29.04.1918
Efri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (1716)

22. mál, einkaréttur til verslunar með smjör og tólg

Guðmundur Björnson:

Háttvirtu þingbræður! Jeg ætla mjer ekki að blanda mjer inn í umr. um þetta mál, um það, hvaða áhrif þetta frv. mundi hafa á smjörverð og smjörafla í landinu. En jeg vildi vekja athygli háttv. þm. á einu mjög mikilsverðu atriði; það er feitmetiseklan, sem getur orðið tilfinnanleg í landinu. Þess hefir verið getið hjer í umr. um annað mál, hvað það hefir í för með sjer, að feitmetisskortur getur orðið í sumum hjeruðum landsins. En það er mjer kunnugt um, að svo hefir verið. En jeg verð að segja það, að aldrei hefir komið fyrir enn, að feitmetisskortur hafi orðið í landinu í heild sinni. Ef skynsamlega hefði verið niður deilt, þannig, að þegar þess varð vart, að feitmetisskortur var sumstaðar, þá hefði verið hægt að vísa til annara staða, þar sem það var aflögu. Það kom fyrir síðast í fyrra, að feitmetisskortur var á Suður- og Vesturlandi, en þá var til nóg af tólg á Norðurlandi.

En hvort sem á þetta er litið frá sjónarmiði bænda eða verslunarinnar, þá verður það aldrei aðalatriði þessa máls. Undirstöðuatriðið, þjóðhagsatriðið, er það, að Alþingi verður að hugsa fyrir því, að tilfinnanlegur skortur komi ekki fyrir í einstökum bygðum. Ef landið, stjórnin, hefði verslunina í sinni hendi, ætti að vera hægt að girða fyrir, að skortur verði í einu bygðarlaginu frekar en öðru. Hvað sem líður þessu frv., er þetta skylda Alþingis: að girða fyrir skortinn eins og unt er. Gáum að einu, skortur getur orðið á tvennan hátt: annaðhvort algerður skortur, eða skortur í tómthúsmannabygðunum, meðal fátæklinga og þeirra, sem ekki geta greitt hvaða verð sem krafist er fyrir mat sinn. Svo verður það, ef aðflutt feitmeti nægir þeim mönnum einum, sem næga peninga hafa. Þá verða hinir að eta þurt. Aðalatriðið er, að þingið sjái um, að hinir efnaðri lifi ekki í „vellystingum praktuglega“ og hinir efnaminni svelti. Jeg hafði tal af merkum manni, nýkomnum frá Englandi. Hann var alveg forviða á óhófinu, sem varð hjer alstaðar fyrir augunum á honum. Á Englandi væru allar lífsnauðsynjar skamtaðar. Feitmetið er ein af brýnustu lífsnauðsynjum. Ef alt er látið danka eftirlitslaust, getur hæglega komið til þess, að þeir, sem peningana hafa, smyrji jafnþykt brauðinu, en hinir hafi ekkert. Jeg segi það einu sinni enn, að hvað sem líður þessu frv. um einkarjett til að versla með feitmeti, er það skylda þingsins að sjá fyrir því, að ekki verði feitmetisskortur í einstökum hjeruðum, eða meðal efnaminna fólks af þeirri ástæðu, að alt sje látið ganga eftirlitslaust.