27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (1657)

104. mál, skipun læknishéraða

Forsætisráðherra (J. M.):

Frá sjónarmiði læknanna skiftir það ekki miklu, hvort þeir fá uppbót á aukatekjum sínum frá sjúklingunum eða úr landssjóði. Það er meira að segja betra fyrir þá að fá dýrtíðaruppbót úr landssjóði, því aukatekjurnar yrðu þá miklu hærri, þar sem það mun mjög algengt, að læknar gefi upp meira eða minna af aukatekjum sínum, þegar fátæklingar eiga í hlut. Það er því betra fyrir læknana að fá dýrtíðaruppbótina úr landssjóði, því annars tapa þeir oft bæði upphaflega gjaldinu og viðbótinni. En hvort rjett er að halda inn á þá braut, er samt vafasamt. — Jeg skal ekki fara mikið út í það mál. Jeg hefi látið í ljósi skoðun mína á því áður, þegar þetta eða svipað mál var hjer á ferðinni, og jeg finn enga ástæðu til að endurtaka neitt af því nú.

Meðan ekki koma fram neinar till. um það að bæta laun læknanna, eða að veita þeim dýrtíðaruppbót af aukjatekjum þeirra, þá finst mjer rjettast, að þetta frv. fái að halda áfram. Jeg er ekki í neinum efa um það, að læknum mun yfirleitt finnast það harla lítil bót á kjörum sínum, ef þeir fá ekki annað en það, sem farið er fram á í frv. því, sem stendur næst á dagskránni. Fyrir mitt leyti er jeg ekki í efa um það, að hjá miklum hluta lækna er það alvara að segja lausum embættum sínum, ef ekki er tekið í sanngjarnar kröfur þeirra hjer á þinginu. Margir þeirra mundu vafalaust græða mikið á því, því þá gætu þeir sett upp svo mikið sem þeir vildu fyrir læknisverk sín. Þar sem mannmargt er og aukatekjur eru miklar, — og í sumum hjeruðum eru þær jafnvel meiri en launin — þar er hægt að hækka borgunina fyrir læknisverkin svo, að læknirinn græði á því að sleppa embættinu. Aftur á móti mundu læknar í fámennum sveitahjeruðum skaðast á því. En jeg er líka viss um það, að íslensku læknarnir eru ekki bundnir við þetta land. þeir geta fengið atvinnu annarsstaðar, ef þeir vilja snúa sjer að því. Mjer finst því ekki tiltök annað en að verða við kröfum læknanna. það mundi hver einstaklingur gera, að sinna þannig vöxnum kröfum þjóna sinna, og það verður þjóðfjelagið að gera, þegar svona stendur á.

Jeg tel því rjettast, að þetta frv. fái fram að ganga að sinni. Ef eitthvað annað verður komið upp á teninginn, þá má breyta því eða hverfa frá því við 3. umr. Ef til vill vilja menn heldur hækka uppbót læknanna í frv. um launauppbót embættismanna. En jeg vona að minsta kosti, að hv. deild sje nú svo rjettsýn og framsýn, að hún sjái, að ekki eru tiltök að neita læknastjettinni um rjettmæta uppbót á kjörum hennar.