01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (1768)

56. mál, fólksráðningar

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru að eins örfá orð. Mjer virðist svo, sem hv. þm. misskilji þann tilgang, sem þetta frv. óneitanlega hefir. Tilgangurinn er sá beinlínis, að reyna að stuðla að því, að atvinna og framleiðsla verði sem mest, en það er ótvírætt, að frv. nær ekki tilgangi sínum, eins og það er orðað. Tilgangurinn er sá, að láta sem flesta vinna að framleiðslu á komandi sumri, og þó að það sje nokkuð seint fram komið, getur ekki hjá því farið, að það verði að nokkru gagni, ef það er fljótt samþ. og afgreitt. Því næst verður að athuga, hvort ekki eru margir þeir menn, sem fáanlegir myndu til að fara í sveit, eða þá vinna að einhverjum þeim störfum, sem nauðsynleg væru, og þegar þær upplýsingar væru fengnar, þá að leitast fyrir um það, hvort ekki vantar menn til heyvinnu eða sjávarútvegs, og þá að skipa því fólki, sem ekki hefir vinnu, eða stundar gagnslausa vinnu, í vistir í sveitunum. En ef til ógnar vandræða horfir, getur hæglega til þess komið, að nauðsynlegt verði að fá stjórninni heimild til að skipa fólki niður.