04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (1688)

107. mál, verðlagsnefndir

Sigurður Sigurðsson:

Af sjerstökum ástæðum verð jeg að gera grein fyrir atkv. mínu að því er þetta frv. snertir. Frv. er frá bjargráðanefnd og til orðið, að því er mjer skilst, út af því, að öðru frv. var vísað til nefndarinnar, sem sje frv. til laga um að afnema heimild fyrir ráðherra Íslands til að skipa verðlagsnefnd. Jeg hefi eigi verið heima um hríð, og um burtverutíma minn hefir þetta frv. bjargráðanefndar orðið til. Á síðasta fundi nefndarinnar, sem jeg kom á áður en jeg fór burtu úr bænum, var frv. á þgskj. 336 til umr., og kom þá fram í umræðunum sú skoðun, að komið gæti til mála að heimila ráðuneytinu að skipa sjerstaka nefnd, einkum hjer í Reykjavík, með tilliti til einstakra vörutegunda, sem spekúlantar hafa lagt undir sig. Jeg get fyrir mitt leyti sagt það, að jeg er því hlyntur, að Rvík. væri gefin heimild til að skipa nefnd, sem sjerstaklega hefði hönd í hagga með að setja hámarksverð á vörur, sem framleiddar eru innan umdæmis bæjarins og spekúlantar hafa náð tangarhaldi á. En með þessu frv. get jeg ómögulega verið, og hafa ástæðurnar fyrir því þegar verið tilfærðar, sjerstaklega af samþingismanni mínum, hr. E. A., svo að jeg þarf ekki að fara út í það frekar. En þess vil jeg láta getið, að brtt. hv. þm. Mýra. (P. Þ.) gera enn meiri glundroða en frv., eins og það er nú, og ef þær yrðu samþ., yrði úr því tóm vitleysa. Jeg hefi nú raunar altaf litið svo á, að verðlagsnefndirnar og hámarksverð á innlendum vörum væri tvíeggjað sverð, og reynslan af nefndunum hefir ekki verið sem æskilegust. Jeg segi ekki þetta til þess að hnýta í neina sjerstaka nefndarmenn, eða til þess að álasa nefndinni eða bera henni á brýn, að hún hafi ekki gert skyldu sína eða legið á liði sinu. En jeg lít svo á, að slíkt starf sem hennar sje mjög vandasamt og það sje mjög aðgæsluvert, hve nær ástæða sje til fyrir slíka nefnd að gripa inn í verðlagið og setja á hámarksverð. Og þessi verðlagsnefnd, sem vjer höfum haft, hefir þá líka verið svo óheppin, að hún hefir tíðast gripið inn í til að setja hámarksverð á innlendar afurðir, en látið útlendu vöruna minna til sín taka. Eins og jeg hefi sagt, þá lít jeg svo á, að komið gæti til mála að heimila Reykjavík að setja á stofnverðlagsnefnd til þess t. d. að athuga verð á fiski, sem framleiddur er innan umdæmis bæjarins. (E. A.: Það er enginn fiskur framleiddur innan umdæmis bæjarins). Jæja, hvað sem nú líður, þá er þó hjeðan róið og aflað fiskjar, sem svo er seldur hjer í bænum, og það er hið sama.

En svo má benda á það, að bærinn sjálfur gæti tekið að sjer verslunina með fisk o.fl„ ef hann gæti ekki haldið í hemilinn á þeim mönnum, sem nú hafa þessa verslun með höndum. En ef það nú skyldi vera varhugavert að sleppa með öllu hendinni af þessu máli og hafa enga verðlagsnefnd, þá sje jeg þó ekki, að þetta frv. bæti nokkuð úr skák, og mun jeg því greiða atkv. á móti því, enda þótt það komi frá bjargráðanefnd.