14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Einar Jónsson:

Mjer þykir hv. þm. N.-Þ. (B.Sv.) fara nokkuð hörðum höndum um landbúnaðarnefndina, fyrir meðferð hennar á þessu máli. Mjer þykir það því undarlegra, sem jeg þykist mega fullyrða, að einmitt hann sjálfur var með því að veita bæði þau einkaleyfi, sem þingið hefir veitt áður. Áreiðanlega var hann með því að veita Páli Torfasyni einkaleyfi til að vinna salt úr sjó. Hv. þm. (B. Sv.) ætti að sjá, að hjer liggur fyrir fyrirtæki, sem líklegt er að verði framkvæmt og verði til bóta fyrir landbúnaðinn, en Páll Torfason hefir ekkert gert að því enn að nota sitt einkaleyfi. Líka ætti hv. þm. (B. Sv.) að vera það kunnugt, þar sem hann er þingmaður fyrir landbúnaðarhjerað, að mjög erfitt verður að hagnýta kjötið, ef ekki fæst í það salt, en á því geta orðið ýms tormerki að fá það flutt til landsins meðan siglingateppan helst. Ef Páll Torfason vinnur nú ekki saltið úr sjónum á þessum tímum, og mig minnir, að einkaleyfistími hans sje nú bráðum á enda runninn, þá verður þing og stjórn að gera eitthvað til þess, að fundin verði ný verkunaraðferð á kjötinu, svo hægt sje að gera það að verslunarvöru og mannafæðu.

Hin einkaleyfin, sem áður hafa verið veitt, hafa verið veitt til lengri tíma. En það líkar mjer miður vel. Jeg er mjög vel ánægður með það að hafa einkaleyfistímann sem stystan, eins og hjer í þessu tilfelli er ráð fyrir gert.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hafði einnig það á móti þessu frv., að það gæfi landssjóði ekkert í aðra hönd. þessari staðhæfingu hjelt hann þó ekki út ræðu sína, sem varla var von, því áður en hann lauk máli sínu varð honum litið á 3. gr. frv., og kom þar auga á það, að einkaleyfishafi á að greiða landssjóði 10 kr. af hverri smálest, sem flutt er út af þessu þurkaða kjöti. Jeg get því ekki álitið, að neitt sje óhyggilega af stað farið með þetta frv., og landbúnaðarnefndin hefir eins mikla ástæðu til að mæla með því eins og aðrir þingmenn höfðu til að mæla með þeim einkaleyfum, sem áður hafa verið veitt. Áður var samþ. að veita einkaleyfi á ákveðið nafn, en hjer er ekki farið fram á það, heldur að eins, að stjórninni sje veitt heimild til að veita einkaleyfið, ef henni sýnist ráðlegt að gera það.

Mjer finst jeg mega til að bera blak af landbúnaðarnefndinni, þegar að henni er ráðist Jeg get ekki fundið, að hún hafi gert neitt skakt í þessu máli. Enda þótt jeg þori ekki að fullyrða, hvort það er nokkuð sjerlega hyggilega ráðið að veita þetta einkaleyfi, eða nokkurt annað, þá er það þó fyllilega forsvaranlegt, í samanburði við það, sem áður hefir verið gert, að mæla með því, að þetta einkaleyfi sje veitt. Einkaleyfistíminn er styttri og gjaldið kemur í landssjóð engu að síður.

Jeg mun því halda mjer við gerðir nefndarinnar og greiða atkv. mitt með því að samþ. frv.