27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (1664)

104. mál, skipun læknishéraða

Stefán Stefánsson:

Af því að jeg býst ekki við að geta greitt þessu frv. atkv. mitt, þá vildi jeg með örfáum orðum gera grein fyrir þeirri afstöðu minni.

Það er nú búið að taka það fram, að læknar fari ekki eftir þeirri gjaldskrá, er nú gildir. Sje jeg því ekki, að verulega mikið sje unnið við þetta frv. Jeg get ekki sjeð, að þeim læknum, sem hafa leyft sjer að taka hærri gjöld en gjaldskráin mælir fyrir, geti verið það mikið áhugamál eða kappsmál, að slíkt frv. nái fram að ganga.

En svo er önnur ástæða, og hún er sú, að þeir læknar hafa best upp úr þessari 50% hækkun á gjaldskránni, er síst þurfa á auknum tekjum að halda. Það verður mestur hagur fyrir þá, er mestan „praxis“ hafa, en þeir læknar, sem hafa verið svo óheppnir, að lenda í fámennum og strjálbygðum útkjálkahjeruðum, og hafa þar af leiðandi lítinn ,praxis“ og miklum mun verri aðstöðu, þeir verða litlu bættari. Tekjumismunur þeirra og hinna verður enn meiri, en þess á þingið einmitt að gæta, að gera hjer á sem mestan jöfnuð og láta þessa menn fá hækkun. Því að það er ekki sagt, að sá læknirinn, sem lendir í fámennu útkjálkahjeraði, sje að neinu leyti ver undir það búinn að leysa af hendi mikilvæg læknisverk en hinn, sem fær fjölmennara hjeraðið. þetta misrjetti ætti frv. að laga, en þar sem það gerir það ekki, þá greiði jeg því ekki atkvæði.

Svo er líka annað, sem verður að koma til athugunar í þessu sambandi. Jeg hefi heyrt það af munni læknis, sem þekkir vel hag síns hjeraðs, og álítur hann, að þar sem hann þekkir best til, þá þyldi almenningur ekki öllu hærri taxta en nú er. Það getur nú vel verið, að fjöldinn allur þoli það, en það er mjer vel ljóst, að allmargir muni eiga fullerfitt með að gjalda eftir núgildandi taxta.

En svo liggur nú hjer fyrir háttv. deild, sem 2. mál á dagskrá, frv., sem mælir svo fyrir, að laun hjeraðslækna skuli hækkuð um 500 kr. Með dýrtíðaruppbót hafa þá læknarnir 2.600 kr. laun úr landssjóði. Þegar svo ofan á þessi laun úr landssjóði bætist „praxis“, þetta 500—1.000—1.700 kr., þá hygg jeg, að læknar alment muni geta allsæmilega lifað af þeim launum. Mjer finst, að þegar launin eru komin upp undir eða yfir 4.000 kr., þá geti þau talist allvel viðunanleg. Þess vegna hefi jeg álitið, að verði frv., sem næst er á dagskránni, samþykt, þá sje fengin talsvert veruleg bragarbót á kjörum lækna.

Og þegar litið er á frv. það, er hjer lá fyrir deildinni, um 100% hækkun á „praxis“ og ferðataxta, og flutt var að tilhlutun lækna, þá sje jeg ekki betur en að rjettur þeirra hjeraðslækna, sem hafa t. d. 500 kr. aukatekjur, sje eins vel trygður með þessu frv. Þeir fá hjer 500 kr. launaviðbót, og er það sama sem þeir hefðu 1000 kr. aukatekjur. En hinir, sem lægri aukatekjur hafa, fá líka 500 kr. Hjer er því fyllilega bætt upp einmitt þeim læknum, er þyrftu að fá launaviðbót. Hygg jeg því, að þeir læknar, er eiginlega þurfa að fá hækkun, geti verið eins ánægðir með að fá það frv. samþ., sem næst liggur fyrir á dagskránni, og þá prósentuhækkun, er fyrst var borin fram, og því lítil ástæða til að farið sje að hækka gjaldskrá og ferðataxta, sem er mestur vinningur fyrir þá, er síður þurfa þess, en á hina hliðina mörgum fátæklingnum til verulegs óhagræðis.

Af þessum ástæðum greiði jeg atkv. móti frv.