27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (1658)

104. mál, skipun læknishéraða

Benedikt Sveinsson:

Hjer hefir margt verið talað af þeim, sem málinu eru meðmæltir. Sumt af því, sem sagt hefir verið, er svo langt utan við efnið, að ekki tekur því að elta það, og sumt er misskilningur á orðum mínum og annara. Það mundi lengja þingtíðindin óþarflega mikið að fara að leiðrjetta eða svara því öllu saman. Jeg ætla því einungis að drepa á fáein atriði og láta við það sitja.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hjelt að oss mundu hafa þótt harðar árásirnar í opinberum blöðum, sem vjer höfum orðið að sæta fyrir það að greiða atkvæði á móti gjaldhækkunarfrv. um daginn, og það því harðari, sem þær hefðu verið á rökum bygðar. En það er alls ekki af því, að oss þættu árásirnar harðar, sem jeg hreyfði mótmælum hjer, heldur af því, að mjer fanst sannleikurinn fyrir borð borinn. Jeg vildi því gera grein fyrir atkvæði mínu nú, fyrst þetta mál var vakið upp hjer í deildinni. Þá var sami háttv. þm. (M. P.) að tala um, að nokkrir þingmenn hefðu ætlað sjer að bæta kjör læknanna, og komið með brtt., sem átti að vera miðlun í málinu, en tóku hana svo aftur á síðustu stundu, til þess að drepa frv., og hafi svo ekki komið með neitt í málinu síðan. Jeg verð að gera þá grein fyrir minni aðstöðu í málinu, að jeg var alls ekkert við þessa brtt. riðinn. Það eru því ekki nema fáeinir þm., sem þurfa að taka til sín ávitur hv. þm. (M. P.). Satt að segja fanst mjer það standa honum næst, sem frsm. þessa máls, að koma með nýjar till., þegar hann fann mótspyrnuna í deildinni, en vissi, að byr mundi fást fyrir aðrar till. til bóta á kjörum læknanna, sem hann sætti sig engu síður við.

Sami háttv. þm. (M. P.) kvað það alment áht um alt land, að þeir þm., sem greiddu atkv. gegn frv. um hækkun gjaldskrárinnar, ættu litlar þakkir skildar. Þessa ályktun byggir hann á því, að honum hafi borist brjef eða símtöl frá þrem mönnum. Mjer finst það nú harla veik ástæða að byggja á þá ályktun, að allur þorri manna á landinu líti svona á, þótt hann hafi talað við þrjá kunningja sína, er fjellust á mál hans, sem ef til vill eru þá ekki heldur alveg óskyldir læknastjettinni.

Jeg er alls eigi á móti því, að bæta kjör læknastjettarinnar, eins og jeg hefi svo margoft sagt áður. En jeg vil heldur, að það sje gert með því að hækka föstu launin, sem goldin eru úr landssjóði, heldur en með því að hækka læknataxtana, sem kemur jafnt niður á ríkum og fátækum, hraustum og vanheilum.

Þá sagði sami háttv. þm. (M. P.), að jeg hefði farið hörðum orðum um forvígismenn Læknafjelagsins og meðal annars kallað þá óvitra. Það sagði jeg aldrei. En jeg sagði, að till. þeirra hefðu verið óviturlegar, og það getur jafnvel vitrum mönnum orðið á að koma með miður viturlegar till. Einnig þótti honum það illa að orði komist hjá mjer, að tala um að gera sjúkdóma að gjaldstofni, þar sem það hefði að eins verið gert áður, er læknataxtinn var saminn í öndverðu. En þar er alt öðru máli að gegna, þó læknum hafi verið goldin nokkur þóknun fyrir læknisverk sín. Þeir munu vera fáir, sem ekki sýnist það rjettmætt, að læknum sje borgað eitthvað sjerstakt fyrir aukaverk sín. Það mundi ekki vera gott eða heppilegt, ef ætti að launa þeim að öllu leyti úr landssjóði. Þá fjelli í burtu hvötin til þess að sinna þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar, og það er hætt við, að sumir þeirra yrðu þyngri til langra ferðalaga og stirðari að sinna óskum almennings, ef laun þeirra væru að öllu leyti föst og ekkert goldið fyrir einstök verk, sem þeir gera. Hitt er deiluatriðið, hvort það sje rjettmætt að veita læknunum uppbót á tekjum sínum á þessum óeðlilegu tímum á þann hátt, að þyngja byrði sjúklinganna. Á það legst ýmislegur kostnaður annar en lækniskostnaðurinn, sem líka er hærri en venjulega, af völdum dýrtíðarinnar. Það kemur alt enn þá harðara niður en ella. Ferðalög eru nú öll miklu dýrari en áður, og sömuleiðis allir flutningar og öll hjúkrun og aðhlynning. Þetta hefir líka háttv. þm. Stranda (M. P.) viðurkent. En það er nú líka vitanlegt, að því dýrara sem alt annað verður sjúklingunum, því harðara kemur hækkun læknagjaldsins niður á þeim.

Nú hefir það komið fram hjá ýmsum ræðumönnum, sem og er vitað og einnig kom fram í grein formanns Læknafjelags Íslands, að læknar fara ekki eftir taxtanum. Þeir taka oft hærra gjald, og eins og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, fara í manngreinarálit eftir efnum manna, er þeir taka gjald fyrir læknishjálp sína. Hvers vegna er þá nauðsynlegt að staðfesta hækkunina með lögum? Tilgangurinn getur ekki verið annar en sá, að læknar geti gengið að þeim með oddi og egg, er ekki hafa efni á því að greiða hærra gjald en kveðið er á í læknataxtanum, í stuttu máli, að þeir geti tekið uppbót sína í þeim stöðum, er síst skyldi og ómaklegast er.

Hv. framsm. (M. Ó.) gat þess, að þessi uppvakningur hefði angrað mig og ásótt, og það að maklegleikum, þar sem jeg hafi verið í þeirra tölu, er sálguðu honum. En ekki er það rjett, er hann ljet um mælt, að hann mundi mjer enn örðugri ef honum yrði sálgað aftur. Uppvakningum er ekki sálgað, en fróðir menn og fjölkunnugir hafa oft kveðið þá niður. Jeg vona, að það takist um þenna uppvakning, og býst jeg varla við því, að jeg verði neitt skelkaður eftir þá athöfn.

Annars kendi nokkurrar mótsagnar í ræðu háttv. framsm. (M. Ó.). Hann sagði, að meginreglan ætti að vera sú, að þeir greiddu lækninum, er á hans aðstoð þyrftu að halda, alveg eins og menn greiða smiði fyrir að gera við bát eða hjólbörur. Þetta getur látið vel og sennilega í eyrum. En svo snýr hv. framsm. (M. Ó.) við blaðinu og vill að allir taki höndum saman og myndi sjúkrasamlög. En þá greiða hinir ósjúku fyrir þá, sem sjúkir eru. Og það er einmitt þetta, er vjer viljum gera. Vjer viljum, að landið sje alt eitt sjúkrasamlag, og að landssjóður beri byrðarnar með þeim og borgi fyrir þá, sem sjúkir eru. Framkoma vor er því í fylsta samræmi við það fyrirkomulag, er hann kveður best allra.

Þá þótti hv. framsm. (M. Ó.) það útúrsnúningur einn, er jeg sagði, að almenningur og sjúklingar væru ekki eitt og hið sama. En þar hygg jeg, að jeg hafi á rjettu að standa. Það er, sem betur fer, eigi nema lítill hluti almennings, sem sjúkur er. Og þeir einir, sem sjúkir eru, eiga að greiða uppbótina. En allur almenningur greiðir læknunum kaup, þar sem hann geldur til landssjóðs, og aukið kaup þeirra kemur niður á honum. Almenningur sleppur því ekki, þó að kaupið sje hækkað.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefi jeg þegar svarað að nokkru leyti. Það er rjett hjá honum, að dýrtíðaruppbót af aukatekjum lækna er í meira samræmi við taxtahækkunina heldur en hækkun á fastalaununum. Þá miðast uppbótin við það, sem þeir hafa lagt á sig, ef skýrslurnar um aukatekjur eru annars rjettar. En till. sú, er hann bar fram í þessa átt, hefir ekki komið aftur, síðan er henni var vísað til nefndar. Væri það nær mínu skapi að samþ. till., heldur en frv. það, er nú liggur fyrir. Sá tekjuauki læknanna kæmi ekki niður á sjúklingum.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók undir með öðrum um það, að þeir, er læknis þyrftu, ættu að greiða læknishjálpina. Þetta er engan veginn sjálfsagt. Öll sjúkrasamlög og frílækningar stefna einmitt að því að ljetta kostnaði af þeim, sem við sjúkdóma eiga að stríða.

Jeg hygg, að þetta mál sje svo þrautrætt, að frekari umræður muni ekki breyta afstöðu manna. Hjer er að ræða um tvær andvígar stefnur, er báðar liggja ljóst fyrir. Það eru þær sömu stefnur, sem börðust, er hitt frv. var felt, og hygg jeg því, að hjer hljóti að fara á sama veg.