04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (1691)

107. mál, verðlagsnefndir

Pjetur Jónsson:

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir haft nokkuð á móti frv., og skilst mjer aðalmótbáran vera sú, að ef margar verðlagsnefndir yrðu skipaðar, þá mundi af því leiða glundroða, er gæti gert ilt verra. Og til þess, að geta málað fjandann á vegginn, þá taldi hann sjálfsagt, að samþykkja till. hv. þm. Mýra. (P. J.), því að ekki er hægt að mæla í móti, að sú till. býr til mestan glundroða. En hann þurfti ekki aðbenda nefndinni á, að þessi glundroði kynni að geta átt sjer stað, en eins og hv. 1. þm. G. K. (B. K.) hefir bent ljóslega á, þá vakti það fyrir nefndinni, að varla mundi koma til, að verðlagsnefnd yrði skipuð annarsstaðar en hjer í Reykjavík. En þó að nú verðlagsnefnd yrði skipuð í stærri kaupstöðum, eins og t. d. á Ísafirði, Akureyri eða Seyðisfirði, þá er ekki svo mjög að óttast glundroða þeirra á milli, því að ekki er svo mjög náið sambandið milli þeirra manna, er viðskifti eiga við þessa bæi. Menn verða þá einnig að athuga, að þar sem stjórnarráðið semur reglugerð um þetta atriði, þá mundi í henni vera svo ákveðið, að það hefði úrskurðarvaldið um hámarksverðið, og getur það því fyrirbygt hinn umtalaða glundroða, ef hann yrði nokkur. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) taldi líka, að bæjarstjórnirnar væru ekki vel lagaðar til að benda á menn í nefndina og ákveða um þörfina á verðlagsnefnd, en þetta finst mjer ósanngjarnt, því að jeg fæ ekki betur sjeð en að bæjarstjórnunum sje best treystandi til að geta litið á og kunna að meta þörfina eftir ástæðum og mennina eftir verðleikum. Mjer finst þetta alt vera miðað við það, að menn láti smámunalega hagsmunasemi ráða öllum gerðum sínum, en það er ekki rjett að gera mönnum slíkar getsakir.

Kostnaðurinn er ekkert aðalatriði fyrir nefndinni, því hún gerði alls ekki þessa till. til að losa landssjóð við kostnaðinn, heldur áleit hún, að eðlilegra væri, þegar verðlagsnefnd ynni algerlega fyrir bæinn, að bæjarfjelagið borgaði kostnaðinn við hana, heldur en landssjóður. En ef hv. deild álítur rjettara að landssjóður borgi, þá mun ekki standa á nefndinni að fallast á það.