10.06.1918
Neðri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (1774)

56. mál, fólksráðningar

Einar Jónsson:

Það er svo vanhugsað og öfugt frv., sem hjer liggur fyrir, að það er naumast hægt að binda sig við það, en jeg skal þó gera það sem jeg get í því efni. Jeg býst við, að margir af landsmönnum muni vera farnir að búast við því, að þetta þing, sem nú hefir setið hjer í 2 mánuði, væri búið að gera eitthvað að gagni, en jeg hefi ekki sjeð það enn þá, og enda þótt jeg liti í þetta frv., þá get jeg ekki heldur sjeð, að það bæti nokkuð úr skák í því efni.

Hv. þm. Dala. (B. J.) er búinn að tala mikið um þetta frv., og hefir hann farið sanngjörnum orðum um það. En það, sem hv. 1. þm. Arn. (S. S.) hefir sagt um það, met jeg einkis. Jeg held, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, geti ekki talist nein dýrtíðarráðstöfun, til bóta. — Ef á að fara að skylda bændur til þess að taka við fólki, sem þeir hafa ekkert með að gera, þá tel jeg, að farið sje um of inn á eignarrjett einstakra manna. Því að jeg skil þetta frv. svo, að það eigi að útvega atvinnulausu fólki vinnu hjá þeim, hvort sem þeir vilja nokkuð með það hafa eða ekki, og bændur, sem þurfa að fá sjer vinnukraft, eiga að taka við því, hvort sem það getur orðið þeim að nokkrum notum eða ekki. En oftast mun það fólkið, sem liðljettast er til vinnu, skorta atvinnu, fremur en hitt, sem dugandi er. það yrðu því ónytjungarnir, sem þessi fólksráðningastofa hefði til útbýtingar, og býst jeg ekki við, að vinnuþiggjendum þætti það svara kostnaði. Þetta er sú dýrtíðarráðstöfun, sem verið er að gera; sú ónýtasta og órjettlátasta, sem jeg hefi sjeð. Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að eitt af tvennu ætti að gera, að láta annaðhvort alla vera sjálfráða, eða lögbjóða alt. En jeg vil hjer fara milliveginn, að alt sje ekki látið liggja í lausu lofti, en ekki heldur alt lögboðið, sem kemur við atvinnuþörfinni og vinnuveitandanum í bága. Jeg held nú helst, að eins og nú er komið, sjeu ekki neinar líklegar ráðstafanir í okkar höndum, sem viturlegar sjeu, og þess vegna væri best, að við segðum vertu sæll hver við annan og færum okkar leið, því að þó að við segjum, að þetta frv. sje dýrtíðarráðstöfun, þá er það tómt ómark, sem við undirskrifum með einu stóru ómarki, frá upphafi til enda. Þjóðin ræður eins miklu um þetta, og þess vegna vil jeg fá styrk hvers einasta hv. þm. til þess að losna við þetta ómak.

Jeg sje ekki, að nokkur bót sje í þeim brtt., sem hjer liggja fyrir framan mig. Frv. er óbrúklegt sjálft, og brtt. bæta það ekkert; vil jeg því lýsa yfir því, að jeg mun ekki greiða því atkv. mitt, og þarf enginn hv. þm. að halda, að hann bæti heiður þingsins að nokkru leyti með því að vilja samþykkja það.

Jeg ætla með nokkrum orðum að minnast á það, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að það væri ekki rjett fyrir Reykjavík og austurhjeruðin að vilja skiljast hvort við annað. Tel jeg það rjettmætari umsögn en hitt, sem Jón Ólafsson sagði á þingi 1913, að þótt himinhár múr væri gerður eftir allri Hellisheiði, þá myndi Reykjavík einkis sakna, og lifa jafnvel þó öll viðskifti við austurhjeruðin hyrfu. Það var rjett, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að Reykvíkingar þyrftu mjólk og smjör að austan. Til þess þarf að koma upp járnbraut austur, en fólksráðningaskrifstofan má fara sína leið; jeg greiði atkv. á móti henni þegar í kveld.