01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (1760)

56. mál, fólksráðningar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Eins og kunnugt er, er þetta frv. um fólksráðningarskrifstofu o. s. frv., komið frá hv. Ed. Bjargráðanefnd þeirrar deildar flutti það, en aðalhöfundur þess mun vera hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.). Bjargráðanefnd hv. Ed. hafði samvinnu við bjargráðanefnd hv. Nd. um þetta frv., og er mjer óhætt að segja, að neðri deildar nefndin hafi þá fallist á stefnu frv. í öllum aðalatriðum.

Nefndin hefir nú á ný haft þetta frv. til athugunar, og eins og menn geta sjeð af nál. á þgskj. 260, leggur meiri hlutinn til, að frv. verði samþ. óbreytt. Hins vegar hafa tveir hv. nefndarmenn komið fram með brtt. á þgskj. 261, er fara fram á allverulegar breytingar á frv. Þeir leggja til, að feldar verði í burtu 2., 4. og 6. gr. frv. ásamt nokkrum hluta 5. gr., eða í stuttu máli öll ákvæði frv. er lúta að því, að heimila landsstjórninni að ráðstafa atvinnulausu fólki.

Meiri hluti nefnarinnar verður að mæla á móti þessum brtt. og ráða hv. deild til að samþ. það óbreytt. Jeg hygg, að óhætt sje að fullyrða, að meiri hlutinn líti svo á, að tilgangi frv. sje talsvert spilt, verði heimildin til þess að ráðstafa bjargarvana fólki og atvinnulausu numin burtu. Reyndar skal jeg geta þess, að sumir í meiri hluta nefndarinnar telja vafasamt að hve miklu haldi þessi ákvæði geti komið. Aftur hafa aðrir, og á meðal þeirra er jeg, trú á því, að heimild þessi geti komið að miklum notum, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis. Jeg hafði meira að segja tilhneigingu til þess að ganga lengra en í frv. er gert.

Jeg skal leyfa mjer að vekja athygli á brtt. á þgskj. 227. Nefndin hefir að vísu ekki rætt hana, en jeg hygg óhætt að lýsa því yfir, að hún fallist á hana, enda mun svo litið á, að hún sje fremur orðabreyting en efnisbreyting.

Meiri hl. ræður sem sagt til þess að samþykkja frv. óbreytt. En nú munu menn brátt fá að heyra, hvað minni hl. hefir fram að færa, sínu máli til stuðnings.