29.04.1918
Efri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (1712)

22. mál, einkaréttur til verslunar með smjör og tólg

Magnús Kristjánsson:

Það er ekki mikil ástæða fyrir mig að taka til máls, því hv. framsm. meiri hlutans (S. F.) hefir fært ljós rök fyrir því, að frv. þetta getur aldrei gert skaða, en hins vegar miklar líkur til, að það geri gagn. Jeg mun þá ganga fram hjá smáatriðunum.

En það tel jeg þungamiðju þessa máls, að Alþingi er samkvæmt frv. ætlað að sjá um það, að helstu lífsnauðsynjar manna sjeu ekki svo dýrar, að alþýðu manna sje ókleift að kaupa þær. Við vitum og, að um allan heim er þetta talin bein skylda þings og stjórnar, og að öll lönd hafa gert miklar og margvíslegar ráðstafanir um þau efni. Nú hagar svo til, að eitt kíló af smjöri kostar 7 krónur, og þetta er svo hátt verð, að það er öldungis hið sama og að útiloka fjölda manns frá því að geta keypt smjörið, og þótt frv. gerði ekkert gagn að því leyti að auka smjörframleiðsluna, þá er þessi kostur þess svo stór, að mjer blandast ekki hugur um það, að greiða frv. atkv., og jeg tel sjálfsagt, að það nái fram að ganga. Og þar sem enginn hefir leyft sjer að halda því fram, að frv. væri skaðlegt, þá finst mjer það vera sjálfsagt að samþykkja það, og það því fremur, sem enginn getur heldur fært rök fyrir því, að það mundi ekki auka smjörframleiðsluna.

Ekki finst mjer það vera nema eðlilegt, þó að kaldan gust leggi á móti frv. frá hinum hv. smjörframleiðendum, en hitt þykir mjer kynlegra, þegar þm. frá sjávarþorpum, eins og hv. þm. Snæf. (H. St.), leggjast á móti því, því mjer finst honum ætti að þykja vænt um það, að vara þessi væri í viðunanlegu verði.

Annars er það mjög varhugaverð stefna, er virðist bóla á hjá sumum hv. þm., að vilja rifa niður allar tilraunir, er koma fram til þess, að ráða bót á vandræðum þeim, er nú ríkja. Sú stefna kom og fram hjer í hv. deild þegar verið var að ræða um fráfærur ásauðar, því ástæður þær, er þar voru færðar fram, voru harla ljettvægar, einkum þegar þess er gætt, að þar var eingöngu um heimildarlög að ræða, sem ekki átti að nota nema þar, sem það gæti vel átt við. Hv. þm. verða að gera sjer það fyllilega ljóst, að það er skylda þeirra að reyna að ljetta undir með almenningi í dýrtíð þeirri, sem nú ríkir, eftir því sem hægt er, og því verða nauðsynjavörur að seljast með sanngjörnu verði, svo fólk geti framfleytt sjer og sínum. Og hv. þm. verða að gæta þess, að það hvílir mikil ábyrgð á þeim, þegar þeir eru að rífa niður. Það er vandalítið að rífa niður, en því fylgir skyldan til að byggja eitthvað upp í staðinn.