdir sje sumstaðar nokkuð miklar hjer á landi, sem læknar þurfa að fara, þá getur það þó aldrei numið mikilli upphæð, sem allur kostnaðurinn hækkaði við hækkun ferðapeninganna.

Það, að fjárveitinganefndin fór ekki þessa leið, sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) benti á, stafar fyrst og fremst af því að þetta mál kom í þessari mynd frá læknafjelaginu og landsstjórninni, og læknafjelagið taldi það víst, að Alþingi myndi ekki treysta sjer til að hækki föst laun lækna, þar sem alt launamálið væri ekki tekið fyrir í heild. Það er altaf þessi agnúi, að menn vilja bíða þar til alt kerfið sje tekið fyrir.

Ef hjer eru einhverjir hv. þm., sem eins og hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), eru sannfærðir um, að illa sje farið með lækna, en geta ekki felt sig við þetta frv., þá vil jeg mælast til, að þeir beri fram till. um einhverja aðra leið í málinu, og leggi ekki kapp á að koma þessum till. fyrir kattarnef, fyr en þeir hafa aðrar betri, sem geti komið í staðinn. Frá þeirra sjónarmiði virðist vel mögulegt fyrir þá að hleypa þessu frv. til 3. umr., og bera þá heldur fram brtt., en skera frv. nú niður með öllu, án þess að hafa hugmynd um, hvort hv. deild muni ganga að þeirra uppástungum.

Jeg held annars, að mjer sje óhætt að segja, að úti um land sje almenningur á því, að læknum sje hlægilega lítið borgað. Menn hafa iðulega gert gaman að því við mig og sagt: „Þú átt sæti á löggjafarþinginu, og lætur þó þetta viðgangast!“

Það er sjálfsagt alveg rjett, sem hæstv. forsætisráðherra sagði um launin, að aukatekjurnar mætti skoða sem borgun fyrir einstök verk, en embættislaunin fyrir þá ábyrgð, er á þeim hvílir sem embættismönnum. En embættislaunin skoða jeg annars fyrst og fremst sem borgun á stofnkostnaði. Á það verða ekki brigður bornar, að stofnkostnaður lækna er lang mestur allra embættismanna. Og enn fremur eru þau borgun fyrir það, að læknarnir verða að selja frelsi sitt. Læknar eru sú stjett embættismanna, sem er lang ófrjálsust. Þeir hafa engan tíma, dag eða nótt, sem þeir geta kallað sinn eigin. Jeg er viss um, að verkamenn, sem engan undirbúning þurfa undir starf sitt, myndu heimta hærra kaup, ef þeir mættu aldrei um frjálst höfuð strjúka. Og jeg fyrir mitt leyti myndi sætta mig við mun minna kaup, ef jeg gæti haft vissan ákveðinn vinnutíma.

Viðvíkjandi þessari ferðaborgun hef jeg heyrt það utan að mjer, að þessar ferðir krefðu ekki eins mikið er viði og önnur líkamleg vinna. Þetta kann nú stundum að geta verið rjett, en jeg held að það geti komið fyrir, að það sje einhver allra erviðasta vinna. Og jeg verð að segja, að það fylgir ekki margskonar vinnu, sem oft fylgir þessum ferðum lækna, að þeir verða oft beinlínis að stofna lífi sínu í hættu, ef þeir eiga að vera skylduræknir. Með tilliti til þessa tel jeg og, að borga ætti þessa vinnu betur en marga aðra.

Hv. aðalflm. brtt. (B. St.) hefur talað um, að taka þær aftur. Vil jeg þakka honum fyrir það, en jafnframt láta í ljós, að jeg skil ekki þann ímugust, sem hann hefur á þessu frv. fyrir þá sök, að aðrir embættismenn, sýslumenn og prestar, myndu þá fara fram á dýrtíðaruppbót á aukatekjum sínum. Jeg tel ekki svo mikla hættu á því. Prestar hafa aukatekjur sínar eftir verðlagsskrá, og hún hefur hækkað. En um sýslumenn ber þess að geta, að föst laun þeirra eru svo miklu betri en lækna, að því er ekki saman að jafna. Einstöku sýslumenn hafa að vísu ekki nema hærri laun en læknar, en ekki eru þeir heldur hættulegir til samanburðar. Sýslumönnum hefur líka verið veitt dýrtíðaruppbót á skrifstofukostnaði. (E. A.: Það eru hundsbætur!) En svo má telja, að læknar hafi það, er talist geti ígildi skrifstofukostnaðar, þar sem er húsnæði og fólk til afgreiðslu og meðalasölu. En jeg skildi ekki vel samræmið hjá hv. 2. þm. S.-M. (B. St.), þá er hann var að tala um erindi það frá prestinum í Árnesi, er hjer liggur frammi á lestrarsal. Það er nefnilega komið fram út af því ákvæði í lögum frá í fyrra um dýrtíðaruppbót, að prestar skuli ekki fá dýrtíðaruppbót á þeim tekjum, er þeir fá í afgjaldi af jörðum, er þeir búa á. Tel jeg mjög illa með þá farið, að þeir sjeu beint látnir borga fyrir þau hlunnindi, sem engin hlunnindi eru, en get ekki skilið, að það komi þessu máli við.

Þá var sami hv. þm. (B. St.) að tala um, að það væri illa viðeigandi, að taka þessa uppbót frá þeim hluta þjóðarinnar, er síst mætti við útgjöldum. Jeg býst við, að þar hafi hann átt við alla þá, sem sjúkir verða. En nú býst jeg ekki við, að hann álíti, að það sjeu eingöngu fátæklingar, sem þurfi læknis við. Eftir minni læknisreynslu er mjer óhætt að fullyrða, að ekki sje meira leitað læknis af fátæklingum, ef til vill ekki af því að fátæka fólkið sýkist ekki eins mikið, heldur af hinu, að efnamennirnir fara oftar með hvert smáræði til læknanna, og nota fje þannig meira. Held jeg því, að honum sje óhætt að láta frv. fara sinna ferða fyrir því, að þessi uppbót lendi ekki frekar til útgjalda á fátækum en ríkum. Og jeg vil enn fremur benda hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) á það, að um öll Norðurlönd hafa læknar hækkað mjög mikið gjöld þau, er þeir taka af sjúklingum, vegna dýrtíðar. Það er og kunnugt, að í Reykjavík hafa allir frjálsir læknar hækkað gríðarlega mikið sinn læknataxta. Hef jeg þó ekki heyrt talað um neina óánægju í Reykjavík út af því.

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. hafa lesið fylgiskjalið með frv. En ef þeir hafa lesið það, þá sjá þeir, hve gífurlegur munur er á borgun lækna í Noregi og hjer. Í Noregi fá þeir fyrir tveggja kílómetra ferð kr. 5,00, fyrir 10 km. ferð kr. 8,00, og síðan fyrir hverja 5 km. kr. 2,00. Með öðrum orðum: Þeir fá 30 kr. fyrir þá vegalengd, sem vjer, íslenskir læknar, fáum 2—3 kr. fyrir. En nú skyldu menn ætla, að norsku hjeraðslæknarnir hefðu mestar tekjur sínar af þessum ferðum, en aftur lítil laun, en svo er þó ekki, því að föst laun þeirra eru miklu hærri en íslenskra lækna, og nú er í ráði að hækka þau, svo að þau geti náð 5.000 kr.

Jeg tek einmitt dæmi af Noregi, því að jeg býst við, að það sje hægast að bera hann saman við okkar land, nema hvað íslenskir læknar hljóta að slíta sjer meira út á ferðunum en norskir læknar, og ættu, þess vegna, að hafa miklu hærri borgun en þeir. Jeg vildi endurtaka það, að ef menn væru mjög bráðir á því að slátra þessu frv., en vildu þó bæta kjör lækna, að þeir þá lofuðu því að lifa fram til 3. umr., svo þeir gætu tekið saman ráð sín, til þess að bera fram sínar bótatillögur í þessu efni áður en frv. er drepið.