14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (1809)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að játa það, að jeg sje heldur missmíðar á frv., og hefir hæstv. forsætisráðherra bent á margt, er orða þyrfti ljósara, án þess að breyta því, er í frv. átti að liggja. Jeg hygg, að hjer sje átt við einkaleyfi til vjelþurkunar á kjöti, en ekki til útflutnings. Mætti setja í frv. það skilyrði, að þessi maður sje skyldur til að selja öðrum kjötið til útflutnings, og reisa þær skorður, er fyrirbyggi það, er hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) lagði áherslu á, að leyfisveiting þessi stæði í vegi fyrir atvinnuvegum. Það væri sjálfsagt að setja í frv. eitthvað það, er trygði það, að þessi atvinnuvegur gæti ekki spilt fyrir öðrum.

Rjett væri og að breyta 2. gr. þannig, að upphafið hljóðaði svo: „Geti leyfishafi ekki sýnt innan 3 ára frá því er leyfið var veitt“ o. s. frv. Og 5. gr. ætti að breyta þannig, að þar stæði, „5 ár frá því, er leyfið var veitt, hefir landsstjórnin rjett“ o. s. fr. Þá yrði frv. alveg skýrt, og enginn þyrfti þá að vefengja það eða hugsa, að þar sje fiskur undir steini. Þá yrði engin ástæða til að óttast ginningar, en sumir hv. þm. eru altaf svo hræddir um, að þeir verði gintir.

Þá voru örfá orð út af ræðu hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), sem reyndi að snúa á mig. Hann kvað rjettan samanburð á söltuðum fiski og þurkuðum fiski, og ull og söltuðu kjöti, og vjelþurkuðu kjöti. Hjeðan hefir aldrei verið flutt út hangikjöt, nema í það eina skifti, er það var flutt til Þýskalands, og var því þá ekki hleypt í land. Menn hjeldu það eitur og gerðu landrækt. Hingað til hefir verið flutt hjeðan saltkjöt, ekki þurkað kjöt. Hitt er alls ekki nýtt, að þurka hjer fisk og flytja út. Hið eina, sem er nýtt, er vjelþurkun á honum. En eins og hv. frsm. (E. Árna.) tók fram, er hjer um alveg nýja aðferð að ræða, áður óþekta. Það er rjett, að þessi eina kjötþurkunaraðferð er hjer þekt, að reykja kjöt, og oss þykir gott hangikjöt. Jeg gat þess, að hangikjöt hefði verið sent til Þýskalands, til Íslendings nokkurs þar, en það komst ekki í land, og maðurinn fjekk ekki leyfi til að eta það. Þetta gæti gefið bendingu um, hve auðvelt sje að koma nýrri aðferð við kjötþurkun eða verkun annara afurða inn í land, sem ekki þekkir til.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjelt því enn fram, að einkaleyfið gæti ekki orðið nema til skaða. Jeg benti honum á, að engin hætta væri á því, að þessi aðferð gæti, fyrstu fimm árin, valdið atvinnuspjöllum. Ef menn sæju fram á, að þessi aðferð gæfist svo vel, að hún yrði eftir 5 ár hættuleg fyrir atvinnuvegina í landinu, þá getur landið keypt fyrirtækið og rekið það sjálft. Og það getur aldrei orðið landinu til tjóns, að reka arðvænlegt fyrirtæki.

Sami hv. þm. (B. Sv.) gat þess, að þetta væri fundið upp suður í löndum, og því óþarft að fara norður hingað til að reyna aðferðina. Og hann gat þess, að það kynni að liggja á bak við, að ginna þá eins og þursa, er hjer búa. En mönnum gæti nú dottið í hug, að það væri auðveldara að gera tilraunir um þurkun á kjöti í köldum löndum en heitum, og ætti maðkaflugan að sýna það.

Hv. sami þm. (B. Sv.) hjelt því fram, að það væri einfaldara að veita aldrei þennan rjett en veita hann og kaupa aftur eftir 5 ár. En sje rjetturinn ekki veittur, þektist aðferðin ekki eftir 5 ár, en sje hann veittur og orðinn eftirsóknarverður að 5 árum liðnum, þá er góðu verki af stað hrundið. Það eru þá ekki stór útlát fyrir landið, er það fær svo að segja fyrir ekki neitt það, sem annar er búinn að gera arðvænlegt, en áður væri ekki til.

Það er yfirleitt ekki aðferðin til að fá rjetta skoðun á málunum, að líta að eins á þau frá einni hlið, og ekki frá sínu sjónarmiði, heldur manna í öðrum löndum. Það getur verið, að þetta sje ekki venja í öðrum löndum, og mönnum þar finnist það ekki eiga vel við, en hvað kemur oss það við? Getum vjer ekki staðið á eigin fótum og sjeð best sjálfir, hvað við á í okkar eigin landi? Það er gott að vitna til annarar þjóðar ef bent er á hættu, er menn hafi brent sig á þar. Slík dæmi geta orðið til varnaðar. En að víkja aldrei frá því, sem aðrar þjóðir telja sig geta, er fásinna ein, og alveg ástæðulaust fyrir þingmenn að byggja sínar till. á þesskonar röksemdum.

Sami hv. þm. (B. Sv.) hjelt því fram, að það yrði talið þroskaleysi að veita slík einkarjettindi sem þessi. En jeg segi, að það verði talið þroskamerki, að þessi litla þjóð líti ekki svo smátt á sig, að hún telji sig þurfa að hnitmiða sínar gerðir við gerðir annara.

Jeg vil benda hv. þm. (B. Sv.) á, að hjer er um alt anað að ræða, svo að það kemur þessu ekki neitt við, sem hann sagði, að Danir eða aðrar þjóðir mundu ekki veita svona leyfi. (B. Sv.: Jeg sagði aðrar þjóðir). Það, sem hv. þm. (B. Sv.) grípur nú fram í, stríðir í móti því, sem hann sagði áður. Aðferð sem þessi lýsir alls ekki þroskaleysi, því að þau einkaleyfi, sem hjer hafa veitt verið, geta á engan hátt verið vottur um slíkt; þau gætu heldur verið vottur um varasemi, af því að í sambandi við þau yrði miklu örðugra að hafa í frammi nokkra fjepretti. En það verður ekki sagt um þetta hjer, því að hjer er ekki um neitt þvílíkt að ræða; hjer er að eins að tala um sómasamlega tilraun í þektri atvinnugrein.

Hvað viðvíkur því, að okkur Íslendingum sje annað hollara nú en að fá orð á sig fyrir þroskaleysi og því um líkt, þá held jeg; að það sje annað, sem við ættum fyrst að forðast, og það er að vera altof orðsjúkir, því að það er ekki vottur um þroskaðar sálir, ef þeir þora ekki að halda rjettar leiðir í málum, af því að þeir halda, að einhverjir úti í löndum kynnu ekki að líta vel á það.

Þá vil jeg víkja þeim orðum að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að mjer finst það heiður eigi alllítill, að hann vill gera mig að vindþurkuðu kjöti. Jeg veit eigi annað en að hjer sje til umr. það eitt, að vjelþurka á Íslandi kjöt, en hvorki aðgerðir mínar nje annara manna. En jeg mun þó eigi gera hv. þm. (B. Sv.) sömu skil, en jeg vil skjóta því til nefndarinnar, hvort henni þyki ekki ástæða til að biðja um, að málið verði tekið út af dagskrá, til þess að laga orðalagið í frv.