27.05.1918
Efri deild: 28. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (1789)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Halldór Steinsson:

Í fljótu bragði kann frv. þetta að virðast meinlítið, en jeg hygg þó, að ýmislegt sje athugavert við það, ef nánar er athugað.

Jeg lít svo á, að þingið ætti að gera sem minst að því, að veita einkaleyfi á útflutningi og verkun á algengum vörum. Jeg get tekið sem dæmi, að ekki er langt síðan farið var að gufubræða lýsi og koma upp fiskþurkunarhúsum; ef einstakir menn hefðu nú fengið einkaleyfi á fyrirtækjum þessum, þá mundi það hafa orðið til stórtjóns, þrátt fyrir það, að fyrirtækin eru í sjálfu sjer til stórbóta.

Við sjáum ekki langt fram í tímann, en svo getur farið, að vjelþurkað kjöt komist á svo góðan markað erlendis, að það útrými saltkjötinu, og mundi þá varhugavert, að einkaleyfið væri í höndum eins manns, er gæti skamtað landsmönnum eftir vild, hversu hár markaður sem yrði fyrir kjötið erlendis.

Tíminn er að vísu stuttur, 5 ár, en ef góður markaður fæst þann stutta tíma, getur það þó haft alvarlegar afleiðingar. Jeg tel viðleitnina góða og virðingarverða, að auka vöruvöndun, en ef sú viðleitni þarf að styðjast við sjerstök einokunarrjettindi, get jeg ekki búist við góðum árangri. Jeg get því ekki verið með frv. þessu.