29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (1793)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Mjer finst, að brtt. á þgskj. 246 sjeu fram komnar í þeim tilgangi, að eyðileggja frv., enda er víst tillögumaðurinn á móti því. (M. T.: Jeg greiddi atkvæði með frv. til 3. umr.). Jæja, það kann vel að vera, en hann hefir nú eitthvað breyst, og yfir höfuð lítur út fyrir, að sannfæring deildarinnar sje ekki vel föst hvað þetta mál snertir.

Þá skal jeg drepa á þá mótbáru hv. þm. Snæf. (H. St.) gegn frv., við 2. umr. þess, að eins og bætt hafi verið verkun á lýsi og fiski, eins megi bæta kjötverkunina, án þess að veita einkaleyfi til slíks. En mjer finst það ekki saman takandi, því miklu meiri kostnaður er í sambandi við það, að þurka kjöt með vjelum, en að gufubræða lýsi. Jeg get ekki heldur sjeð mikla hættu á því, að þetta einkaleyfi, eða rjettara sagt þetta fyrirtæki, mundi eyðileggja saltkjötsmarkaðinn, að minsta kosti ekki mjög bráðlega. En stafi saltkjötsmarkaðinum mikil hætta af þessu, sýnir það best, að þessi kjötverkunaraðferð er vænleg til framfara og á sem fyrst að komast í framkvæmd, og þessi mótmæli eru því meðmæli með frv.

Maður getur sjeð það á brtt. sjálfum, að þær eru fram komnar sem mótstaða gegn frv., því t. d. það, að stytta leyfistímann um þriðjung, er til þess að þrengja kosti þess, sem um sækir, og það getur gert honum miklu erfiðara fyrir með að hætta á framkvæmdir.

Þá er sú ástæðan, að verðið á eignum fyrirtækisins gæti orðið „spekulations“verð, þegar landsstjórnin vildi taka það í sínar hendur, ef brtt. næði ekki fram að ganga. Þetta finst mjer nú sannast að segja óþarfa varfærni. Í frv. segir, að dómkvaddir menn eigi að meta eignirnar; og jeg hygg, að hvorki landbúnaðarnefnd, sem setti þetta ákvæði, eða öðrum, sem um það hugsa, detti í hug, að þessir dómkvöddu menn ynnu ekki verk sitt eftir bestu samvisku, og engin ástæða er til að ætla, að þeir færu bara að meta húsin, en ekki grunnana, þótt þeir sjeu ekki sjerstaklega nefndir á nafn. — Jeg sje þá líka ekki annað en að svo gæti farið, þó brtt. „fyrir sannvirði, samkv. mati dómkvaddra manna“, kæmi í staðinn.

Jeg gleymdi að geta fylgiskjala frá stjórn Sláturfjel. Suðurlands og frá Búnaðarfjel. Íslands, sem lögð voru fram með frv. í fyrra, og þar sem eindregið var mælt með því, að frv. næði fram að ganga. Slík meðmæli hljóta að hafa nokkuð að segja, og getur þar a. m. k. ekkert varhugavert legið á bak við.

Að hjer sje harðari ákvæðum beitt af Alþingis hálfu heldur en við áður veitt einkaleyfi sjest fljótt af samanburði. Árið 1915 veitti Alþingi einkaleyfi í 50 ár og gaf 5 ára frest til að koma fyrirtækinu á stofn; hjer er undirbúningstíminn að eins þrjú ár, og landsstjórnin getur tekið það í sínar hendur eftir 5 ár. Enn fremur var einkaleyfi til að vinna salt úr sjó veitt á Alþingi 1913 til 30 ára. Hjer eru því miklu strangari skilyrði.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) var að tala um einhverja krafta, sem stæðu á bak við og gætu komið þessu fyrirtæki í framkvæmd án einkaleyfis. Jeg veit ekki hvað hann á við með því; mjer er alls ókunnugt um þá krafta, sem hv. þm. (M. T.) talar um. Jeg vona svo, að hv. deild leyfi frv. að ganga til Nd., og skal ekki að þessu sinni fara fleiri orðum um málið.