04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (1687)

107. mál, verðlagsnefndir

Björn Kristjánsson:

Eins og framsm. (S. St.) sagði, komst meiri hluti bjargráðanefndar að þeirri niðurstöðu, að breyta ekki frv., og það bygði hann á þeirri reynslu, að menn utan Reykjavíkur æskja alls ekki eftir því, að hámarksverð sje sett á vörur. Síðan verðlagsnefnd var stofnuð hefir utan af landi að eins verið beðið um að setja verðlag á tvær vörutegundir, beitutekju við Breiðafjörð og sykur í Ólafsvík. Þetta sýnir hversu lítið menn úti um landið nota verðlagsnefndina, og auk þess ber að gæta, að í öðru tilfellinu ræðir um útlenda vöru, sem menn eru nú orðnir sammála um, að ekki sje þörf að setja hámarksverð á. Hámarksverð mundi því að eins notað á innlendar vörur, en þá er þess að gæta, að víða úti um land selur framleiðandi vöru sína beint til neytanda, en notar ekki kaupmenn sem milliliði. Auk þess er svo ástatt í smákauptúnum úti um land, að vöruframboðið er meira en eftirspurnin, en hjer í Reykjavík er alt annað uppi á teningnum, því að hjer er eftirspurnin meiri heldur en framboðið, og þar af leiðandi er hjer miklu meiri þörf á verðlagsnefnd heldur en í smákauptúnum úti um land. Við skulum t. d. taka nokkur kauptún og byrja á Vík í Mýrdal. Þar er mjög fáment, en upp af kauptúninu er fjölmenn og frjósöm sveit. Eftirspurn eftir landafurðum hlýtur því að verða mjög lítil, borin saman við framleiðslumagnið. Sömuleiðis má nefna Vopnafjörð; þar stendur alveg eins á, að ekki er nægur markaður fyrir innlendu vörurnar í kauptúninu, og því er ekki hætt við, að framleiðendur geti skrúfað þær upp. Þá er og Húsavík; þar er stór sveit upp af, og framleiðsla því meiri en kauptúnið hefir þörf fyrir, og þar af leiðandi framboðið meira en eftirspurnin. Enn fremur Sauðárkrókur; þar er stór, góð sveit umhverfis, og verður því niðurstaðan hin sama og á hinum stöðunum. Sömuleiðis Blönduós, og svona má halda áfram að rekja kring um alt landið, og niðurstaðan verður alstaðar hin sama, að framboðið er meira en eftirspurnin. Þess vegna er álit nefndarinnar alveg rjett, og niðurstaða hennar sömuleiðis, að þar sem fólkið er margt, eins og t. d. hjer í Reykjavík, og eftirspurnin er meiri en framboðið, þar er þörf á verðlagsnefnd, en annarsstaðar ekki. Það gefur því að skilja, að jeg er á móti brtt. hv. þm. Mýra. (P. Þ.). Aðallega er það í Reykjavík, sem þörfin er fyrir hendi, því að hjer eru sjerverslanir með íslenska vöru og innlenda varan að mestu í höndum kaupmanna, og eftirspurnin meiri en framboðið. Dæmið, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók, um Eyrarkakka og Stokkseyri, styður þetta mál mitt, því að starfsemi verðlagsnefndar á slíkum stöðum er með öllu óþörf, og svo getur farið, að ákvæði hennar verði óframkvæmanleg. Upp frá þeim kauptúnum liggur líka stór sveit, og þess vegna selja bændur í Árnessýslu þær vörur sínar hingað, sem þeir ekki koma út á Eyrarbakka og Stokkseyri. Það er því rjett hjá meiri hluta bjargráðanefndar að mæla með því, að frv. gangi fram óbreytt.