18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1639)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg mintist ekki á það með einu orði áðan, að jeg ætlaðist til þess, að gjaldskrá sú, sem hjer er nú í gildi, væri afnumin, og að farið yrði að borga læknum að öllu leyti úr landssjóði, svo að ekki þarf um það að ræða. Jeg geri að vísu ekki svo mikið úr því, að læknar myndu ekki vinna verk sitt jafn-trúlega og áður, þó að þeir tækju kaup sitt úr landssjóði, og jeg er sannfærður um það, að með því skipulagi, sem nú er, er sú gjaldskrá, sem nú er, nóg aðhald fyrir þá, þó að borgun þeirra verði ekki tvöfölduð. Það hefir verið minst á það, að þetta væri gömul venja, að borga svona.

En þó að það sje gömul venja, er engin ástæða til að halda henni lengur, ef annað þætti heppilegra; væri þá ekki nema rjett að breyta til.

Viðvíkjandi því, hver kauphækkun hafi átt sjer stað hjá almenningi yfirleitt, þá sje jeg ekki að það þurfi mikið að snerta kaup lækna, á þann hátt, að sú kauphækkun, sem þeim er ætlað að fá, þurfi endilega að koma frá sjúklingunum. Eins og jeg drap á áðan, finst mjer rjettast að kaup lækna sje greitt úr landssjóði. Að almenningi úti um land kunni að finnast borgunin til lækna altof lág, skal jeg ekki þrátta um, en spá mín er sú, að þeim, sem hafa orðið að vitja læknis langa leið, hafi þótt það alveg nóg, sem þeir hafa þurft að borga, því að það eru ekki nema efnamenn, sem kunna að eiga hægt með að auka gjöld við sig, og þó að hv. frsm. (M. P.) gæti þess nú, að fátæklingar, eða efnaminni menn, vitjuðu ekki fremur lækna en efnamennirnir, þá munu sjúkdómar þó vera fremur algengari meðal þeirra en hinna efnaðri manna, og verður það auðvitað því tilfinnanlegra fyrir þá að greiða gjöldin sem þau eru hærri, og því síður vitja þeir þá lækna, nema í lífsnauðsyn. Hv. frsm. (M. P.) drap á það, að gjöld þau, sem læknar erlendis taka af sjúklingum, hefðu hækkað mjög. Þetta er sjálfsagt rjett. En nú hefir líka komið fram mjög sterk hreyfing erlendis, sem fer í þá átt, að láta lækna hætta að taka gjaldið af sjúklingunum, en að ríkissjóður borgi. Skyldi það nú ekki geta stafað nokkuð af þessari hækkun? (Forsætisráðh.: Nei, hún er miklu eldri). Jæja, hún hefir samt komið fram á ný, miklu efldari og sterkari en áður. Þá drap hv. frsm. (M. P.) á það, að „taksti“ Norðmanna væri miklu hærri, en jeg býst líka við, að þessar löngu ferðir, sem hann var að tala um, komi þar miklu sjaldnar fyrir, að þeir þurfi sjaldan að vitja manna um langar leiðir þar, því eins og menn vita, þá er þar miklu þjettbýlla en hjer. Aftur á móti vita menn það, að hjer hagar svo til, að læknar þurfa oft að vera marga tíma á ferð.

Nú er það upplýst, að aukatekjur lækna sjeu víða mjög lágar, svo að þessi hækkun á gjaldskránni bætir þá býsna lítið úr kjörum læknanna, en hækkunin kemur þó þar niður, sem síst skyldi. Mjer finst það því bein mótsögn hjá þeim hv. þm., sem vilja halda fram þessu frv., að þeir lýsa yfir því, að aukatekjurnar sjeu mjög litlar og að þeir vildu miklu heldur að læknarnir fengju hækkun á föstum launum, en samt eru þeir að berjast fyrir þessu frv. Þetta finst mjer svo skýr mótsögn, að ekki verði í móti mælt.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsætisráðherra drap á, að sjúkrasamlögin væru svo öflug, að þau greiddu mikinn hluta af kostnaði meðlima sinna fyrir læknishjálp, þá er mjer nú kunnugt um það, að þróttur þeirra er ekki meiri en svo, að þau berjast í bökkum, enda er það ekki nema eðlilegt, því að þau eru svo ung enn þá, og hefir alls ekkert fje safnast. En hvað því við víkur, að Reykjavík megi standa á sama, hvort gjaldskrá lækna hækkar eða ekki, vegna þess, að hjeraðslæknirinn annar minstu af því, sem þarf að gera fyrir sjúklinga, þá skiftir mig það engu, því þetta mál snertir mjög alþjóð manna. Jeg get vel ímyndað mjer, að hjeraðslæknirinn hjer í Reykjavík hefði mestan hag af því, að gjaldskráin væri hækkuð, því að jeg ímynda mjer, að hann þurfi að fara miklu tíðar til sjúklinga en nokkur læknir úti um land. En það fæst jeg ekkert um, og læt mig mestu skifta, hvaða afleiðingar slík hækkun kann að hafa í för með sjer.

Jeg hefði fyrir mitt leyti helst kosið, að hv. frsm. (M. P.) hefði viljað gerbreyta þessu frv. Jeg get reyndar gert það fyrir hann að greiða atkv. með frv. nú til 3. umr., en í því trausti, að frv. verði þá breytt. Jeg skal vera fylgjandi því, að föst laun lækna hækki að miklum mun.