27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (1655)

104. mál, skipun læknishéraða

Gísli Sveinsson:

Þegar málið um hækkun á taxta lækna var hjer til umr. fyr á þessu þingi, var jeg einn þeirra manna, sem fylgdi því, og þótti mjer leitt, að fyrir því fór eins og raun ber vitni um. Og það, sem síðar hefir komið á daginn í þessu máli öllu saman, finst mjer bera þess merki, að þeir, sem þá voru æstastir með því að fella frv., hafi líka eftir á sjeð eftir því frumhlaupi sínu. Finst mjer það bera vott um þetta, að þegar jeg og fleiri hv. þm. komum fram með till. í þá átt, að veita læknum dýrtíðaruppbót af aukatekjum þeirra, voru meðflm. þeirrar till. engu síður þeir menn, sem gengu með til þess að fella taxtahækkunarfrv., heldur en hinir, er því fylgdu.

En menn verða og að gæta þess, að till. okkar um dýrtíðaruppbót af aukatekjum lækna er ekki í meira samræmi við hækkun á föstum lánum þeirra heldur en á taxtanum. En þegar þetta frv. er nú á dagskrá, mætti segja, að það horfi öðruvísi við heldur en áður, því mönnum þarf ekki að vera nú eins illa við að hækka laun lækna hin föstu, þar sem nú er gert ráð fyrir, að nokkur launahækkun fari fram að því er snertir flesta embættismenn landsins.

Í þessu frv. eru gerðar till. um dálitla launabót handa hjeraðslæknum, en jafnframt ber að gæta þess, að læknum mun finnast sú úrlausn, sem þar er gert ráð fyrir, nokkuð léttvæg, og munu því vart geta sætt sig við hana, nema líka fáist einhver önnur uppbót.

Þegar jeg nú athuga þessar tvær stefnur, að landssjóði blæði einum, og að eins föstu launin verði hækkuð, eða þá að alþýða beri og kostnaðinn að nokkru leyti, þannig, að læknum verði leyft að hækka taxta sinn, þá verð jeg að segja, að jeg fylgi heldur þeim hv. þm.og hv. fjárveitingan., sem vilja leyfalæknum að hækka nokkuð taxtann. Það er aðallega hv. þm. N.-P. (B. Sv.), sem að þessu sinni reynir að halda uppi vörnum fyrir þá stefnu, er vill, að landssjóð blæði einum. Ef þetta væri í raun og sannleika heitasta ósk hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), þá ætti hann að koma fram með till. til breytingar á því ástandi, sem nú er. En það er víst, að þótt læknum væri leyft að hækka taxta sinn, þá yrði engin breyting á stefnu til hins verra, frá sjónarmiði almennings, sem þegar lögum samkvæmt á að borga læknum, — sjerstaklega þegar þess er nú gætt, sem komið hefir hjer fram, að læknar hafi þegar hækkað taxta sinn, og ekkert er að því fundið. Ef nú þetta er áreiðanlegt, þá skal jeg ekki, að það skaði mikið að gera t. d. þessa hækkun leyfilega. Jeg hygg því, að það sje einhver grýla, sem komið hefir af stað mótþróanum gagnvart þessari taxtahækkun. það hefir komið fram hjer, og þó einkum hjá hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að það væri ekki almenningur, sem borgaði læknum kaup, en þó er því nú svo farið, því að við almenning skilur maður ekki einn einstakan mann, heldur heildina. Og þótt svo kunni að vera, að allur almenningur verði ekki veikur undir eins eða að sama sinni, þá getur þó allur almenningur orðið sjúkur, eða hver einstakur, einhverntíma. Enda er það líka innihald laganna hjer að lútandi og gjaldskrár, að almenningur eigi að borga aukakaup lækna. Hitt verður auðvitað að telja með öllu rangt, að hjer sje nokkuð í áttina til þess að gera sjúkdómana að skattstofni. Og sjúkdómarnir geta ekki fremur talist skattstofnar, þó að fólk verði að borga lækninum fyrir að vinna bug á þeim, heldur en hver önnur verk, sem menn láta vinna fyrir sig og borga.

Þessum staðhæfingum hjá hv. þm. N.-P. (B. Sv.) er því slegið fram út í bláinn, til þess að gera þetta mál óvinsælla. Menn verða og að gæta þess, að þó að menn verði eða sjeu veikir, þá þurfa þeir ekki endilega að vera illa staddir fjárhagslega. Því að það er engan veginn sagt, að þeir verði sjerstaklega veikir, sem fátækari eru, nema þá helst á nokkrum stöðum í stórbæjunum, en slíks gætir ekki út um sveitir landsins. Þar má áreiðanlega svo segja, að sjúkdómarnir fari ekki í manngreinarálit. Sjúklingar á slíkum stöðum geta því yfirleitt alls ekki talist of góðir til þess að greiða fyrir læknishjálpina, ef þeir eru þess megnugir. Jeg hefi heldur ekki orðið var við það, að menn hafi talið eftir borgun fyrir læknishjálp; getur verið, að það hafi komið einstaka sinnum fyrir, er læknar hafa tekið því hærra fyrir verk sitt, og kann ske misheppnast, að menn hafi kveinkað sjer nokkuð, en það er þó ekki svo oft, að ástæða sje til þess að bera það fram hjer í deildinni sem algilda reglu. Það er líka kunnugt, að læknar fara einmitt mjög í „manngreinarálit“, það er að segja, að þeir taka oft hærri borgun af ríkum heldur en fátækum, þó verkið sje hið sama. Ef fara ætti nú inn á þá braut, að landssjóður greiddi einn læknum fyrir starf þeirra, þá er það í fyrsta lagi áreiðanlegt, að þeir, sem vel eru stæðir, mundu græða á því, en í annan stað stórt efamál, hvort þeir, sem verst eru staddir, mundu græða svo ýkjamikið. Jeg hygg því, að almenningi mundi vera litill greiði gerður, þótt sú stefna yrði ofan á. Og þjóðfjelaginu og sjóði þjóðarinnar yrði að því beinn ógreiði.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði einnig, að hið opinbera gerði ekkert til að ljetta undir með hinum sjúku. (B. Sv.: Jeg sagði, að ekkert væri gert fyrir þá vegna dýrtíðarinnar sjerstaklega). Það getur verið, að ekki sjeu gerðar neinar sjerstakar dýrtíðarráðstafanirfyrir sjúklingana. En mjer finst ekki nema eðlilegt, að dýrtíðin komi niður þar eins og annarsstaðar, ef sjúklingarnir geta á annað borð risið undir henni efnalega. Þeir, sem eru svo vel stæðir, að þeir geta borgað, þeir eru ekki of góðir til að borga hærra á þessum tímum en endrarnær, eins og þeir verða að borga hærra fyrir hverja aðra vinnu, sem fyrir þá er unnin. Dýrtíðin kemur því ekki til greina í þessu sambandi, nema hvað læknana snertir. — En hitt er öllum kunnugt, að hið opinbera borgar að nokkru leyti læknunum laun þau, sem þeir eiga að hafa sjer til viðurværis, að hinu leytinu er þeim heimilað að taka fyrir læknisverk sín, samkvæmt gjaldskránni. En það tekur ekki nokkru tali, hve langt það er fyrir neðan alla gegnd nú, sem þeim er ætlað að taka.

Í kaupstöðunum, þar sem frjáls læknasamkepni er, eru menn tiltölulega illa settir gagnvart háum kröfum lækna. Þar ráða menn ekki við það verðlag, sem læknar setja á læknishjálp sína, með því að mikið eru sóttir aðrir læknar en hjeraðslæknar, — læknar, sem bæði stunda menn á heimilum sínum og eru við riðnir sjúkrahús og spítala. Þeir taka fyrir læknishjálp sína eins og þeim sýnist, og almenningur sækir til þeirra engu minna en til hinna, ef þeir á annað borð hafa orð á sjer sem góðir læknar. Í sveit eru menn aftur á móti betur settir hvað þetta atriði snertir. Þar er að jafnaði ekki um annan lækni að gera en hinn launaða hjeraðslækni, og hann verður að halda sjer að mestu við hina lögákveðnu gjaldskrá. Í raun og veru yrðu menn í sveitunum enn þá betur settir en áður, ef þeir þyrftu ekki að borga fyrir læknisverk sín, nema þetta litla gjald, eftir hinni núgildandi gjaldskrá, og að eins landssjóður yrði látinn blæða. Og þeir eru enn betur settir fyrir það, að víða í sveitum og smærri kauptúnum eru nú komin upp sjúkraskýli, sem landssjóður styrkir að einhverju leyti.

Jeg get ekki sjeð, að andmælendum þessa frv. sje nokkur ágóði að því að drepa það. Um það, hvort málið sje of skylt máli, sem áður hefir verið felt hjer í deildinni, þýðir ekki að tala. Það er hæstv. forseta að kveða upp úrskurð um það, sem hann og þegar hefir gert. Það má því ekki koma til álita, er menn ákveða afstöðu sína til frv. Hitt er það, sem kemur til greina, hvort menn geti fylgt frv. að efni til, hvort stefnan, sem í því felst, sje þess verð að fylgja henni eða ekki. Og jeg verð að álíta, að þeir, sem eru andvígir þessu frv., lýsi sig með því andvíga þeirri stefnu, að þeir, sem nota lækninn, borgi honum, að mestu eða nokkru, fyrir þá fyrirhöfn, sem hann hefir þeirra vegna. Hjer eftir, sem hingað til, munu læknar fara nokkuð, eða allmjög, eftir efnum og ástæðum með gjald fyrir læknishjálp sína. Engir embættismenn hafa sýnt það betur en læknar, og engir embættismenn hefðu heldur getað sýnt það betur en þeir, að þeir jafnan hafa tekið tillit til ástæðna þess fólks, sem þeir gera eitthvað fyrir. Þeir munu að jafnaði setja upp ríflega borgun við þá, sem þeir vita að hafa efni á að borga, en mjög litla, eða jafnvel enga borgun við þá, sem efnalausir eru. Það er því ekki mikil ástæða til að mótmæla frv. frá sjónarmiði fátæklinganna, eða þykjast vera að tala þar fyrir þeirra hönd.

Jeg mun að sjálfsögðu fylgja þessu frv., eins og jeg var fylgjandi því frv. sem áður var hjer á ferðinni. Till. mín o. fl. um dýrtíðaruppbót af aukatekjum lækna mun þá ekki koma til greina, ef málið kemst í það horf, sem því er ætlað að komast með þessu frv.