10.06.1918
Neðri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (1776)

56. mál, fólksráðningar

Gísli Sveinsson:

Síðan mál þetta var hjer síðast til umr. hafa allmargar brtt. komið fram við það.

Um till. bjargráðanefndar er það að segja, að þær eru að sumu leyti aðgengilegri og að sumu leyti, ef til vill, lakari en frv. En jafnframt skal jeg lýsa yfir því, að jeg hefi ekki verið móti frv. eins og það var, og er það ekki enn, en jeg álít, að brtt. nefndarinnar geri hvorki til nje frá, þegar öllu er á botninn hvolft. Hún vill færa töluvert af þessu starfi yfir á bæjar- og sveitarstjórnir, og það getur verið heppilegt, en um það skal jeg ekki fjölyrða frekar. En jeg vildi einkum fara nokkrum orðum um ræðu hv. þm. Dala. (B. J.) í sambandi við ræðu hæstv. forsætisráðherra.

Jeg varð hissa að heyra hv. þm. (B. J.) leyfa sjer svo sem að egna annan stríðsaðiljann móti skipum vorum og flutningi. Slíkar getsakir hafa að vísu komið fram hjá hinum hv. þm. (B. J.) áður, en mjer og öðrum fellur þungt, að nokkur maður skuli láta sjer slíkt um munn fara. Þótt vjer höfum orðið undir kúgun að búa, eru slík ummæli sem þessi algerlega óleyfileg gagnvart sjálfum oss, og einnig sjálfum Þjóðverjum, þeim aðiljanum, sem hv. þm. (B. J.) gefur í skyn að muni láta oss sæta hörðu. Því að hvað höfum vjer til saka unnið? Hvað höfum vjer gert á hluta Þjóðverja? Það er hreint og beint óðs manns æði að geta þess til, að Þjóðverjar sýni oss slíka fúlmensku, þó að vjer höfum neyðst til, stöðu vorrar vegna, að gera samning við Englendinga. Jeg þykist þess fullviss, að Þjóðverjar láti oss eigi í einu nje neinu gjalda slíks samnings, fremur hjer eftir en hingað til.

Hv. sami þm. (B. J.) kvað nú vera komna 11. stundu; nú væri mál til komið að aðhafast eitthvað. Kafbátarnir þýsku væru nú komnir að ströndum Vesturheims, og skip vor, sem ganga vestur um haf, væru því í hættu stödd, — þeim mundi verða sökt, vísvitandi eða óvart, og allir aðflutningar til landsins teppast. En hvaða ástæða er til að hugsa svo? Alls engin. Því að ef Þjóðverjar hefðu viljað láta oss gjalda aðstöðu vorrar, hefðu þeir gert það fyrir löngu. Undanfarið hefir kafbátahernaður altaf verið kringum England, þar sem skip vor hafa átt leið um, og þau þó aldrei verið lögð í einelti af Þjóðverjum. Þessar getsakir hv. þm. Dala. (B. J.) eru þess vegna algerlega rakalausar, og jeg tel þær ranglátar gagnvart þessum aðilja, sem bæði fyrir stríðið og síðan það hófst hefir ekki sýnt oss annað en gott eitt. En jafnframt eru getsakir þessar rangar gagnvart sjálfum oss, þar sem þær eru notaðar sem röksemdir með till., sem hjer er fram borin og eigi ætti að ná fram að ganga. Það er þess vegna algerlega ófyrirsynju, að hv. þm. (B. J.) hefir í hótunum um, að spár hans muni rætast, ef till. verði feld.

Þá kem jeg að meginefni máls hans, að landsstjórnin eigi að taka allan búskap landsins í sínar hendur. Vel má vera, að hv. þm. Dala. (B. J.) treysti landsstjórninni svo vel, að hann vilji fela henni búskap landsins. Og jeg skal ekki fortaka, að fleiri kunni að verða hv. þm. (B. J.) sammála um þetta. En jeg hygg, að þeir sjeu miklu fleiri, sem eigi vildu fela nokkurri stjórn — síst þeirri stjórn, sem nú situr að völdum — búskap sinn í hendur. Mjer er líka ráðgáta, hvernig stjórnin gæti rekið búskap landsins, svo vel færi, þar sem orðið hefir stórkostlegur tekjuhalli á öllum þeim dýrtíðarfyrirtækjum, sem hún hefir haft með höndum; enda er slíkt framleiðslufyrirkomulag hvergi tíðkanlegt, ekki einu sinni í stríðslöndunum. Tal hv. þm. (B. J.), um þetta atriði, er því alt út í hött. Slíkt búskaparfyrirkomulag er eitt af því, sem eigi gæti komið til mála.

Og líti maður nú á ástandið eins og það er, og hvort þörf sje á slíku fyrirkomulagi, má með sanni segja, að þó að þröngt sje um í ýmsum greinum, virðist það vera hrein og bein fjarstæða, að búskapur landsins sje lagður landsstjórninni í hendur. Hitt er annað mál — og í því getur verið heil brú — að reynt sje að hlynna að atvinnuvegunum með því, að setja alt verkfært fólk til vinnu. En þegar að því kemur, hvernig á að framkvæma þetta, má búast við, að leiðir manna skiftist. Mjer skildist á ræðu hæstv. forsætisráðherra, að hann ætlaðist til, að fólkinu yrði skift milli atvinnuveganna. Mjer er óskiljanlegt, að þessi skifting gæti orðið í nokkru lagi, nema fólkinu sje skift hlutfallslega jafnt, svo sem bráð nauðsyn krefur, milli atvinnuveganna. Fólkið frá sjávarútveginum yrði að nokkru að fá atvinnu hjá landbúnaðinum. En ákvæðið í till. hv. þm. Dala. (B. J.) um þetta atriði er í raun og veru alveg eins og ákveðið er í sjálfu frv., en framkvæmdin að eins hugsuð með dálítið öðrum hætti. Ef hæstv. forsætisráðherra vill vinna að því að skifta fólkinu milli atvinnuveganna, skil jeg eigi, eftir till. hv. þm. Dala. (B. J.), eins og þær eru orðaðar, hvernig komist verður hjá að lögbjóða menn í vistir. En það tel jeg eigi kleift eða gerlegt, eins og nú stendur á. En jeg tel veg nefndarinnar færan og til bóta, ef veruleg brögð verða að atvinnuskorti á einum stað eða öðrum.

Mönnum mun og finnast, að auk þess, sem er aðalatriðið hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að fela stjórninni búskap landsins, sje farið of langt í að fela henni umsjá á einu og öðru. Hún á að setja á stofn fólksráðningarstofur, skifta niður fólkinu á atvinnuvegi landsins, úthluta matvælum o. fl. Það þarf sannarlega ímyndunarafl til þess að komast að þeirri niðurstöðu um alt þetta, að stjórninni takist að tryggja þetta alt vel. Jeg er hræddur um, að henni verði skotaskuld úr að ákveða rjett hlutföll milli hinna ýmsu atvinnuvega. Það er miklum erfiðleikum bundið að rannsaka það atriði ábyggilega, eigi síst um þennan tíma árs, og kostnaðarsamt er það líka.

Hv. þm. Dala. (B. J.) ætlast til, að stjórnin hafi vald til að skipa mönnum vistir, en að eins atvinnulausu fólki. Nú getur fólk verið atvinnulaust, en hins vegar engin atvinna verið til handa því, því að hugsast getur, að sveitabændur vilji ekki bæta við sig fólki. En hvað á þá að gera ? í 4. gr. brtt. er svo ákveðið, að stjórnin megi skipa mönnum hjú til þess að afstýra bjargarskorti, en þó ekki að eins vegna atvinnuleysis. Hvernig á að samrýma þetta? En ef á að ganga þessa braut, verður að sjálfsögðu að sjá um, að fólkið verði tekið í vistir. Jeg hefi bent á, að slíkt getur ekki náð nokkurri átt, ef beita á nauðung. Því mætti spá með miklu meiri rjetti, að þetta yrði til þess að koma öllu í kaldakol, ef á að ráðast með slíkum hætti inn á heimili manna. Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að verið gæti, að fólk hefði atvinnu, en að sú atvinna væri ekki heppileg,rjeði sig t.d. í síldarvinnu, en bæri lítinn hlut frá borði. Þetta getur hugsast. En á þessu hefir þó verið meiri hætta áður, en gera má ráð fyrir nú. Jeg hygg, að fólk ráði sig varla í hópum í síldarvinnu í því árferði, sem nú er; og jeg býst ekki heldur við, að vinnuveitendur safni að sje mörgu fólki. Síldveiði getur ekki þróast í ár. Á þessu hvorugu mun vera mikil hætta. En hins vegar getur verið viðsjárvert að svifta menn þeirri atvinnu, sem þeir eiga kost á. Sú leið er ekki heldur farin í frv. nje brtt. bjargráðanefndar. En aðalatriðið er þetta: í fyrra lagi að ráðstafa atvinnulausu fólki og í öðru lagi þeim, sem eru bjargarvana. En þessar ráðstafanir verða að fara fram með öðrum hætti en að skipa mönnum fólk þetta sem hjú.

Hæstv. forsætisráðherra kvað þingið eiga að veita fje til þess að tryggja atvinnuvegi landsins. Og jeg veit ekki betur en gert sje ráð fyrir í lögunum um almenna dýrtíðarhjálp, að landsstjórnin megi láta fólk vinna í beinar þarfir framleiðslunnar. En auðvitað er henni þar ekki gefin heimild til að siga fólki í vitleysu hingað og þangað, t. d. í grjótvinnu, um hávetur, upp um háfjöll. En stjórnin hefir þetta í sínun höndum og getur bæði lagt fólk og fje til framleiðslunnar, eins og hún hefir ráð á.

Jeg sje því enga þörf á að ákveða þetta nánar, en gert er í till. bjargráðanefndar, og býst jeg við að fylgja þeim, eins og komið er um málið.