30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (1852)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Einar Jónsson:

Eins og þgskj. 33 ber með sjer, er jeg í minni hl. í nefndinni, ásamt hv. frsm. minni hl. (P. Þ.). Jeg þarf sannarlega ekki að bæta miklu við það, sem sagt hefir verið, en þó vildi jeg gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. frsm. meiri hl. (S. S.).

Ræða hans var óvenjulega formleg í þetta skiftið, enda hafði hann hana líka skrifaða orðrjetta fyrir sjer. Í þessari formlegu ræðu sinni segir hann, að ástæður okkar minni hl. mannanna sjeu vitleysa. (S. S.: Sagði það aldrei). Jeg hefi það skrifað hjer orðrjett eftir honum. (S. S.: Stendur skrifað hjer það, sem jeg sagði). En eins og komið hefir fram í umr., þá ætti þetta betur við álit meiri hl., því eins og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók fram, þá er önnur hver röksemd, að jeg ekki segi vitleysa, þá þó að minsta kosti geggjuð.

Þegar t. d. er minst á niðurstöðu sýslunefndarinnar, í áliti meiri hl., þá er mjög hlutdrægnislega skýrt frá. í nefndarál. er sem sje að eins minst á niðurstöðu sýslunefndar árið 1917, þar sem synjað var sölunnar með að eins eins atkvæðis mun, en það gengur algerlega fram hjá því, að nú fyrir skömmu samþykti sama sýslunefndin söluna, með 12 atkv. gegn 1. Og þetta er ekki í eina skiftið, sem sýslunefndin hefir samþykt söluna, því árið 1910 komst hún að sömu niðurstöðu.

Af þessu lítur út fyrir, að hv. meiri hl. sje hjer að hafa í frammi vísvitandi blekkingar, því það er með öllu rangt að vitna að eins í eina niðurstöðu sýslunefndar, þegar margar fleiri liggja fyrir.

Í öðrum liðnum er líka villandi skýrt frá; það er að vísu rjett, að eftir jarðamati er Gaulverjabær með Garðhúsum 43,29 hndr., en hitt er með öllu rangt, að öll torfan sje að eins 57,6 hndr. Þetta hefir verið upplýst svo nákvæmlega af hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að ekki gerist þörf á því nákvæmara.

Annars finst mjer þetta koma lítið málinu við, þar sem margar jarðirnar, sem tilheyra torfunni, eru í sjálfsábúð. Það hefði eins vel mátt reikna það út í nefndarálitinu, hversu margir þumlungar hv. 1. þm. Árn. (S. S.) er á hæð, og sje jeg þó ekki, hvað slíkt hefði upplýst málið.

Þá er það eitt atriði, sem hv. meiri hl. hefir tekið framífrv. sínu, og það er, að áveituland torfunnar sje um 400 —500 ha. alls. Hjer lítur ekki út fyrir annað en að hv. meiri hl. nefndarinnar sje að hafa í frammi blekkingar við menn, sem ekki þekkja nákvæmlega alla málavexti, því það er alkunna, að Gaulverjabær og Garðhús fá ekki nema nokkurn hátt — nálægt helmingi — af þessu áveitulandi. Hvort þetta er borið fram vísvitandi, eða það er af fáfræði, skal ekki sagt, en hvort heldur sem væri, þá er það með öllu óafsakanlegt.

Auk þess getur nefndarálit meiri hl. þess, að jörðin eigi reka í tak, en þetta er nokkuð í lausu lofti, því ómögulegt er að reikna, hversu mikil þægindi eru af slíku.

Þriðja og fjórða liðnum hjá meiri hl. þarf ekki að svara að þessu sinni, því þeim hefir báðum verið svarað í nefndaráliti minni hl.

Annars skal jeg láta þess getið hjer, þar eð mjer er ábúandinn kunnur, að hann er líklegur til að verða í fremri bænda röð, að því er jarðabætur snertir.

Jörðin var honum leigð með þeim skilmála, að hann ynni 100 dagsverk að jarðabótum á ári, en í þau 2 ár, sem hann hefir búið, hefir hann unnið 640 dagsverk. Auk þess hefir hann fullyrt það í tali við mig, að hann hafi tök á að ljúka 1.000 dagsverkum í vor. þetta hefir hann auðvitað gert með það fyrir augum, að fá jörðina keypta.

Hvað því viðvíkur, að ekki sje rjett að rífa Gaulverjabæ út úr því kerfi um þjóðjarðir, sem þegar er til, þá hefir minni hl. aldrei farið fram á það. Við höfum að eins farið fram á, að málinu sje vísað til stjórnarinnar, og er ekki með því sagt, að jörðin verði nokkurn tíma seld. Við förum hjer milliveg, og er það sanngjarnasta leiðin, sem hægt er að fara.

Sú viðbáran, að ekki megi selja Gaulverjabæ vegna þess, að komið geti til mála að setja þar skóla á stofn, er fallin af því, að nýlega hefir sölu Ólafsvalla verið synjað af þessari ástæðu, og getur hún því alls ekki átt hjer við.

Annars er framkoma frsm. meiri hl. (S. S.) honum til lítils heiðurs, því þó hann vilji vera samkvæmur sjálfum sjer og móti sölu þjóðjarða, þá má hann þó ekki fara svo langt, að vilja skerða þann rjett einstakra manna, sem þeir hafa með rjettu.