04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (1683)

107. mál, verðlagsnefndir

Pjetur Jónsson:

Jeg vil segja að eins örfá orð, því jeg vona, að hv. deild geti fallist á frv. eins og það liggur fyrir.

Við 2. umr. þessa máls var tekið fram alt hið helsta, sem um það þurfti að segja. Jeg vil rifja það upp fyrir hv. þm., að ef frv. þetta nær fram að ganga, er allvel sjeð fyrir því, að landsstjórnin geti haft eftirlit með verðlagi á vörum, svo sem hægt er.

Hjer hefir verið samþ. frv. um heimild fyrir landsstjórnina til þess að ákveða álagningu á aðfluttum vörum. Í þessu liggur heimild — hvort sem kosin yrði sjerstök nefnd eða ekki — til þess að ákveða verðlag á vörum, og var bent á, að stjórnin hefði útflutningsnefnd og forstöðumenn landsverslunarinnar sjer til aðstoðar, og er enginn vafi á, að hún er sjerstaklega kunnug þessu efni og hefir tækifæri til þess að kynna sjer það. Hjer er aftur á móti ætlast til, að bæirnir geti fengið skipaðar verðlagsnefndir, er skakki leikinn, ef á þarf að halda, og er má ske ekki loku skotið fyrir, að tiltaka megi vítt svæði, sem vald þeirra næði yfir. Um þessa verðlagsnefnd, sem hefir unnið eins vel og kostur hefir verið á, er það að segja, að hún hefir gert mest gagn í Reykjavík, og mundi eigi vera heppilegt fyrir bæinn, að henni yrði kipt í burtu að fullu og öllu. En vegna þess, að nefndin er aðallega valin handa Reykjavík, álítur nefndin hyggilegast, að henni sje markað þar starfsvið, svo að hún fari eigi að hlutast til um verð á nauðsynjavörum úti um land. Eins og kunnugt er, flytur landsverslunin inn matvöru og sykur og ræður því verði, svo eigi verður ástæða til að breyta því.

Um áhrif nefndarinnar á verð á innlendum vörum er það að segja, að þar hafa till. hennar verið lítils megnandi enda er þar við ramman reip að draga. Framleiðsla á vörum þeim, sem eru í hæstu verði, eins og t. d. smjöri, er svo lítil, að hún er mikið minni en eftirspurnin. En reynslan er hins vegar alstaðar sú, að þegar framleiðslan er minni en eftirspurnin, er erfitt að setja hámarksverð á vöruna. Nefndirnar geta ekki áorkað neinu verulegu í þessum efnum. En þó geta þær sjeð um það í bæjunum, að einstakir braskarar spenni ekki verðið upp að óþörfu.

En hins vegar getur landsstjórnin falið útflutningsnefnd að annast um verðlag á innlendum vörum, sem nægilegt framboð er af, eins og t. d. kjöti, síld og fiski; hún ætti að geta gætt þess, að verð á þessum vörum færi ekki fram úr hófi.

Jeg hygg þess vegna, að með frv. þessu sje allvel sjeð fyrir verðlagsnefndaskipunum í bæjum.