18.05.1918
Efri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (1738)

56. mál, fólksráðningar

Magnús Kristjánsson:

Þótt frv. þetta sje komið frá bjargráðanefnd deildarinnar, ber mig engin skylda til að leggja því liðsyrði. En mjer getur ekki dulist, að ýms ummæli hv. þm. Ísaf. (M. T). voru óþarflega hvatskeytleg og jafnvel illviljuð í garð nefndarinnar, sem ber frv. fram. Jeg tel ekki heppilegt, að gerðar sjeu tilraunir til að æsa hugi manna gegn hverri bjargráðatilraun, sem fram er borin. Það er rangt að tala um frv. á þessu stigi sem lög, heldur á það að skoðast sem tillaga, sem borin er fram og á að athuga, með fullri stillingu. Og er mál þetta vel þess vert, en síður hins, að ráðist sje á það með illvilja. Flestum kemur saman um, að hlutfallið milli vinnukrafts til sjávar og sveita, á ýmsum árstímum, sje ekki heppilegt. Oft mun því mikill vinnukraftur fara til lítils, því hingað til hefir lítið verið gert af hálfu stjórnarvaldanna til þess, að hann gæti komið að fullum notum. Með þessu frv. er gerð nokkur tilraun til að bæta úr þessu mikla ólagi, og fæ jeg ekki sjeð, að það gangi á nokkurn hátt of nærri rjetti einstaklinganna. Gert er ráð fyrir, að bæði vinnuveitendur og vinnuþiggjendur hafi fullkomið frjálsræði í að leita eftir vinnukrafti eða atvinnu. Þar er ekki þröngvað kosti nokkurs manns. En tilraun er gerð til að ljetta bæði vinnuveitendum og vinnuþiggjendum að ná því takmarki, sem báðir vilja ná. Annað eða verra liggur ekki í þessu frv.

Að mínu áliti er það illa gert að ætla að færa þetta á verri veg og stimpla þá, sem að frv. standa, sem „týranna“ — það orð höfum vjer reyndar heyrt áður hjer í deildinni, en þá í öðru sambandi. Hjer er ekki verið að koma á neinskonar harðstjórn. Þvert á móti er verið að greiða fyrir mönnum. Það gæti auðveldlega komið fyrir, að vinnuskortur yrði í einhverjum hjeruðum landsins, en í öðrum hjeruðum væri hægt að nota meiri vinnukraft en til væri þar í sveit. Mundi atvinnuskrifstofan geta unnið þarft verk, þegar svo stendur á. Hún gæti alveg komið í veg fyrir, að leggja þyrfti atvinnulausu fólki lífsviðurværi, án þess að nokkurt verðmæti fengist í staðinn.

Þessi aðalhugsun frv. er mjög þörf, en jeg skal ekki neita því, að einstök atriði gætu farið betur öðruvísi. En dómur hv. þm. Ísaf. (M. T.), að frv. væri óhæft og jafnvel ósæmilegt, var alveg órökstuddur. Jeg vil ekki líta svo á, að þessi framkoma hans hafi verið sprottin af illvilja, heldur af fljótfærni og misskilningi. Við þessa fyrstu umr. vil jeg ekki hreyfa einstökum atriðum, þó hv. þm. Ísaf. (M. T.) hafi leyft sjer það. Vona jeg svo að endingu, að hann eigi eftir að verða stuðningsmaður frv. með þeim breytingum, sem hann álítur nauðsynlegar. Gæti frv. að líkindum borið góðan árangur í hans eigin kjördæmi, því ekki er langt síðan þar hjó nærri verulegri neyð.