16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (1723)

23. mál, skipamiðlarar

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Þó frv. það, sem hjer um ræðir, sje ekki langt, er það þó að efni til svo mikilvægt, að nefndinni hefir ekki unnist nægilegur tími til að íhuga það sem skyldi. Skipamiðlastarfið er nú á byrjunarstigi hjer á landi, og er fyllilega ástæða til að reyna að tryggja það nú þegar, að menn verði ekki valdir til þess af verri endanum. Nefndinni barst langt og ítarlegt frv. í handriti, sem hún hafði tæpast annað að athuga við en það, hve langt og ítarlegt það var, allra helst þar sem þingtíminn mun hafa verið vel hálfnaður, að því er búast má við, þegar nefndinni barst frumvarpið í hendur. Mál þetta er svo áríðandi og umfangsmikið, að þingmönnum er ekki ætlandi að búa það út til fullnustu, heldur væri það stjórnarinnar og sjerfróðra manna að búa það vel úr garði áður en á þingið kæmi. En jafnframt þessu sá nefndin þörf á, að sett verði nú þegar byrjunarlagaákvæði til að tryggja þeim mönnum, sem þurfa að snúa sjer til skipamiðla, að einhverjir sjeu til innanlands, og þeir ekki af verri endanum. Hefir nefndin því komist að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að aðhyllast frv.

Það, sem fyrir liggur, með lítilfjörlegum breytingum.

Nefndin leitaði álits Verslunarráðs Íslands og fjekk brjef frá því, þar sem komist er að sömu niðurstöðu og nefndin komst að; lög um skipamiðla í öðrum löndum sjeu mjög sundurleit, og hjer á landi hagi á margan hátt alt öðruvísi til en í öðrum löndum; sje því ráðlegast að fara gætilega af stað, en byggja síðar á reynslunni, er lengri og ítarlegri lög verði sett um starfsemi skipamiðla.

Nefndin ráðleggur því hv. deild að samþykkja frv. með þeim breytingum, er jeg nú í stuttu máli skal minnast á.

Fyrsta brtt. við 1. gr., er sú, að skipamiðlar verði skipaðir eftir tillögum bæjarstjórnar, nema í Rvík; þar yrðu þeir skipaðir, eins og í frv. var ætlast til að væri alstaðar, eftir tillögum Verslunarráðs Íslands. Nefndinni virtist að Verslunarráðið myndi bresta kunnugleika til þess nema hjer í Rvík.

Þá er önnur brtt., við 2. grein. Greinin er orðuð upp, og eina breytingin sú, að í stað „hafi óflekkað mannorð“ komi „valinkunnur maður“. Fyrsta skilyrðið fyrir skipamiðil er auðvitað, að hann hafi nægilega þekkingu til starfans, en það er ekki einhlítt. Skipamiðillinn þarf líka að vera valinkunnur heiðursmaður, sem allir beri traust til og stjórnarvöldin geti verið þekt fyrir að vísa mönnum til. Eins og ástandið er nú, er hættan sú, að menn hitti ekki á nógu góðan skipamiðil, er þeir þurfa til hans að leita, sem sje heiðarlegur í öllu tilliti. „Valinkunnur maður“ er þrengra hugtak en „hafi óflekkað mannorð“, og það er einmitt aðaltilgangur þessara laga að tryggja það, að til skipamiðilsstarfs veljist ekki nema ágætismenn.

Þriðja brtt. er að eins orðabreyting. Þótti nefndinni það betra mál og áferðarfallegra, að setja „skipamiðill“ í stað „skipamiðlari“.

Fjórða brtt., við 4. grein, er sú, að tekið er berum orðum fram, að það er stjórnarráðið, sem sviftir skipamiðil löggildingu.

Þá er fimta brtt., við 5. grein; a-liðurinn leiðir af 3. brtt.; b-liðurinn er, að við greinina bætist: „enda beri þeir og ábyrgð á gerðum sínum sem slíkir“. Þetta ákvæði fanst nefndinni vanta í frv. Það er ekki nóg, að skipamiðlar sjeu sektaðir, ef þeim verða á afglöp í starfi sínu. Hitt er sjálfsagt, að menn eigi kröfu til skaðabóta á skipamiðlana sjálfa, ef þeir hafa orðið fyrir tjóni, sem miðlarnir eru valdir að, hvort sem það er af vangá eða af ásettu ráði.

Fleirum orðum fer jeg ekki um þetta, en vona, að menn taki frv. og brtt. nefndarinnar vel.