14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Einar Jónsson:

Mig hefði síst furðað á því, þótt um bjargráðamál þau, sem stjórnin lagði fyrir þingið, yrðu talsverðar umræður, en á hinu furðar mig næsta mikið, að háttv. bjargráðanefnd skyldi aflaga málið. Það má ef til vill með nokkrum sanni segja, að stjórnin hafi ekki búið alls kostar vel í hendurnar á þeirri nefnd, en nefndin hefir samt stórum aflagað það, sem henni var í hendur fengið. Það er því að mínu áliti rjettast, eins og á stendur, að samþ. það, sem stjórnin hefir lagt til, en fella bæði till. meiri og minni hl. bjargráðanefndar. Hjer hefir verið mikið þrætt um það, hvorar muni vera rjettari. En jeg vil minna menn á það, að ef farið er að veita lánsheimild, með það fyrir augum, að sveitar- eða bœjarfjelög geti fengið eitthvað af lánunum sama sem gefins, ef illa fer, þá er hætt við, að sum þeirra dragi að borga og verði æði stíf í kröfum. Jeg held því, að það sje rjett hjá stjórninni að hafa lánsheimildirnar eins þröngar og unt er. Það kann að virðast lítill styrkur að veita 5 kr. á mann. En það er ekki betra að setja landssjóð á höfuðið með því að veita 20. Jeg hallast því að öllu, sem stjórnin leggur til í þessu máli, en er á móti öllu, sem brýtur í bága við það. Hjer í landi er engin neyð enn komin á daginn, og því engin ástæða til að hallast á landssjóð um skör fram. Að vísu getur neyðin orðið stærri, þegar fram líða stundir, en þá er hægurinn hjá að kalla þingið saman aftur til að ráða ráðum sínum. Það hefir nú sýnt sig, að þingið var kallað saman mánuði fyr en þörf gerðist. En ef stjórninni sýndist að kalla þing saman aftur, og það reyndist þá að vera gert mánuði of seint, þá eru þm. þó sömu skyldum háðir gagnvart stjórninni og þeir eru nú. Vonandi, að í næsta sinn takist betur til með þingkvaðningartíma. Þá má ræða um þessi mál og önnur, sem þá kunna að verða tímabær.

Mönnum kann nú að finnast jeg kom inn dálítið út fyrir efnið. En meðan hæstv. forseti áminnir mig ekki, ætla jeg að leyfa mjer að fara dálítið lengra út fyrir efnið. Hvers vegna var þingið eiginlega kallað saman? Hvaða ástæða var til að gera það á þessum tíma? Það er nú búið að sitja í einn mánuð aðgerðalaust, og allar líkur til, að það fái að sitja annan mánuðinn, áður en kemur til nokkurra verulegra starfa. Var það bara vegna þessa fráfærufrv., sem kalla varð þingið svona fljótt saman? Sumir eru farnir að hafa hálfgerða hugmynd um, að öll mál sjeu dregin á langinn, til þess að þurfa ekki að fresta þinginu. — En hvað sem þessu líður, ætlaði jeg að lýsa afstöðu minni til dýrtíðarmálanna, og hún er þessi: Jeg er ekki með einni einustu till., sem er á móti stjórnarfrv. Það er það skársta, sem fram hefir komið, og þess vegna fylgi jeg því.