26.04.1918
Efri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (1703)

22. mál, einkaréttur til verslunar með smjör og tólg

Eggert Pálsson:

Jeg tel þess ekki brýna þörf að ræða frv. þetta ítarlega á þessu stigi málsins, því þar sem málið er svo víðtækt, mun það verða tekið til íhugunar af nefnd og síðan verða athugað af hv. þm. á eftir.

En einmitt vegna þess, hve yfirgripsmikið það er, vil jeg samt ekki þegjandi hleypa því af stað, og mun jeg því gera nokkrar athugasemdir, sem vakið gætu íhugun nefndarinnar.

Það er augljóst, að hjer er farið fram á stórfelda breytingu á verslum landsmanna með innanlandsafurðir, þar sem um einkarjett á vissum vörutegundum er að ræða, þótt ekki sje nema fyrir landsstjórnina. Þegar í ráði er að ganga inn á slíka braut, að veita einkarjett til verslunar með einhverja vörutegund, þarf það vel að athugast, hvort rjett sje að byrja einmitt á þessari vörutegund frekar en annari, eða yfir höfuð hvort rjett sje að ráðast í þeim efnum frekar á innlenda vörutegund en erlenda. Eins þarf að athuga hitt, ef veittur er einkarjettur á annað borð, hvort rjett sje að veita hann takmarkaðan, eins og hjer er gert, eða veita hann að fullu og öllu.

En svo að jeg snúi mjer sjerstaklega að þessu máli, sem hjer liggur fyrir, þá virðist mjer, sem það þurfi að líta á það frá þremur hliðum. Í fyrsta lagi verður að líta á það frá þeirri hlið, er að framleiðendum veit, í öðru lagi þeirri, er veit að neytendunum, og í þriðja lagi þeirri, er veit að landssjóði.

Þegar litið er á fyrstu hliðina, get jeg ekki varist því að hugsa, að eina eða aðalorsökin fyrir frv. þessu hafi verið sú, að litið hafi verið ofsjónaraugum á smjörverðið hjer á Suðurlandi í samanburði við smjörverðið á Norðurlandi, en slík ástæða er engan veginn nægileg eða forsvaranleg til þess að byggja á frv. slíkt sem þetta. Smjörverðið hjer á Suðurlandi er óneitanlega hátt orðið, saman borið við það, sem áður var, en ef það er borið saman við það, hvað aðrar nauðsynjavörur hafa stigið, þá verður ekki sagt, að það sje orðið neitt óeðlilega hátt.

Eins og háttv. þingmönnum er kunnugt, hefir af formanni Búnaðarfél. Íslands verið gefin út skýrsla um það, hvað smjörverð þyrfti að vera hátt til þess, að samsvaraði verði á erlendum vörum, og samkvæmt þeirri skýrslu er það ekki nógu hátt enn, þótt komið sje upp í 3 kr. pundið, til þess, að sú verðhækkun samsvari verðhækkun þeirri, sem orðið hefir á allri kornvöru. En taki maður hina hliðina, sem vikið er að í greinargerð frv., að smjörverðið sje of hátt í samanburði við kjötverðið, þá verður að gæta þess, að fyrir stríðið var kjötverðið hlutfallslega hærra en smjörverðið. Til þess bendir það líka, að allur þorri bænda lagði, og leggur enn í dag, meiri áherslu á að framleiða kjöt en smjör, auðvitað af þeirri ástæðu, að þeir telja það borga sig betur, enda má með einföldu dæmi sýna fram á, að svo sje í raun og veru á flestum jörðum. Hugsi maður sjer ákveðinn forða af heyi, t. d. 40—50 hesta, sem kýrfóðrið er talið að vera, þá kemur það í ljós, að arðurinn verður meiri af að ala á því sauðfje en kýr, svo framarlega sem um nokkra sauðfjárbeit er að ræða. Á kýrfóðrinu má víðast hvar framfleyta 20 ám, og mundi dilkur undan hverri, að minsta kosti á Norðurlandi, seljast á 25 kr., svo að arðurinn af þeim öllum yrði 500 kr. fyrir utan ull.

Nú má gera ráð fyrir, ef kýr væri alin á þessum heyjaforða hjer á Suðurlandi, að hún gæfi af sjer 125 pund af smjöri, er mundi vera fullhátt áætlað eftir reynslu síðustu ára.

Sje nú smjörverðið 3 kr. pundið, gerir það samtals 375 kr. Hjer er nú að vísu ótalin undanrennan, en ekki mundi hún að neinu leyti nægja til að fylla upp þær 125 kr. og ullina, sem á vantar í hin fyrri dæmi.

Þetta dæmi og reynslan, sem jafnan er ólygnust, sýnir það því ljóslega, að sauðfjárræktin borgar sig betur yfir höfuð að tala en kúaræktin, sjerstaklega að því er Norðurland snertir.

Háttv. flm. (S. F.) sagðist ætlast til, að frv. þetta kæmi í stað frv. um fráfærur, tilgangurinn væri sá sami, að auka smjörframleiðsluna í landinu. En jeg býst við, að afleiðingar frv. þess, ef samþ. verður, yrðu gagnstæðar, enda virtist háttv. flutnm. (S. F.) sjálfur vera þeirrar skoðunar annað veifið, þar sem hann játar það, að það mundi leiða til aukinna fráfærna á Norðurlandi, en minkaðra á Suðurlandi.

En fari svo, þá eykst framleiðslan ekki í heild sinni. Það er nokkurn veginn ljóst.

Jeg tel það að vísu gott, ef hægt væri að finna heppilegt ráð til að auka feitmetisframleiðslu í landinu, en öflugasta hvötin álít jeg að yrði það, ef verð það, sem nú er, hjeldist áfram og löggjafarvaldið geri enga tilraun til að þrýsta því niður með ógætilegum þvingunarráðum.

En sje það ekki nóg hvöt, þá gæti komið til mála að verðlauna menn fyrir fráfærur. Það er ekki ólíklegt, að það gæti orðið til þess, að fráfærur yrðu almennar og smjörframleiðslan þar af leiðandi ykist svo, að það lækkaði af sjálfu sjer aftur í verði. Það mætti skoðast sem eðlilegur gangur.

Þá kem jeg að annari hlið málsins, eða neytendunum. Háttv. flm. (S. F.) tók það fram, að þetta fyrirkomulag, sem felst í frv. hans, mundi fækka milliliðunum. En jeg get ekki sjeð að svo sje. Milliliðirnir verða þrír eftir frv., sem sje umsjónarmaður í hverri sveit, smjörmatsmaður í kaupstöðum og svo sjálf landsverslunin.

Býst jeg við, að milliliðir þessir yrðu allkostnaðarsamir, og síst eru þeir færri en nú á sjer stað.

Ef útkoman yrði nú sú, að framleiðslan ykist ekki, þá mundi verða áframhaldandi feitmetisekla í landinu, og er þá hætt við því, að neytendur myndu nota sjer heimildina, sein gefin er í frv., og fara sjálfir til framleiðenda og sækja vöruna. Gefur þá að skilja, að það yrði að eins lítill hluti, sem landsverslunin klófesti.

Og þótt ganga megi út frá því, að sá litli hluti yrði ódýrari, þá liggur hættan í hinu, að sá ódýrari hluti lendi hjá þeim, sem betur eru settir og átt geta viðskifti við landsverslunina í stórum stíl.

Gæti þá svo farið, að einmitt fátæklingarnir yrðu að sæta hinum dýrari kjörum, rjett eins og átti sjer stað í fyrra vor. Þá keypti landsverslunin smjörið á 1,80 kr. pundið frá rjómabúunum og seldi það alt til stærri borgara þessa bæjar, sem keypt gátu í stórum stil. Hinir, sem ekki gátu keypt mikið í einu, eða urðu of seinir með pöntun, urðu að sæta verra verði.

Ef litið er á alt þetta, sjest það, að hagurinn fyrir neytendurna verður ekki ýkjamikill eftir frv. þessu.

Þá kem jeg að þriðju hliðinni, landsversluninni. Hv. flm. (S. F.) heldur, að 25 aurar á pund nægi til að bera allan kostnaðinn. Það tel jeg þó óhugsandi, því að kostnaðurinn hlýtur að verða ærið mikill. Gerum ráð fyrir, að smjörið verði flutt í hvert kauptún á landinu. þá yrði landsverslunin að eiga hús í hverju kauptúni landsins, til að versla. Í og geyma vöruna, og síðan að tína upp hvert einasta kauptún til að smala saman vörunni, þótt ekki væru nema smápinklar í hverjum stað. Til þess að standast þann kostnað, mundu 25 aurar af pundi ekki nægja, allra síst er þar við bætist 1% til umsjónarmanns og 1% til matsmanns. Annars er mjer það ekki ljóst, af hverju umsjónarmenn í sveitum eiga að reikna þessa 1%, sem þeir fá í þóknun. Eigi það að byggjast á skýrslunum um það, hverju lofað sje til landsverslunarinnar, þá þykir mjer sennilegast, að það verði svo lítið, að enginn fáist til starfans, en eigi það að byggjast á því, hvað mikið kemur í raun og veru af smjöri úr hverri sveit, þá verður að halda nákvæma skýrslunum það, hvaðan hver böggull hefir komið.

Og um þóknun til smjörmatsmanns eða konu er það að segja, að óheppilegt virðist það í meira lagi að miða hana við % af söluverði smjörsins, því að með því er óneitanlega gefið undir fótinn þeirri tilhneigingu, að koma smjörinu öllu í sem hæst verð, eða með öðrum orðum úrskurða sein mest af því fyrsta flokks vöru, til þess að matsmaður eða matskona geti fengið sem mesta borgun.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í málið að sinni. Jeg þykist hafa sýnt fram á það með þessum orðum, að ekki liggur opið fyrir, að sá þrefaldi ávinningur, sem getið er um í niðurlagi greinargerðarinnar, leiði af því, þótt frv. verði að lögum, sem sje það, að framleiðslan aukist og batni, í öðru lagi, að viðskiftin verði greiðari, og í þriðja lagi, að verði á feitmeti verði haldið í sæmilegu horfi.

En þrátt fyrir það, þó að jeg telji mikla tvísýnu á, að frv. nái tilgangi sínum, álít jeg það sjálfsagt, að það verði sett í nefnd til nákvæmari athugunar.

Hv. fhn. (S. F.) lagði til, að því yrði vísað til bjargráðanefndar, en með því er óbeinlínis gefið í skyn, að tilgangurinn sje ekki sá, að auka framleiðsluna, því hlutverk bjargráðanefndarinnar er miklu fremur að sjá fyrir hagsmunum neytendanna heldur en framleiðendanna. En jeg vil gera það að till. minni, að því verði vísað til landbúnaðarnefndar, svo hún geti athugað, hvort hjer sje ekki verið að stíga hættulegt spor í þá átt, að skerða rjett þeirra manna, bændanna, sem hún á sjerstaklega að bera fyrir brjósti. Frumvarpið, ef það yrði að lögum, getur haft svo stórvægileg áhrif á landbúnaðinn, að telja má sjálfsagt, að sú nefnd, sem hefir landbúnaðarmálin með höndum, taki það til rækilegrar yfirvegunar.