02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (1676)

107. mál, verðlagsnefndir

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi verið einn í tölu þeirra manna, sem ekki hafa haft trú á, að verðlagsnefndin gæti gert verulegt gagn í þessu landi, eins og ástatt er. Jeg hefi verið eitt misseri í verðlagsnefnd og er töluvert kunnur störfum hennar og þeim erfiðleikum, sem hún á í höggi við. Enn fremur er mjer ljósara en áður það gagn, sem nefndin hefir gert, en mjer er einnig ljóst, að ýmsar hömlur eru á því, að nefndin geti afrekað svo mikið sem skyldi.

Það er alkunnugt lögmál, að framboð og fölun ræður verðlagi á vörum alstaðar í heiminum, þar sem frjáls viðskifti eiga sjer stað. Nú hafa víða í löndum verið settar ýmsar reglur um verðlag, síðan ófriðurinn hófst, og gengur misjafnlega að framfylgja þeim. Hjer í landi verður mjög erfitt að fá menn til þess að hlýðnast hámarksverði þeirrar vöru, sem lítið er framleitt af, en eftirspurn mikil. Menn fara þá sínu fram, og eftirliti verður oft ekki komið við. Verðið hefir verið mjög breytilegt, og farið síhækkandi, og þess vegna hefir verið oft erfitt að ákveða verð á t. d. erlendri vöru, sem seld er í stórsölu. Á hinn bóginn hefir ástandið verið svo, að þó að verðlagsnefndin hafi viljað hafa hönd í bagga með stórsölu, þá hafa stórsalarnir verið búnir að selja vöruna þegar á skipsfjöl, áður en nefndin gat tekið í taumana, og þess vegna hefir orðið erfitt að leggja hömlur á verðhækkun.

Hins vegar hefir verið auðveldara að sjá um verð hjá smásölum, einkum þegar langur tími hefir liðið milli skipaferða. Og það hefir verðlagsnefndin gert; hún hefir haft stöðugt eftirlit með verðlagi smásalanna og komist að þeirri niðurstöðu, að þeir hafi farið heldur hóflega í sakirnar. Þeir hafa oftast hækkað vöruna um nærfelt 10%, og má sú hækkun naumast minni vera, til þess að standast kostnaðinn og hafa eitthvað upp úr þessum atvinnurekstri. Ef sumir kaupmenn hafa selt vöruna hærra verði, hefir verðlagsnefndin talað við þá og fengið þá til þess að setja niður verðið.

Það er líka miklum erfiðleikum bundið að ákveða verðlag á innlendri vöru. Þegar framboðið er lítið, svo sem á feitmeti, svo að varan fæst naumast, þó að neytendur sækist eftir henni, þá er ekki hægt við að gera, þó að framleiðendur selji dýrara en verðlagsnefnd ákveður.

Ef nefndin ætti að geta beitt sjer til fulls um verðlag á erlendri vöru, þyrfti að banna sölu á vörunni þangað til nefndin hefði ákveðið verðið.

Um frv. það, sem hjer liggur fyrir, er það að segja, að jeg hefi litla trú á, að það verði að nokkurum notum. Þó að það sje satt, að verðlag á innlendri vöru sje mismunandi á ýmsum stöðum, þá hygg jeg erfitt að framfylgja heimildum þeim um verðlag, sem frv. gerir ráð fyrir, svo að nokkru gagni komi. Það væri alveg þýðingarlaust að setja verð á vöru, nema sama verðið gildi yfir stórt svæði. Til hvers væri að leggja verð á t. d. kjöt í Reykjavík, ef hámarksverðið yrði hærra í Hafnarfirði og fram á Seltjarnarnesi, og ef til vill ekkert hámarksverð suður með sjó? Þar, sem minna er aflað af vöru en neytendur þurfa á að halda, gæti verðlag nefndarinnar ekki komið að nokkurum notum. Varan mundi óðara hverfa þangað, sem hámarkið væri hærra, eða ekkert hámark væri á henni. Menn mættu þá að ósekju kaupa vöruna og selja utan kaupstaðanna svo háu verði sem vildi, og sjá allir, hversu algagnslaust hámarksverðið hlyti þá að verða.

Jeg hygg þess vegna, að svo þýðingarlítil sem verðlagsnefndin er nú, þá muni hún þó verða enn þá þýðingarminni, ef þetta frv. verður samþykt. (B. K.: Þetta er að eins heimild). Til hvers er að samþykkja heimild fyrir 4—5 bæjarfjelög til þess að gera það, sem er helber hjegómi? Slíkt er að eins sjálfsblekking.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) benti á það, að þar sem nú væri gerður viðskiftasamningur við Breta, og landsstjórnin tæki vöruskiftin í sínar hendur, þá gæti hún ráðið verðlagi á þeirri vöru. Þetta er rjett. En þess ber jafnframt að gæta, að margar vörutegundir ganga ekki í gegnum hendur landsstjórnarinnar. En í gær var samþykt frv. þess efnis, að stjórninni skuli heimilt að hafa eftirlit með öllum vörum, sem flyttust til landsins. Það er ætlast til, að stjórnin láti innflutningsnefnd annast um þetta eftirlit, og þar á meðal með vöruverðinu. Sýnist það ekki ófyndið, þar sem meiri hluta nefndarinnar skipa stórkaupmenn, og þá vonandi, að það sje sæmilega trygt, að hagur þeirrar stjettar sje ekki fyrir borð borinn.

Mjer dettur samt í hug, hvort það mundi vera úr vegi, að stjórnin hefði óháða verðlagsnefnd sjer til aðstoðar til þess að ákveða vöruverðið. Nú væri betur búið í hendur nefndarinnar en áður var, þar sem stjórnin hefir tögl og hagldir á allri innfluttri vöru. Hygg jeg, að alþýðu manna mundi þykja tryggara, að óháð verðlagsnefnd hefði hönd í bagga um verðið, heldur en að eiga það undir nefnd, þar sem stórkaupmennirnir ráða mestu.

Mjer hefir skilist, að meginmótspyrnan gegn verðlagsnefndinni hafi verið sú, að hún hefði kostað landið 9.000 kr. Og á hinn bóginn heyrðist það altaf kveða við, að nefndin geri ekki annað en að hirða kaup sitt. þetta er þó rangt, því að nefndin tekur ekki kaup fyrir annað en það, sem hún hefir unnið. Síðustu 5 mánuðina hefir þessi kostnaður ekki farið fram úr 500 kr. samtals. Þessi nefnd tekur ekki kaup fyrir það eitt „að vera til,“ eins og sumar milliþinganefndir hafa gert, t. d. fánanefndin. Hygg jeg vafasamt, að stjórnin fái ódýrari aðstoð í þessu efni annarsstaðar. Þá gæti og komið til mála að afnema kaup nefndarinnar, því að starf hennar mun ekki verða svo umsvifamikið, að hún þurfi að vinna nema endrum og sinnum.

Hitt virðist mjer varhugavert, að afnema nefndina með öllu, og væri ekki ólíklegt, að blöðin kynnu að fjargviðrast út af því við stjórnina á eftir, því að „góður er hver genginn.“ Hún hefir einatt verið skömmuð fyrir ýmislegt, sem hún hefir gert eða ógert látið. Dettur mjer í hug, að svo gæti farið, að bráðlega yrði þá skorað á stjórnina að skipa nýja verðlagsnefnd með bráðabirgðalögum. Annars læt jeg mjer þetta í ljettu rúmi liggja. En jeg býst við, að eigi mælist það vel fyrir, að stjórnin og almenningur eigi alt verðlag undir stórsalanefnd.