30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (1850)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Framsm. minni hl. (Pjetur Þórðarson):

Till. á þgskj. 11 er í raun og veru tilraun til að draga úr gildi laga, sem segja má að tvívegis hafi verið samþ. hjer á þingi. Hv. deild veit, að hjer á jeg við tvenn lög um sölu opinberra jarðeigna. Till. er því í sjálfu sjer óþörf, þó að hún eigi að vera varnagli við einhverjum ímynduðum óhöppum, vegna þess að varúðarreglumar eru í lögunum sjálfum, sem eiga að tryggja það, að illa fari ekki um jarðasöluna. Till. er sömuleiðis óviðeigandi af því, að hjer er verið að gera tilraun til að taka fram fyrir hendurnar á stjórninni í smámunum, sem, eins og hæstv. forsætisráðherra tók fram, er óheppileg braut að ganga inn á. Og svo jeg svari því, sem gripið var fram í fyrir mjer, hvort ekki muni hafa staðið eins á um aðra till. hjer um daginn, þá skal jeg geta þess, að þó jeg væri flæktur við að samþ. hana, þá álít jeg ekki rjett af neinum að binda sig við það, að láta eina syndina bjóða annari heim.

Þetta, sem jeg hefi nú sagt, ætti í rauninni að vera nóg til þess, að þessi till. næði ekki fram að ganga; en það er ekki mín sök, eða minni hl. nefndarinnar, þó að það kosti nokkurn tíma, pappír og prentun um þetta mál, sem verði til þess að auka þingkostnaðinn, og þess vegna ætla jeg svolítið að minnast á ástæður meiri hl. nefndarinnar.

Um fyrstu ástæðuna er það að segja, að mjer finst hún vera harla ófullkomin tilraun til þess að sýna, að salan sje í raun og veru ekki vilji sýslunefndar. En í fyrstu ástæðu minni hl. á þgskj. 33 er sýnt fram á, að álit sýslunefndar á málinu hefir breyst og gengið í þá átt, að heimila söluna. Þessi ástæða er því ljettvæg og virðist falla um sjálfa sig.

Önnur ástæðan sýnist og vera mjög fátækleg og ljettvæg, þar sem ekki er annað gert en að taldir eru upp ýmsir eiginleikar jarðarinnar, sem þó eru ekkert sjerkennilegir fyrir þessa jörð. Sömuleiðis er villandi frásagan um engjarnar, sem fylgja jörðinni, því þær eru í rauninni helmingi minni en upp er gefið í nefndaráliti meiri hl. Þetta má sjá í töflum yfir áveitusvæði það, sem um er getið í nefndarálitinu um Flóaáveituna. Þá vitnar meiri hlutinn í það, að jörðin sje stærsta jörðin í hreppnum að hundraðatali, eða 43,29 hndr. að dýrleika. Þó svo hafi verið eftir nær 60 ára gömlu jarðamati, þá hygg jeg, að hægt sje að sanna, að hún hafi ekki haldið því verðgengi í samanburði við aðrar jarðir í grendinni. Það mundi því áreiðanlega koma fram við nýtt mat, að hún væri ekki nein sjerlega mikil eign, eins og hún er nú, svo að hún geti talist höfuðból í þeim skilningi. Til þess því að geta gert þessa ástæðu að meðmælum með till. sinni hefir meiri hl. orðið að skýra villandi frá.

Að færa það til sem ástæðu, að jörðin muni vera heppileg til smábýlabúskapar, þá er ekki mikið byggjandi á því nú því hv. frsm. meiri hl. (S. S.) er kunnugt um, að smábýlabúskapurinn hefir ekki enn fengið mikinn byr hjer hjá oss og hlýtur að vera mjög fjarri.

Þriðja ástæðan, sem hv. frsm. (S. S.) gerir mikið úr, er sú, að ekki muni rjett að selja jörðina, þar sem hún sje á hinu fyrirhugaða Flóaáveitusvæði úr Hvítá. Jeg vildi, að þær vonir, sem bygðar eru á því, að opinberar eignir á áveitusvæðinu hækki mikið í verði, jeg vildi, segi jeg, að þær mættu rætast. Það þykir ef til vill ekki góður spádómur, að ekki komi alt það fram, sem meiri hl. hefir spáð um þetta fyrirtæki, en reynslan hefir þó orðið sú, að þegar hið opinbera hefir átt að fara að starfrækja eitthvað, þá hafa það ekki verið bestu öflin, sem knúð hafa starfið fram. Hingað til hefir einstaklingseignarrjetturinn og sjálfsábúðin knúð fram meira starf og meiri árangur. Það er ekki hægt að segja um það nú, hver spádómurinn muni rætast, en það gerir þá ekkert til, þó menn sjái það svart á hvítu, hver spádómurinn sje rjettari, þegar tímar líða.

Um fjórðu ástæðuna fórust hv. frsm. (S. S.) nokkuð mörg orð um það, er hann telur aðalatriðið, að jarðir á þessu svæði lendi í höndum braskara. Jeg veit, að þessi till. er fram komin af mjög miklum ótta við þessa hættu, en mjer virðist nú raunar þessi ástæða nærri óframbærileg, því svo mætti með sama rjetti segja um fjölda jarða, hvar sem er á landinu, en það eru þó ekki frambærileg rök í sjerhverju tilfelli. í þessu tilfelli er t. d. bóndinn ungur og áhugasamur maður, sem hefir gert jörðinni mikið til góða. Ef því slíkur ótti sem þessi væri nokkurn tíma frambærilegur sem ástæða fyrir því, að ekki beri að selja opinberar eignir, þá er hann það þó síst hjer.

Mjer þykir það þar að auki nokkuð nærgöngult við einstaklingstilfinninguna að bera slíkar ástæður fram, og álít jeg, að það sæmi alls ekki hv. deild að ganga svo nærri einstaklingunum með ástæðulitlum getsökum.

Auk þess sem jeg sje, að allar ástæður meiri hl. eru mjög ljettvægar, þá er jeg og á sama máli og hæstv. forsætisráðherra um það, að það sje ekki rjett að taka fram fyrir hendurnar á stjórninni í þessu máli. Hún á að ráða því til lykta á hvern veg er henni sýnist.

Jeg er nú búinn að gera grein fyrir, að mjer þótti ver farið að hafa samþ. fyrri till., þ. e. um sölu Ólafsvalla, en þar var þó töluvert öðru máli að gegna um ábúðina o. fl., en jeg get ekkert sjeð, sem mæli í sannleika með að samþ. þessa tillögu.

Annars vil jeg taka það fram, að jeg ætla ekki að fara að hefja langar umræður eða svara aftur, þó mælt verði á móti mínum rökum, því jeg hygg, að háttv. deild sje búin að átta sig á því, hvers virði till. er og hver afdrif hún eigi að hljóta. Leyfi jeg mjer því að koma fram með svo hljóðandi rökstudda dagsrá:

Í því trausti, að stjórnin ráði þessu máli til lykta á viðeigandi hátt, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.