18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (1643)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Pjetur Jónsson:

Jeg ætla að eins að lýsa yfir því, að jeg er móti því, að þetta mál verði tekið úr af dagskrá, og jeg býst við, að svo muni verða um aðra nefndarmenn. Jeg álít rjett, að maður fái að sjá það svart á hvítu, hvernig hv. deild verður við þessari svokölluðu hækkun, sem í mínum augum er alls engin hækkun.

Það er alkunna, að alt hefur hækkað um helming og meira, og tekjurnar hafa líka hækkað hjá framleiðendum, hvort heldur um er að ræða hlut fiskimannsins eða afurðir sveitabóndans eða kaupeyri vinnumannsins. Jeg fæ því ekki sjeð annað en að hjer sje einungis verið að fara fram á að bæta úr því verðfalli peninganna, sem öllum er kunnugt og viðurkent er.

Að borga allan sjúkrakostnað úr landssjóði skil jeg ekki að nokkrum geti dottið í hug, og óráð tel jeg að bæta læknum hallann á gjaldskránni með því að hækka launin úr landssjóði, eins og hann er nú staddur. Það hefir einn hv. þingm. verið að tala um sjúkrasjóðina og að hækkun gjaldskrár yrði að bíða þar til lag væri komið á þá, og þeir svo öflugir og almennir að geta hlaupið undir bagga. En hækkun þessi á gjaldskránni myndi einmitt verða ný hvöt til þess að knýja það mál fram.

Það er athugavert, við umr. um þetta mál og önnur hjer á þingi, að menn eru að leita eftir einhverjum agnúum, sem þeir geti fundið á því, og svo magna þeir þessa agnúa svo í huga sínum, að þeir geta orðið nytsömu máli að fótakefli. Og svo eyða menn tímanum í það að skrafa um þessa agnúa fram og aftur, þangað til það traust, sem alþýða á að bera til Alþingis, um að greiða fyrir góðu máli og líta sanngjörnum augum á hvern málstað og láta fram við hann koma rjettlæti, er með öllu eyðilagt og brotið niður. Og svo þora menn varla að leggja fyrir Alþingi sanngjarna kröfu, alt saman út af þessu sífelda agnúaþjarki. Auðvitað mega menn ekki heldur við því að vera að bíða eftir því, að engir agnúar finnist á málum, sem ganga eiga í gegnum þingið.