18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1642)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Háttv. þm. Reykv. (J. B.) ljet í ljós, að hann efaðist ekki um, að læknar ynnu allir eins trúlega starf sitt, þótt þeim yrðu greidd öll laun sín úr landssjóði, eins og þeir innu nú, þó þeir fái nokkuð af tekjum sínum greiddar fyrir verk sín. Jeg ætla mjer ekki að bera brigður á það, en þó gæti það verið dálítið athugavert. Og komið gæti það fyrir, þar sem læknunum er undir mörgum kringumstæðum í sjálfsvald sett, hvort þeir eigi að fara eða ekki, eða þeir mundu fremur koma sjer hjá því að fara, þar sem þeim er borgað alt úr landssjóði, heldur en ef þeir fá vissa borgun fyrir ferðina frá þeim, sem sækir þá. þetta gæti því orðið hvöt fyrir þá til þess að gegna síður, ef þeim yrði borgað úr landssjóði. Þá finst mjer það eiga betur við að styrkja þá, sem eiga langt til læknis, til þess að ná í hann, eins og gert hefir verið nokkuð að undanförnu. Sama hv. þm. (J. B.) fanst ekki kaup verkamanna hafa getað haft nein áhrif á ferðapeninga lækna, en þar er jeg alls ekki sammála honum, því 1907, þegar lögin um laun lækna og gjald fyrir læknisferðir voru ákveðin, þá mun það hafa verið miðað við það kaup, sem verkamenn höfðu þá í tímavinnu, og væri þá ekki einnig rjett nú að halda áfram þeirri stefnu?

Þá talaði hv. þm. (J. B.) einnig um það, að mönnum mundi þykja nóg að borga þann kostnað, sem þegar er bundinn við hverja læknissókn, og jeg efast ekki um að svo sje, því það er yfirleitt þannig um alt, sem menn eiga að borga, bæði opinber gjöld, og jafnvel gjöld til presta fyrir skírnir og þess háttar, en þó verð jeg að segja það, að jeg hefi aldrei heyrt menn telja eftir að borga lækninum sínum, og ef menn hafa gert það, þá mun það ekki hafa beinlínis verið af því að þeim þætti borgunin of há, heldur af öðrum ástæðum.

Þá gat hv. sami þm. (J. B.) þess, að svo mundi vel geta staðið á því, að læknum í Noregi væri borgað meira fyrir ferðir sínar heldur en læknunum hjer á landi, að yfirleitt myndu ferðalög þeirra vera styttri og þeir myndu ekki fá tiltölulega meira fyrir þær heldur en læknar hjer. Um það þarf ekki að fara langt eða grúska mikið, til þess að sjá ójöfnuðinn, og að þetta nær engri átt, því þar sem norskir læknar fá 8 kr. fyrir 10 km. ferð, sem við ríðum á klukkutíma, þá er gaman að sjá, hversu löng ferð íslensks læknis þarf að vera til þess að fá 8 kr. og við sjáum, að hann er ekki búinn að fá 8 kr. fyr en hann er búinn að vera allan guðslangann daginn á leiðinni, og nokkuð af nóttunni, því eftir 10 tíma ferðalag er hann búinn að fá 6 kr. Það er því ekki hægt að bera þetta saman við ferðakaup lækna í Noregi, því að allar lengstu ferðir okkar, verða aldrei eins dýrar og ferðir þeirra, þó styttri sjeu.

Svo spurði hv. þm. (J. B.) hvers vegna þessi leið væri farin til þess að auka tekjurnar, þar sem þetta hlyti að vera svo lítil uppbót fyrir lækna. Og þetta er alveg rjett hjá honum, en það var ekki af því, að vjer álítum þetta bestu úrlausn málsins, að vjer færum þessa leiðina, heldur völdum vjer hana af því, að vjer hjeldum, að ekki mundi þýða að fara fram á aðrar launabætur við Alþingi, eins og það er vant að taka í kröfur um launabætur embættismanna. Jeg skyldi taka því með fögnuði og styðja hv. þm. (J. B.) eftir mætti, ef hann vildi beita sjer fyrir það, að laun vor yrðu hækkuð t. d. um 1.000 kr. eða helming, því það væri svo miklu betra fyrir lækna.

Hv. þm. (J. B.) var að óska þess, að þetta mál yrði tekið út af dagskrá, svo að menn neyddust ekki til að drepa það, en jeg sje enga ástæðu til að láta þessa ósk hans rætast. Í fyrsta lagi er þetta að eins 2. umr., og menn hafa því nægan tíma til að koma með breytingartillögur sínar þar til 3. umr. verður. Svo er það í öðru lagi, að jeg skil ekki, ef menn á annað borð hafa hugsað sjer að bæta laun lækna, hvers vegna þeir hafa þá ekki komið með brtt. til bóta, allan þann tíma, sem liðið hefir milli 1. og 2. umr., sem þó er heil vika.

Hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) talaði um, að afkoma lækna væri ekki mikið verri en annara embættismanna. Jeg get því miður ekki fært sönnur á, að hann fari hjer með staðlausa stafi, en jeg leyfi mjer að vjefengja þetta, og jeg tel það víst, að kjör sveitalækna, eftir því sem þeim er borgað fyrir verk sín, sjeu yfirleitt mjög bág, og mætti helst bera þau saman við kjör presta, sem lifa sem tómthúsmenn og hafa litlar aukatekjur.

Þá talaði sami hv. þm. (B. St.) um, að tilgangslítið væri að hækka borgunina, ef læknar gæfu fátæklingum alt það, sem þeir ættu að borga þeim. En mjer finst nú það vera einmitt ein ástæðan til hækkunarinnar, að því betri sem kjör læknanna verða, því hægara eiga þeir með að ívilna fátæklingum. Svo að ef hv. þm. (B. St.) trúir, að þetta yrði, þá ætti það að vera honum hvöt til þess að greiða atkv. með frv. En þó hann nú geri það ekki, þá veit jeg að það er ekki af því, að hann vilji ekki bæta kjör lækna, heldur af því, að hann er með aðrar tillögur á leiðinni, sem fara í líka átt, og skil jeg vel afstöðu hans til málsins.

Hjeðan af verður þetta mál ekki tekið út af dagskrá, og ef menn geta ekki greitt atkv. með því, þá er ekki rjett að vera að draga það á langinn, heldur tel jeg betra að láta skeika að sköpuðu með það, hvort heldur því verður vísað til 3. umr. með fyrirvara eða ekki.

Hv. 1. þm. S.-M. (B. St.) hafði það helst við frv. að athuga, að ef það yrði að lögum, þá mundi á næsta þingi koma því fleiri óskir um styrk til þess að sækja lækna. Jeg skil ekki, hvernig hv. þm. hefir getað komist að þessari niðurstöðu, þegar hann að hinu leytinu er á því, að borgunin, sem læknirinn fær, sje ekkert í samanburði við ferðakostnaðinn. Vjer getum t. d. athugað, að ef læknirinn er sóttur á vjelbáti 10 tíma ferð, þá kostar ferðin 100 kr., en þó læknataxtinn yrði hækkaður um helming, yrði þó kaup læknisins ekki nema 6 kr. Mundi því nokkrum detta í hug að hætta við að sækja lækninn, undir svona kringumstæðum, þó hækkunin færi fram?

Annars þýðir ekki að vera að fjölyrða um þetta mál, því jeg þykist sannfærður um, eftir þeim orðum, sem menn hafa látið sjer um munn fara um kjör lækna, að frv. nái fram að ganga, og þó mikið muni verða um breytingatillögur, þá munu þær þó miða allar í þá átt, að bæta kjör lækna að einhverju leyti.