03.07.1918
Neðri deild: 62. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (1815)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Frsm. (Einar Árnason):

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hafði margt við þetta frv. að athuga, og skal jeg ekki fara mikið út í athugasemdir hans, þótt mjer þyki þær nokkuð kyndugar sumar hverjar. Honum fanst ósamræmi milli fyrirsagnarinnar og 1. gr. frv. Jeg get nú ekki sjeð, að í raun og veru sje nokkurt ósamræmi þarna á milli, því að það veit hv. þm. (B. K.) eins vel og jeg, að engar vjelar knýjast áfram af sjálfu sjer og að allar þurfa þær eitthvert utan að komandi afl til að geta starfað. Alt kemur því í einn stað niður, hvort sagt er, að þurkunin sje framkvæmd með vjelaafli, eða kjötið sje vjelþurkað. Þessi mótbára hv. þm. (B. K.) er því tómur barnaskapur og einkis virði. Þá sagði hv. þm. (B. K.), að ef þetta einkaleyfi yrði veitt, væri jafnvel hægt að banna mönnum að þurka kjöt handa sjer yfir prímus. (B. K.: Nei, jeg sagði, að hægt væri að kalla það að vjelþurka kjöt, að þurka yfir prímus). Jæja, jeg get þá huggað hv. pm. (B.K.) með því, að honum er óhætt, átölulaust fyrir þessu einkaleyfi, að svíða svo mikið kjöt sem hann vill yfir prímus, og selja ef einhver vill kaupa.

Þá gat hv. þm. (B. K.) þess, að ekki væri ljóst ákveðið um það, frá hvaða tíma ætti að reikna þriggja ára frestinn. — þessi athugasemd kom einnig fram við 2. umr., og sýndi jeg þá fram á, að hún væri á engum rökum bygð. Þykir mjer því einkennilegt, að hún skuli koma fram aftur. Hjer stendur í frv.: „Geti leyfishafi ekki innan 3 ára sýnt.“ o. s. frv. Þessi þriggja ára frestur er auðvitað frá þeim tíma, sem einkaleyfið er veitt. Þetta er því svo greinilegt sem framast má vera. (B. K.: En „á því ári“?). Já, „á því ári“, það er líka skýrt; það er seinasta árið sem hann hefir frestinn.

Þá er athugasemd hv. þm. (B. K.) við 3. gr., um að greitt skuli alt að 10 kr. í landssjóð. Jeg get ekki sjeð, að það ákvæði þurfi að valda neinum vandræðum. Það er sjálfsagt, að stjórnin ákveði upphæðina, um leið og hún veitir einkaleyfið. Hjer er að eins nefnt það hæsta, sem fara má, til þess að koma í veg fyrir, að hægt sje að leggja óhæfilega mikið útflutningsgjald á vöruna, í því skyni að eyðileggja fyrirtækið.

Þá mintist hv. þm. (B. K.) á, að það ætti að setja sektarákvæði í frv. Jeg skildi það svo, að hann vildi, að sett væri einhver trygging fyrir því, að þetta alt saman reyndist eitthvað annað og meira en „humbug“. Það kann vel að vera, að þetta sje rjett, en þá verður líka að gæta þess, að gera ekki frv. þannig úr garði, að það verði algerlega óaðgengilegt.

Við 2. umr. var bent á, að það yrði talsvert mikill kostnaður fyrir þann, sem fengi einkaleyfið, og þá mundi það ekki verða neitt hvetjandi fyrir hann, ef hann ætti fyrst og fremst að bera allan þann skaða, er af fyrirtækinu kynni að leiða, og þar að auki að greiða sektir. Jeg sje því ekki annað en að það væri algerlega frágangssök að setja þess háttar ákvæði; það má þá eins vel fella frv.