14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (1806)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Bjarni Jónsson:

Jeg sje ekki annað en að hv. landbúnaðarn. hafi farið skynsamlega með þessu máli. Jeg lít svo á, að allar tilraunir til þess að bæta markað á íslenskum afurðum sjeu til bóta, hvort sem um nýja aðferð er að ræða eða endurbætur á eldri aðferðum. Hjer er að ræða um nýja aðferð, sem ekki hefir áður verið notuð til muna meðal siðaðra þjóða, en er þó áður þekt.

Sá, sem vildi takast á hendur tilraunir í þessa átt, yrði annaðhvort að vera efnaður maður, til þess að hann treysti sjer til að leggja fje í annað eins fyrirtæki, sem áður er óþekt með öllu. Stofnkostnaðurinn yrði ekki lítill. Það má t. d. minna á auglýsingakostnað, sem í upphafi hlýtur að verða mjög mikill. Þá kostar það ekkert smáræði að setja upp allar vjelar og enn að senda sýnishorn af vörunni á erlendan markað, svo að nokkur von sje um, að hægt verði að selja hana. Þetta alt þyrfti maðurinn að greiða af eigin efnum. En hafi hann nú ekki efni á öllu þessu, þá þyrfti hann styrk, og þá helst frá þeim, sem þessarar nýungar ættu að njóta — frá landsmönnum. Þeir þyrftu þá að hjálpa honum til að standast þennan kostnað.

Nú má veita þennan styrk með tvennu móti. Það má veita fjárstyrk til tilraunanna og til þess að koma vörunni á erlendan markað. Einnig er hægt að hafa aðra aðferð. Tryggja manninum einkaleyfi um svo langan tíma, að hann vinni upp þann halla, sem hlýtur að verða á fyrirtækinu fyrst í stað. Þar á maðurinn vitanlega meira á hættu. Því ef fyrirtækið yrði ekki arðvænlegt, ynni hann aldrei upp hallann af fyrstu árunum og fengi aldrei kostnað sinn greiddan. Landsmenn legðu þá aldrei fje í tilraunirnar og myndu engu á þeim tapa.

En yrði fje veitt úr landssjóði, gætu landsmenn notað aðferðina, og kept hvorir við aðra þá þegar, er reynsla væri fengin, þyrfti ekki að veita neitt einkaleyfi.

Nú vitum við allir, að hjer er að ræða um fátækan mann, er ekki hefir efni á að leggja mikið í kostnað. Hann hefir áhuga á framförum í atvinnuvegum vorum og hefir komið með margar tillögur til umbóta. Má minna á tillögur hans um mótekju, sem nú hafa borið þann glæsilega árangur, að hv. Ed. hefir samþykt að veita 3.000 kr. til rannsóknar á mómýrum. En tillagan var góð, hvernig sem með hana hefði verið farið. Hún er ekki einungis framtíðartillaga, heldur og hin mest áriðandi bjargráðatillaga, sem fram hefir komið á þessu þingi.

Nú kemur önnur till. frá sama manni. Hann hefir ekki fje til að framkvæma hugmyndir sínar, en vill, að landið njóti þeirra, án þess að hann taki fje fyrir.

En ef hann á að koma þessari hugmynd í framkvæmd, sjer hann sjer ekki annað fært en að biðja um þessi rjettindi.

Mjer er ómögulegt að skilja, að þessi rjettindi verði veitt á annan hátt en þann, að honum verði skamtaður hagnaður og ekki verði atvinnuspell að. En þá fyrst yrðu atvinnuspell, ef varan yrði svo eftirsótt, að skaði væri að fleiri gætu ekki sett upp vjelar. Ólíklegt er, þótt vel gengi, að svo yrði innan 10 ára. En þó svo yrði, hefir stjórnin altaf vopn, er hún getur beitt til þess að halda verðinu niðri. Eftir 5 ár getur stjórnin keypt öll áhöld af honum eftir mati. Þyki stjórninni hann leggja óhæfilega mikið á vöruna, ímynda jeg mjer, að hann muni heldur leggja niður rófuna og lækka verðið en verða neyddir til að selja öll sín framleiðslutæki. Stjórnin gæti haft þetta fyrir keyri á hann, til þess að halda vörunni í hæfilegu verði. En væri hann illur viðureignar, þá er ekki annar vandinn en að stjórnin keypti vjelarnar. Og þótt stjórnin ræki fyrirtækið í 5 ár, væri engin ástæða til að óttast atvinnuspell fyrir landsmenn nje niðurdrep.

Það má vel vera, að „fúskara“fjelag standi á bak við þennan mann. En engin ástæða er til að ætla það, að órannsökuðu máli. Jeg hefi að minsta kosti sjeð kjöt, þurkað með þeirri aðferð, sem hjer um ræðir, og verður ekki annað sjeð en að það sje góð vara.

En stjórninni er og innan handar, að veita ekki þetta leyfi, þótt henni verði heimilað það. Jeg er þess öruggur, að stjórnin veiti ekki neinum „fúskurum“ leyfi. Jeg hygg bæði gott og lofsvert, að þessar tilraunir yrðu gerðar. Og mönnum gæti þótt gott að hafa slíkar vjelar í landinu, til þess að varðveita matvæli landsmanna, meðan salt er rándýrt og ilt er að draga það að sjer. Þó að hjer sjeu íshús, gæti þetta komið að miklu meira gagni.

Jeg hygg auðskilið, að frv. veiti stjórninni heimild til að veita einkaleyfi til að þurka kjöt, en ekki til útflutnings. Það virðist óaðgætni, að 5. gr. er orðuð eins og hún er. Það hefir vakað fyrir mönnum, að einkaleyfishafi myndi flytja kjötið út sjálfur, eða fá aðra til að leggja fram fje í tilraunir til þess að skapa kjötinu markað.

Annars þurfa menn ekki einkaleyfi til þess að flytja út kjöt. Allir hafa jafnan rjett til þess að versla. Einkaleyfishafi má selja mjer kjöt, ef hann vill, en hann þarf ekkert einkaleyfi til þess að flytja út kjötið sjálfur. Þó að ákvæði 1. og 5. gr. sjeu ekki í fullu samræmi, þá hygg jeg, að þau verði ekki skilin á annan hátt en þann, að hjer sje einungis að ræða um einkaleyfi til að þurka kjöt.