22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

36. mál, stimpilgjald

Jóhannes Jóhannesson:

Því miður hefir mjer ekki unnist tími til þess að athuga frv. eins vel og þyrfti, en jeg vil þó leyfa mjer að bera fram nokkrar athugasemdir með þeirri ósk, að háttv. nefnd taki þær til yfirvegunar til næstu umræðu.

Í 2. gr. frv. er kveðið svo á, að stjórnin megi greiða 2 af hundraði af þeirri upphæð, sem inn kemur við söluna, í innheimtulaun. Þessi sölulaun, 2%, eru, að því er mjer finst, óforsvaranlega lág, og skal jeg í því sambandi benda á, að sölulaun af frímerkjum er 4%, og þó að sölulaunin sjeu svona lág, þá er sá, sem sjer um stimplunina, skyldur til þess, samkvæmt 9. gr., að veita frest á skattgreiðslunni, en ber þó samkvæmt 11. gr. fulla ábyrgð á gjaldinu. Fyrir þessa ábyrgð, reikningsskil og stimplun, á hann að fá 2%. Jeg skil ekki, að það verði sótt eftir þeim starfa. En ef til vill er það ætlun þingsins að krefjast þessa af embættismönnum landsins, án nokkurs tillits til þess, hvort borgunin, sem þeir fá, er sæmileg eða ekki.

Þá er í 4. gr. talað um, að stimpla skuli skjöl um sölu fasteigna og skipa, hvort heldur eru kaupsamningar, makaskiftabrjef, gjafabrjef, próventusamningar eða önnur slík skjöl. Mjer finst þetta ekki heppilega orðað, þar sem strax á eftir sölu er verið að tala um gjafabrjef. Jeg vildi því beina því til háttv. nefndar að lagfæra orðalagið um þetta.

Í 5. gr. er talað um, að stimpla skuli fjelagssamninga um leið og þeir eru staðfestir eða þinglesnir. En nú eru þeir sjaldan þinglesnir eða staðfestir, en aftur eru þeir oft skrásettir. Ef þá á að stimpla þá, þá ætti að bæta „skrásettir“ inn í greinina.

Í sömu grein og í sama staflið er sagt, að sje fasteign eða skip afhent fjelaginu til eignar og umráða, þá skuli greiða stimpilgjald, er nemi 1% af verðhæðinni, en nú kemur það oft fyrir, að fasteignir eða skip eru afhent öðrum til eignar á þann hátt, að nýi eigandinn tekur að eins að sjer skuldir þær, er hvíla á eigninni, en þá á að stimpla það líka samkvæmt sömu grein, staflið e, um yfirfærslu á skyldum skuldunauts til annars.

Í c-lið eru vígslubrjef tekin undan og ekki ætlast til nema einnar krónu stimpilgjalds af þeim. En hjer verður þess að gæta, að nú hafa menn jafnt leyfi til að giftast borgaralega eins og kirkjulega, og ætti því samræmis vegna að sjá svo til, að stimpilgjald lendi jafnt á þeim, sem gefin eru saman borgaralega, eins og hinum, sem velja kirkjulega vígslu, þannig, að sama stimpilgjald verði á leyfisbrjefum til undanþágu frá hjúskaparlýsingu og hjónavígslubrjefum.

Í d-lið er svo ákveðið: „Embættisveitingabrjef eða sýslanabrjef,sem stjórnarvöld veita, skal stimpla þannig“ o. s. frv. Jeg vil að eins benda á, að þar undir hljóta að heyra skipunarbrjef fyrir hreppstjóra og yfirsetukonur, auk ýmsra annara launalágra sýslunarmanna. — Undir leyfisbrjefin heyra að sjálfsögðu leyfisbrjef til lausamensku, og hækkar verð á þeim þá vegna stimpilgjaldsins um meira en helming, og virðist það nokkuð mikil verðhækkun.

Í f-lið stendur: „Fullkomnar dómsgerðir eða aðrar rjettargerðir in forma fyrir hjeraðsrjetti skal stimpla með 2 krónum“. Hjer er engin undantekning gerð, þótt rjettargerðirnar snerti opinber mál, og er þó víst ætlast til, að þær sjeu undanteknar. Má vera, að það eigi að felast í 1. gr. En nægilega skýrt kemur það ekki fram í greininni.

I-liður hljóðar svo: „Byggingarbrjef og leigusamninga skal stimpla“ o s. frv. En um það stendur ekkert, hvort brjefin eða samningarnir skuli því að eins stimpluð, að þau sjeu þinglesin. Hjer er og engin undantekning gerð um þjóðjarðir og kirkjujarðir.

Þá er eftir síðasti liður 6. greinar. Þar stendur svo: „Ákvæði um, að ekkja skuli sitja í óskiftu búi, skal stimpla með 1 krónu, ef þau eru sjerstaklega gerð“. Hjer er víst átt við það, ef maður veitir í erfðaskrá ekkju sinni rjett til að sitja í óskiftu búi, og ætti því að stimpla slíka erfðaskrá eins og aðrar erfðaskrár.

Í 7. gr. stendur: „Erlendir víxlar og ávísanir eru þá fyrst stimpilskyldir, er þeir eru samþyktir, og víxlar og ávísanir, sem eiga að greiðast við sýningu, um leið og þeir eru innleystir“. En nú getur farið svo, að víxlarnir verði alls ekki greiddir hjer. Það getur hugsast, að menn láti dæma sig til þess að greiða útlenda víxla af þeirri ástæðu, að það verði þeim kostnaðarminna en að greiða stimpilgjaldið. — Í síðustu málsgrein 7. greinar er svo ákveðið, að bankar og sparisjóðir skuli „annast innheimtu stimpilgjaldsins og afgreiðslu þess í landssjóð“. En hvaða líkur eru til, að þessar stofnanir vilji taka þetta að sjer fyrir þau ómakslaun, sem lögin ákveða, 2 af hundraði? Er ekki líklegast, að lánstofnanirnar segist helst vilja vera lausar við þess háttar „forretningu“?

Í 9. gr. er innheimtumönnum gert að skyldu að lána mönnum stimpilgjaldið, ef það getur valdið þeim rjettarmissi eða verulegum óþægindum að synja um stimplun skjals og afgreiðslu, en samkvæmt 11. gr. ber innheimtumaður og ábyrgð á stimpilgjaldinu. Hann ber ábyrgð á því fje, sem hann er skyldugur að lána öðrum. Þetta er ótækt, og má ekki svo búið standa.

Í 10. gr. stendur: „Sektina ákveður lögreglustjóri með úrskurði, er áfrýja má til yfirrjettar“. Eftir þessu getur bæjarfógeti hjer í Reykjavík ekki kveðið upp úrskurð um þessi efni.

Ákvæði 11. greinar um ábyrgðina hefi jeg áður minst á.

Í 12. gr. stendur, að „sá einn svari til sekta, sem gerst hefir sekur í brotinu“. En stundum gæti leikið vafi á því, hver er sekur í brotinu, ef ekki er frekar til tekið en hjer er gert.

Við hvað er átt með þessum orðum 1. greinar: „Ákvörðunum þeim og úrskurðum, sem lögmætur innheimtumaður stimpilgjalds gerir“ o. s. frv.? Er átt við úrskurði, sem bankar og sparisjóðir gera um stimpilskyldu eða upphæð gjaldsins?

Eins og jeg tók fram í byrjun, skýt jeg þessum athugasemdum fram til athugunar í nefnd þeirri, sem fjallar um þetta mál.