01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (1761)

56. mál, fólksráðningar

Jörundur Brynjólfsson:

Við tveir nefndarmenn höfum ekki getað orðið sammála meðnefndarmönnum okkar, að öllu leyti, um frv.

Eins og brtt. okkar, á þgskj. 261, ber með sjer, teljum við 2. og 4. gr., og þau önnur ákvæði í frv. er snerta þær, tilgagnslaus, eins og þau eru orðuð. Ákvæði 2. gr. eru þannig, að þegar þyrfti að beita þeim, væri það orðið um seinan. Ef þau ættu að koma að einhverjum notum, þyrfti að orða þau svo, að stjórnin hefði heimild til að ráðstafa fólki fyr en það væri orðið bjargarvana. Stjórnin ætti að hafa heimild til að skipa fólki að vinna (framleiðsluvinnu) áður en það væri orðið bjargarlaust. En eins og 2. gr. er orðuð nú, hefir stjórnin ekki heimild til þessa fyr en menn geta ekki bjargað sjer sjálfir.

Þegar svo er orðið ástatt, — en það myndi aðallega koma fyrir í kauptúnum —, má búast við, að vetur sje genginn í garð, en það er á þeim tíma árs, sem búast má við að ókleift sje að koma fólki í burtu. Ákvæði þessarar greinar er því algerlega máttlaust pappírsgagn, er að engu liði myndi koma. Til þess að það kæmi að notum, þyrfti landsstjórnin að hafa heimild til að skipa fólki að fara þangað, sem atvinnu væri unt að fá, ef ástæða væri til að óttast, að það yrði atvinnulaust síðar.

Auk þessa er annað ákvæði þessarar sömu greinar, er gerir það vafasamt, að hvaða haldi þessi heimild geti komið. Ekki er hægt að setja fólk niður samkvæmt þessu frv., nema með samþykki stjórnarvalda þeirrar sveitar eða bæjar, er eiga að taka við fólkinu. Sveitarstjórnir þær, sem eiga hlut að máli, verða að gefa samþykki sitt til þess, að fólk megi setjast þar að. Þó að geramegi ráð fyrir því, að sveitarstjórnir hafi ekki á móti því, að taka við þessu fólki, þá gætu þær það ekki, nema þær hefðu vísan samastað fyrir fólkið. Nú getur staðið svo á, að efnuð heimili, er gætu tekið við nokkrum mönnum, þurfi ekki beinlínis á fólki að halda og synji af þeirri ástæðu málaleitunum sveitarstjórnarinnar. Af því myndi beinlínis leiða, að sveitarstjórnir yrðu að neita því, að taka við fólkinu, og gæti landsstjórnin þá ef til vill ekki ráðstafað því.

Í þessari grein er ákveðið, að landsstjórnin megi ráðstafa vinnufæru en atvinnulausu og bjargarvana fólki. En þá virtist meiri jöfnuður, ef einnig mætti skylda þá menn, er gætu bætt fólki við sig, til að taka við því. Þá fyrst mætti búast við gagni af lögunum.

Jeg þarf ekki að fara frekari orðum um þetta; hygg að það sje mönnum nokkurn veginn ljóst. 4. og 6. gr. og síðari hluti 5. gr. standa í sambandi við 2. gr., og þarf jeg því ekki að fjölyrða um þær.

Ef samþykkja ætti eitthvað í þessa átt, þyrfti vald landsstjórnar að vera miklu viðtækara. Sje jeg ekki heldur neitt því til fyrirstöðu, að landsstjórninni sje heimilað vald til þess að skipa ungu fólki og vinnufæru að leita sjer atvinnu. En þá þyrfti það ákvæði að vera orðið svo, að hægt væri að ráðstafa fólkinu áður en það yrði um seinan. En til þessa er frv. algerlega ónógt.

Ef atvinnuvegir vorir geta ekki starfað í sumar, eins og tæki og áhöld leyfa, vegna fólksskorts, væri það þjóðarbúskapnum hið mesta mein og hin mesta nauðsyn að reyna að bæta úr því, eftir því sem unt er. Er jeg ekki í neinum vafa um, að t. d. hjer í Rvík og ef til vill víðar væri margt fólk, er ekki hefði neinn nytsamlegan starfa. Sæi jeg þá ekki eftir því, þó að fólk þetta yrði knúð til að vinna með lögum, þegar horfurnar um afkomu þjóðarinnar eru jafnerfiðar sem nú.

En sem sagt er frv. alveg ónógt til þessa, og þyrfti því að herða að mun á ákvæðum þess. Nú eru þau þannig, að þá fyrst, er alt er komið í þrot og vetur stendur fyrir dyrum, má grípa til þessara úrræða. En þá væri það um seinan. En það sem olli því, að við bárum ekki fram breytingar, sem fóru í þessa átt, var það, að okkur flutnm. að þessum brtt. þóttu litlar horfur á, að slík ákvæði yrðu samþykt.