14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Björn Kristjánsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að taka til máls í þetta sinn og hugði þess ekki þörf, þar sem hv. frsm. meiri hl. (P. J) hefir skýrt málið allrækilega. En þar sem umræðurnar hafa verið svo mjög á víð og dreif, þá er jeg hræddur um, að menn geti tæplega áttað sig á, hvernig þeir eiga að greiða atkvæði, og þess vegna sá jeg mig tilneyddan að standa upp, og þó sjerstaklega út af einu atriði, sem bæði hæstv. stjórn og háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) bentu á, sem er það, að bankarnir ættu að veita þau lán, sem sveitarstjórnir þyrftu að útvega sjer.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) skýrði töluvert, undir hvaða kringumstæðum slík lán ættu að vera veitt, þ. e. a. s. „í ítrustu neyð“.

Munurinn á frv. hæstv. stjórnar er því sá, að nefndin vill sjá svo um, að þessum hjeruðum verði sjeð fyrir lánum, en fyrir því hefir stjórnin ekki sjeð, heldur ætlar hún sjer að veita 450 þúsund krónur til dýrtíðarhjálpar, en láta sveitarfjelögin um það, hvort þau nokkursstaðar geti fengið lán að sínu leyti á þeim 2/3, er þau eiga að leggja fram.

Það hefir komið fram í umræðunum, að stjórnin treystir sjer ekki til þess að veita þessi lán, og hefir hún þá vísað til bankanna, sem hún segir, að mundu geta veitt lánin, ef til þess kæmi. Veit stjórnin þó, að bankarnir neituðu bæjarstjórn Reykjavíkur um 100 þúsund króna lán í fyrra, og varð hún að taka það hjá landssjóði, og þegar fjárhagur bankanna er orðinn það þröngur, þá á ekki við að vísa á bankana. Stjórninni er fullkunnugt, að bankarnir mega ekki lána hallærislán, og þeir mega yfirleitt ekki lána önnur lán en þau, sem fullir vextir eru goldnir af á settum tíma og full trygging er fyrir að greidd verði. Þetta verða menn vel að athuga, þegar þeir fara að greiða atkvæði.

Af þessu leiðir, að stjórnin verður að sjá um, að þau hreppsfjelög, sem komin eru eins að þrotum og till. er miðuð við, geti fengið lán einhversstaðar, því að bankarnir geta ekki og hafa ekki heimild til þess að lána þeim stórfje, tryggingarlaust, því að það er er að leggja fjeð í fyrirsjáanlega hættu. Því verður þing og stjórn að benda sveitarfjelögunum á stað, þar sem þau geta fengið lán, og þau geta ekki bent á annan stað en landssjóð, þegar hallæri er komið. Að hreppsfjelögin geti fengið næg lán, að sínum hluta, er skilyrði fyrir því, að stjórnin megi veita þessar 450 þúsund krónur, sem stjórnarfrv. gerir ráð fyrir að veittar verði til dýrtíðarhjálpar. En ef þetta skilyrði er ekki fyrir hendi, þá er líka stjórnarfrv. sama sem núll, og þetta hefir hv. meiri hl. viljað fyrirbyggja. með því að fela stjórninni að útvega nœgilegt lánsfje til hreppsfjelaganna.

Það hafa sumir litið svo á, að meiri hl. hafi ekki viljað ganga eins langt í hjálpinni eins og bæði hæstv. stjórn og hv. minni hl, en þetta er ekki alls kostar rjett, því að hv. meiri hl. hefir gengið lengra en stjórnarfrv. í því að útvega hreppunum lánin, þegar verst á stendur.

Þá vil jeg biðja menn að gæta vel að því, eins og reyndar er skýrlega tekið fram í nál., að hjálp í neyð er alveg sú sama, hvort heldur lánað er eða gefið, á meðan ekki er krafist borgunar.

Það er því samkvæmt þessu ekki til nokkurs skapaðs hlutar að samþykkja dýrtíðarlög, nema sveitar- og bæjarfjelögum sje sjeð fyrir lánum.

Hæstv. forsætisráðh. var að tala um, að hættulegt væri að fara inn á lánabrautina, ef lánin ættu að standa lengi, og mundi það draga landið meir og meir niður í skuldafenið. En þetta getur ekki átt hjer við, því að í brtt. meiri hl. nær heimild stjórnarinnar til lántökunnar að eins til 1. sept. 1919, og vonandi verða þá komnir aðrir dagar og önnur ráð, svo að stjórnin þurfi ekki að komast í hann krappan út af þessu atriði að minsta kosti, þegar hún þá getur borið sig saman við þingið.

Þá sagði hæstv. forsætisráðh., að landssjóður ætti ekki að vera lánsstofnun. Jeg er honum alveg samdóma um það. Jeg hef margsinnis lýst yfir því, bæði hjer á þingi og annarsstaðar, að landssjóður eigi ekki að vera lánsstofnun, það er að segja á eðlilegum tímum. En þegar hallæri ber að höndum, þá getur ekki verið um neina aðra lánsstofnun að ræða en landssjóðinn. Bankarnir eru ekki ætlaðir til þess að veita lán, þegar svo ber undir.

Jeg ætlaði mjer ekki að halda hjer langa ræðu um þetta efni, vildi að eins greiða úr kjarna málsins, ef mjer tækist það, áður en gengið er til atkvæða. Og kjarninn er þessi, að ekki er hægt að samþykkja nein dýrtíðarlög, önnur en þau, að veita landsstjórninni lánsheimild. Ef landssjóður getur ekki lánað, þá eru allar dýrtíðarráðstafanir sama sem núll.

Jeg hefi sem sagt ekki skrifað neitt upp af því, sem sagt hefir verið, en jeg hjó eftir nokkrum orðum hjá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Hann sagði, að hjálp sú, sem till. meiri hl. gera ráð fyrir, mundu ekki koma að miklum notum. En það er misskilningur. Það er alls ekki lítil hjálp, að 5 manna heimilið getur fengið 100 kr. og 10 manna heimilið 200 kr, og auðvitað miklu meira, ef að eins fá heimili í sveitar fjelaginu þurfa hjálpar við. Það er mikil hjálp til bjargar í neyð. Háttv. þm. (J. B.) sagði reyndar, að það væri ekki nóg að hjálpa í neyð. Það ætti að efla atvinnuvegina til þess að fyrirbyggja neyðina. Þetta er .hverju orði sannara. Það er ekki nóg að hjálpa í neyðinni. En landssjóður verður að fara að eins og maður, sem vill hjálpa kunningja sínum. Ef hann getur ekki hjálpað eins og hinn þarf, þá hjálpar hann samt eins og hann getur. Ef landssjóður gæti, þá ætti hann að sjá um, að enginn misti atvinnu sína. En nú getur hann það ekki, og þess vegna verður hann að miðla eftir því, sem hann hefir efni á, en ekki heldur meira. Það er merkilegt, að háttv. 1. þm. Reykv. (J. B) skuli halda því fram, að landssjóður geti veitt meiri hjálp en þetta. Það er því merkilegra, sem legið hefir frammi í bjargráðanefnd glögg skýrsla um fjárhag landsins, gleggsta yfirlit, sem komið hefir fram í þinginu. Eini möguleikinn til dýrtíðarráðstafana er því að samþ. frv. í þessa átt. Þingið gerir stjórninni mjög þægt verk með því að gefa henni svona glöggan grundvöll til að byggja á framkvæmdir sínar. Þetta eru þær minstu byrðar, sem hægt er að leggja stjórninni á herðar. Ef þingið hefði komið fram með stórkvaðir og ætlast til, að stjórnin framkvæmdi þær, þá hefði það verið slæmur greiði. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða um málið. Jeg vona, að háttv. þm. fallist á málið, eins og það er og eins og jeg nú hefi lýst því. Og jeg vona þó, að háttv. þingdm. geti til bráðabirgða fallist á þessar till. Ekki svo að skilja, að jeg sje á móti brtt., ef þær fara fram á eitthvað, sem hægt er að sýna að verði til bóta og mögulegt er að framkvæma. Hvað dýrtíðarvinnuna snertir, þá held jeg, að ókleift verði fyrir landsstjórnina að hafa hana í höndum. Ef stjórninni er sagt að láta vinna hjer og þar, þá er hætt við, að henni gætu borist æði margar kröfur. Jeg sje heldur enga ástæðu til að hlífa bæjar- og sveitarfjelögum við að sjá um þessa vinnu.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hjelt, að eftirlitið mundi verða ófullkomið, eða að minsta kosti mjög kostnaðarsamt, ef það eigi að verða nægilegt. Jeg skal ekkert um það segja. Skoðanir manna geta verið nokkuð skiftar um það, og í nefndinni var dálítill skoðanamunur um þetta atriði. Jeg fyrir mitt leyti hefi fallist á að láta það standa í till., en jeg legg enga áherslu á, að það verði samþykt. Að sjálfsögðu greiði jeg atkvæði mitt með því, fyrst jeg hefi fallist á það í nefndinni.

Sami háttv. þm. (E. A.) áleit og, að það væru mjög ströng skilyrðin fyrir því, að lánin verði veitt. En jeg hefi bent á, hvers vegna þetta er haft svona. Það er af því, að landssjóður er fjelaus.