27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (1662)

104. mál, skipun læknishéraða

Einar Árnason:

Jeg skal vera stuttorður. Jeg stóð upp út af því, að háttv. þm. Stranda. (M. P.) mintist á brtt., sem jeg ásamt nokkrum fleiri hv. þm. flutti fyrir nokkru síðan hjer í deildinni. Þessa brtt. tók jeg aftur áður en til atkv. kom. En nú lýsir þessi hv. þm. (M. P.) því yfir, að ef þessi till. hefði komið til atkv., hefði hún vafalaust verið samþykt. En hann getur alls ekki fullyrt neitt um það, hvort till. hefði orðið samþ. eða ekki. En hafi hann eða aðrir hv. þm. litið svo á, að till. væri góð og þörf, þá var hægurinn hjá fyrir hann eða aðra að taka hana upp. En svo var ekki gert.

Jeg get vel skýrt frá hvers vegna till. var flutt. Við, sem fluttum till., og margir aðrir þm. vorum mótfallnir taxtahækkun lækna. En það var ekki víst, hvernig málinu myndi reiða af, og fyrir því fluttum við þessa brtt., til miðlunar, því að af tvennu illu vildum við heldur það skárra. En svo urðum við flutningsm. þess varir, að margir voru andvígir till. okkar og einráðnir í að fella frv. Þess vegna vildum við alls ekki láta till. koma undir atkv.

En það var annað, sem háttv. þm. Stranda. (M. P.) tók og fram í þessu sambandi. Hann sagði að þeir, sem hefðu aðra stefnu í þessu máli, hefðu ekki gert annað en að gala hátt og koma með lauslegar bendingar um sitthvað. En þetta er alls ekki rjett, því að við 5 þm. höfum flutt till. á þgskj. 244, þar sem farið er fram á að veita læknum dýrtíðaruppbót af aukatekjum. Alþingi var áður búið að ganga inn á þá braut, að veita dýrtíðaruppbót af aukatekjum, og því alls ekkert óeðlilegt að halda því áfram, ef á annað borð ætti að gera læknum hærra undir höfði en öðrum embættismönnum. En þegar svo þetta mál alt kemur til fjárveitinganefndar, þá stingur hún þessari till. undir stól, en flytur í stað þess frv., sem fer í sömu átt og búið var að fella áður. Í raun og veru er fjárveitinganefndin með þessu að kasta hanskanum framan í meiri hluta þessarar deildar. og jafnvel þeir 2 háttv. fjárveitinganefndarmenn, sem talað hafa fyrir þessu frv., hafa líka kastað hanskanum framan í meiri hluta deildarinnar, með því að segja, að ummæli Læknablaðsins um allmarga þingmenn persónulega hafi verið að maklegleikum. Og þótt svo ólíklega kynni að fara, að frv. verði samþ., þá er það ekki fyrir þá sök, að tekist hafi neitt sjerstaklega þinglega að mæla með því.