22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (1741)

56. mál, fólksráðningar

Framsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Nefndin hefir tekið frv. aftur til athugunar og gert við það nokkrar breytingar, til frekari skýringar á fyrirmælum þess. En ekki þótti henni ástæða til að gera við það neinar efnisbreytingar.

Jeg skal þá leyfa mjer að minnast lítillega á einstakar greinar frv.

Fyrsta gr. fer fram á það, að sett verði á stofn fólksráðningarskrifstofa hjer í Reykjavík, í samráði við Búnaðarfjelagið og Fiskiveiðafjelagið, til þess, að greiða fyrir vinnuviðskiftum í landinu. Nefndin lítur svo á, að fólksráðningarskrifstofa hjer í Rvík þurfi að hafa samband við tiltekna menn úti um land, til þess að starf hennar verði greiðara og vafningaminna. Sumum kom til hugar, að til þess væri nefndur einn maður í hverri sveit, en því mátti ætla að fylgdi kostnaður, og var því hin leiðin valin, að leggja þetta á sveitarstjórnir, eins og fleira, án ákveðinnar borgunar.

Í 2. gr. er stjórninni veitt heimild til að ráðstafa atvinnulausu og bjargarvana fólki, en með því meinar nefndin alls ekki, eins og sumir hafa getið sjer til, að komið verði á allsherjar þurfamannaflutningi. Enda er ekki gert ráð fyrir, að þessi lög nemi nein önnur lög úr gildi. Ákvæði sveitarstjórnarlaganna ráða því enn þá um það atriði eftir sem áður, og engin hætta er á, að ákvæði frv. verði misbeitt, þar sem samþykki sveitarstjórnar þarf meðal annars til þess, að því verði beitt.

Í 3. gr. lá upphaflega það, að bæði vinnuveitendur og vinnuþiggjendur gætu snúið sjer til skrifstofunnar; það var að vísu ekki skýrt tekið fram í greininni um vinnuþiggjendur; aftur á móti var þess getið í greinargerðinni. En með brtt. nefndarinnar verður þetta nú fullskilmerkilegt.

Bæði 4. og 5. gr. eru svo ljósar, að þær þurfa engrar skýringar við.

Um 6. gr. er það að segja, að jeg tel slíkt ákvæði nauðsynlegt og þarft í alla staði. Eins og kunnugt er, þá er farið að koma á slíku eftirliti á öðrum sviðum, t. d. í skólunum, og þykir það að góðu gagni koma.

Önnur brtt. nefndarinnar gengur út á það, að setja þann svip á niðurlagsgrein frv., að það sje ófriðarráðstöfun. Hún breytir að vísu ekki frv., og er því ekki þýðingarmikil.

Jeg skal svo ekki fara frekari orðum um frv. að sinni.