02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (1680)

107. mál, verðlagsnefndir

Pjetur Ottesen:

Það er nú ekki að ástæðulausu, að jeg kveð mjer hljóðs, eftir þennan reiðilestur háttv. verðlagsnefndarmanns (J. B.), því í þetta sinn var það verðlagsnefndarmaðurinn, sem talaði, en ekki þingmaðurinn. Jeg spurði mikinn viðbúnað í þeim herbúðum, þegar það heyrðist, að við ætluðum að flytja á þessu þingi frumv. til laga um afnám verðlagsnefndarinnar. Mjer kom því ekki á óvart að heyra þessa varnarræðu. En af því að jeg hafði haldið, að það lægi ekki alveg á lausu gullið og gæðin, sem þessi hv. nefnd, að dómi þessa skjaldsveins hennar hjer í deildinni, hefir ausið yfir innbyggjendur þessa lands, með sínu starfi, þá finst mjer ástæða til að athuga dálítið þessa varnarræðu. Jeg skal að mestu taka atriðin í þeirri röð, sem þau komu fram.

Jeg vil þá taka það fram fyrst, að það er einhver sá rjettasti mælikvarði á það, hve þessir úrskurðir verðlagsnefndarinnar hafi verið haldgóðir og bygðir á rjettlátum grundvelli, að þeir hafa oltið um sjálfa sig, hafi þeir ekki verið teknir strax aftur eða skornir niður. (J. B.: Það er ekki rjett). Tveir munu standa enn, þeir sem lúta að hangikjötinu og beitutekjunni á Breiðafirði!! Vitanlega sýnir þetta ljósast og best, hvað alt starf verðlagsnefndarinnar hefir alt verið frámunalega fljótfærnislegt og bandvitlaust.

Jeg tók það fram, að verið gæti, að verðlagsnefnd hefði ekki haft það vald, er hún þurfti til nauðsynlegra framkvæmda í þá átt, að ákveða álagningu á vörur hjá kaupmönnum, og hefði þá nefndin átt að bera sig upp undan því við þingið, ef hún þættist þurfa að fá aukið vald sitt. Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að hún hefði borið sig upp undan þessu við stjórnina og bjargráðanefndirnar. þetta hefir þá verið á þessu þingi. Nú hafa þær ekki viljað sinna þessari málaleitun. Þekki jeg að vísu ekki ástæðurnar til þess, en vart mun það hafa verið að ástæðulausu.

En það leynir sjer ekki, að verðlagsnefndarmennirnir hafa verið nokkuð lengi að átta sig á þessu valdaleysi sínu, því að á síðasta þingi kom engin umkvörtun fram út af þessu. En satt að segja skal það vera óátalið af mjer, þó bjargráðanefnd og landsstjórn hafi ekki viljað stuðla neitt til þess, og leggja meiri völd upp í hendur þessarar nefndar, eins og hún hefir farið að ráði sínu, þá tók háttv. þm. (J. B.) það fram, að kaupmenn hafi lagt misjafnt á vörur landsverslunarinnar og að verðlagsnefnd hefði bætt úr því. Mintist hann á sykurinn í Stykkishólmi og smjörlíkið í Hafnarfirði. Getur verið, að þeir úrskurðir verðlagsnefndar hafi haft þýðingu í svipinn, er þeir voru kveðnir upp, kanske dægur langt, en það eru þá víst þeir einu, því flest mun nú fram dregið, en sömu hafa verið forlög þessara úrskurða sem annara.

Að lögreglan hafi verið sett til höfuðs mönnum, af völdum verðlagsnefndar, hefi jeg ekki heyrt. Jeg hygg og, að það hafi ekki haft mikla þýðingu heldur, þó verðlagsnefnd hafi farið bónarveg að kaupmönnum. Það hefir auðvitað gefið nefndinni tilefni til að auka skriffinskuna og bæta við skjalabunkana, sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) er ekki lítið dríldinn yfir. En að nokkurt gagn hafi af slíku hlotist, geta verðlagsnefndarmennirnir náttúrlega talið sjer trú um, með útreikningi á óyggjandi tölum! En það er nú lítið gefandi fyrir slíkt.

Þá kvað hv. þm. (J. B.) störf nefndarinnar hafa borið mestan og bestan árangur á árinu 1917. það er engin furða, því að á því ári var hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) einmitt skipaður í verðlagsnefnd. Hverjum þykir sinn fugl fagur, og er því skiljanlegt, að hv. þm. (J. B.) áliti nefndina hafa unnið mikið og þarft verk það ár. En ill var þín fyrsta ganga, má því með sanni segja um starf nefndarinnar á því herrans ári, því að fyrsta verkið var hið eftirminnilega hámarksverð á smjöri, sem enginn einasti maður mun nú mæla bót, nema verðlagsnefndarmennirnir, ef það er þá nokkur af þeim, sem dirfist að gera það, nema hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Hv. þm. (J. B.) bar einn sæmdarbónda austanfjalls fyrir þessari ráðstöfun, en nú hefir því verið lýst hjer í hv. deild í dag, að sá maður beri það af sjer, en það mun nú lítið þýða, því hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) mun vilja álíta sig hæstarjett í því, sem öðru, er verðlagsnefndinni við kemur. Starf verðlagsnefndar á árinu hefði þurft að vera gott, til þess að það hefði bætt fyrir þessa einu synd, en það er nú eitthvað annað en svo sje, því þar býður hver syndin annari heim.

Þá er að minnast á brauðgerðarhúsin. Verðlagsnefnd hefir ekki kveðið upp neinn úrskurð um verð á brauðum. Það hefir oft komið fram í blöðunum, að hitt eða þetta væri selt óhæfilega háu verði. En að verðlagsnefndin hlaupi eftir öllu blaðagaspri að óreyndu, er mjög óheppilegt og fjarstætt. Blaðadómar eru oft og tíðum hinir herfilegustu sleggjudómar. Nefndin hefir sem sagt ekki sett neitt hámarksverð á brauð, en háttv. þm. (J. B.) segir, að nefndin hafi haldið verðinu í skefjum með því að ógna eigendum brauðgerðarhúsa með hámarksverði. Jeg legg nú lítið upp úr þessu. (J. B.: Hví kynnir hv. þm. (P.O.) sjer ekki plögg málsins?). Þó að hv. þm. (J. B.) sje að benda á plöggin, þá er harla lítið á þeim að græða; það er ekkert nema ímynduð áhrif, því nefndin getur enga samninga sýnt við bakarana; þeir eru engir til. Mjer er það mál fullkunnugt.

Þá gat hv. þm. (J. B.) um hámarksverðið á mjólk haustið 1916. Eins og jeg hefi áður tekið fram í framsöguræðu minni, er það stjórninni að þakka, að það mál komst í viðunanlegt horf. Verðlagsnefnd hafði ákveðið ósanngjarnlega lágt hámarksverð á mjólkinni og beitt framleiðendur ósanngirni, og þegar svo er af stað farið, þá er það mannlegur breyskleiki, þó að þeir, sem þannig eru leiknir, sýni stífni á móti. Stjórnin miðlaði málum, og er það ekki verðlagsnefnd að þakka, þó ekki hlytist stórtjón af þessum úrskurði hennar fyrir bæinn.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir á viðeigandi og hæfilegan hátt svarað því, þar sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) var að tala um það í þessu sambandi, hvað hann mundi hafa gert eða ógert látið. Jeg get því slept því. En það er náttúrlega altaf hægt að hrósa sjer af þeim mannkostum, sem ekki koma í ljós, af því það reynir ekki á það.

Þá vík jeg að fiskverðinu. Háttv. þm. (J. B.) kvað hámarksverðið á fiski hafa haft mjög mikla þýðingu fyrir Reykjavík. En þess ber að gæta, að mjög auðvelt var að ná sama árangri með því, að bæjarstjórn hefði haft hönd í bagga með fisksölunni. En þetta hámarksverð varð til þess að hækka verð á blautum fiski víðs vegar um land. Þessi hv. þm. (J. B.) lætur sig það litlu skifta, þó að þrengt sje kosti manna úti um land, er enga framleiðslu hafa, eða þeirrar stjettar, sem hann er talsmaður fyrir hjer í bæ. Sjóndeildarhringur hans er þá ekki víðari en það, að hann nær ekki út fyrir Reykjavík. Og þegar þessi hv. þm. (J. B.) er að brigsla mönnum um, að þeir hafi asklok fyrir himin og sjái ekki út fyrir túnfótinn, þá heggur hann þó sannarlega nokkuð nærri sjálfum sjer.

Hv. þm. (J. B.) hjelt því fram, að í innflutningsnefndinni væru eingöngu stórsalar, og væri hún því illa fallin til að hafa eftirlit með vöruverði. Jeg veit nú ekki betur en að formaður Búnaðarfjelagsins sje í nefndinni, og er hann ekki stórsali, svo sem kunnugt er. Sje hann stórsali, þá hefir hann orðið það í dag.

Jeg tek mjer það ekki nærri, þótt hv. þm. (J. B.) telji mig hafa farið með eintómar staðhæfingar og fullyrðingar í garð verðlagsnefndar. Það hefir verið margsýnt fram á það, að verðlagsnefnd hefir unnið minna gagn en ekki neitt. þær tölur og tilfæringar, sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir hjer á lofti, eru ímyndanir einar, en styðjast ekki við neitt raunverulegt. Staðhæfingarnar eru því þeim megin.

Jeg álít, að óþarfi hafi verið að setja hámarksverð á kartöflur síðastl. haust. En það mun hafa verið sett af þeirri ástæðu, eða því mun nú haldið fram, að einstaka kaupmenn hjer í bæ höfðu keypt eitthvað af kartöflum, og hafa menn óttast, að þeir myndu ætla sjer óhæfilegan hagnað af þeim. En hvernig fór? Bæjarstjórnin ljet taka kartöflurnar eignamámi, sennilega eftir tillögum verðlagsnefndar, eða sumra úr henni, sem eins og kunnugt er eru nokkuð nákomnir bæjarstjórninni. Það fór fram mat á kartöflunum og aftur mat. Endirinn varð svo sá, að frostið tók helminginn af kartöflunum. Þetta hefir því ekki verið lítill búhnykkur fyrir bæjarfjelagið! Það er ekki svo að skilja, að jeg kenni verðlagsnefndinni um þetta beinlínis, en þetta á þó rót sína að rekja til þess, að farið var að setja hámarksverð á þessa vöru, og það sýnir áþreifanlega, að það er ekki ætíð hagræði að slíkum ráðstöfunum. Jeg geri ráð fyrir, að hinn töluvísi hv. 1. þm. Reykv. (J.B.) gæti búið til nokkuð háar tölur úr þessu, ef það væri tekjumegin hjá verðlagsnefndinni.

Um eggin er það að segja, að hámarksverðið á þeim varð að eins til þess að hækka verðið; vitanlega valt það fljótt úr sögunni, eins og annað. Hv.þm. (J.B.) vildi gera sjer mat úr því, að jeg vissi ekki að þetta hámarksverð væri afnumið. Jú, jeg veit það vel, að það valt strax um sjálft sig, eins og fleira af því tægi, valt eins og taðköggull ofan snarbrekku; eg sömu leið á verðlagsnefndin að fara.

Viðvíkjandi smjörinu mintist hv. þm. (J. B.) á það, að verð á því hafi verið hærra en annarsstaðar á þessum tímum. Jeg skal ekki um það segja. En hv. þm. (J. B.) getur hafa flaskað á því, hafi hann miðað við smjörverð í Danmörku, að þar var smjör selt undir verði, ríkið borgaði þriðjung eða fjórðung verðsins. Menn hafa oft getið þess, hve ódýrt smjör væri í Danmörku, og man jeg ,eftir, að þessu var slegið fram af hæstv. forsætisráðherra á síðasta þingi; kvað hann smjör kosta þar kr. 1,70 pundið. En þá var því slegið fram úr annari átt, hvers vegna landsverslunin væri að flytja inn hálfóætt smjörlíki frá Ameríku fyrir kr. 1,50 pundið. Getur verið, að þetta hafi orðið til þess, að eitthvað kom hingað af dönsku smjöri, en jeg hygg, að menn hafi orðið fyrir töluverðum vonbrigðum, og verðið hafi orðið allmikið hærra í reyndinni en sagt var.

Þá mintist hv. þm. (J. B.) á það, að bændur og aðrir framleiðendur vildu ganga of langt í því, að spenna upp verð á vörum sínum og beita menn ósanngirni í viðskiftum. Jeg verð að mótmæla þessu kröftulega, og tel þau ummæli öldungis ósæmileg, og það eins, þó til þeirra sje gripið til að bera blak af vitleysum verðlagsnefndar. Og hafi eitthvað bólað á því hjer í nágrenni við Reykjavík, þá mun það hafa verið af því, að þeim hafi verið sýnd ósanngirni að fyrra bragði, af völdum verðlagsnefndar.

Að bærinn hafi grætt 16.000 kr. á afskiftum verðlagsnefndar af mjólkurverðinu á síðastl. hausti, finst mjer hæpið að þakka verðlagsnefnd. Hv. þm. (J. B.) tekur það traustataki, held jeg fyllilega. Jeg hefi átt tal við einn mjólkurframleiðanda um þetta atriði. Kvað hann smærri mjólkurframleiðendur hafa farið fram á það við stjórn mjólkurfjelagsins, að verðið yrði hækkað, þar sem þeir stæðu höllum fæti að framleiða mjólkina með öðru móti. En þetta hafi mætt mótspyrnu í fjelagsskap mjólkurframleiðenda, og niðurstaðan varð sú í fjelaginu, að verðið skyldi ekki hækkað. Það er því með hreinasta bessaleyfi gert að tileinka verðlagsnefnd þessa niðurstöðu, sem varð með mjólkurverðið. Svona er það með þessar tölur, þessar óyggjandi tölur, sem háttv. þm. (J. B.) er að flagga með. — Mjólkurframleiðendur áttu þó tal við verðlagsnefnd um þessar mundir, og kvað sögumaður minn formann verðlagsnefndar hafa sagt, að þýðingarlaust væri að setja hámarksverð á mjólk, því það mundi alls ekki verða farið eftir því. (J. B.: Finst hv. þm. (P. O.) samkomulagsleiðin ekki rjett?). Hún er þýðingarlaus, þegar ekki þarf til samninga að koma; því hjer var um samkomulag milli mjólkurframleiðenda að ræða, en ekkert samkomulag milli mjólkurframleiðenda og verðlagsnefndar.

Jeg hefi þá tekið til athugunar ýms af þeim atriðum, er hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) mintist á og nokkru máli skifta í þessu sambandi. Að öðru leyti get jeg leitt hjá mjer að svara ræðu hans frekar; persónulegar slettur hans til mín virði jeg ekki svars.