29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (1795)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Magnús Torfason:

Það er fullkominn misskilningur hjá hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), að brtt. sjeu gerðar til þess að koma frv. fyrir kattarnef, heldur eru þær beint til þess að bjarga því.— Jeg sný ekki aftur með það, að fjelag stendur á bak við þennan mann, sem um einkaleyfið sækir, enda er það eðlilegt, þar sem þetta er stórfelt fyrirtæki. Þess vegna álít jeg líka rjett, að fjelagið fái einkaleyfið.

Eins og jeg er búinn að taka fram, viðvíkjandi 2. brtt. þá getur vel farið svo, að fyrirtækið verði svo gróðavænlegt, að það útrými saltkjötsversluninni, og um leið orðið því til hindrunar, að framleiðendur fengju hækkað verð kjötsins, eins og vert væri. Um 3. brtt. skal bent á, að verði hún ekki samþ., getur einkaleyfishafi sagt við landsstjórnina, eftir að hún hefir tekið við fyrirtækinu: „Gerið svo vel, farið með húsin af grunnunum“, og landsstjórnin getur ekkert sagt við því.

Það var verið að bera þetta einkaleyfi saman við sandeinkaleyfið frá 1915, en það tvent er alls ekki saman berandi. Það var nú fyrst og fremst miðað við einn flóa, og sandtaka mátti ekki fara fram nema fyrir utan landhelgi, 60 faðma fyrir utan stórstraumsfjöruborð. Það var því mjög takmarkað.