29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (1794)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg vildi að eins með örfáum orðum gera grein fyrir atkvæði mínu. Jeg lit svo á, að hjer sje um kjötverkunartilraun að ræða, sem gæti reynst vel fyrir landið. En það er ekki von, að neinn vilji leggja út í tilraunafyrirtæki, nema hann hafi einhverskonar tryggingu fyrir því að fá byrjunarkostnaðinn endurgreiddan. En það getur tæplega orðið nema annaðhvort með beinum fjárstyrk eða einkaleyfi, sem tryggi það, að byrjunarkostnaðurinn fáist greiddur af ágóða fyrirtækisins, þegar búið er að koma því til fulls í rjett horf. Jeg lít svo á, að einkaleyfið kosti landið ekki neitt, en veiti landið einkaleyfið, svo fyrirtækið komist í framkvæmd, hefir það reynsluna í aðra hönd, og þann ágóða, sem af hinni nýju kjötverkunaraðferð kann að verða. Jeg álít, að brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.) sjeu til bóta, og get verið með þeim, og væri enn fremur rjett að skjóta því inn í 5. gr., að grunnur fylgdi með í kaupunum. Mætti bæta því við í Nd.