30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (1855)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Einar Jónsson:

Það þarf ekki frá þeirri skoðun að skýra, að það er ekki altaf sjálfsagt, að þessi hv. deild taki mest mark á því, sem einhver hæstv. ráðherra segir, hvort sem hann er hæstv. forsætisráðherra eða ekki. En þar álít jeg að taka beri fult tillit til orða stjórnarinnar, er ræða er um mál, sem til hennar er vísað. En hæstv. forsætisráðherra tók það fram, að rangt væri að taka þessa einu jörð út úr öðrum þjóðjörðum. Og nú er jeg að halda því fram, að þessi jörð eigi að hafa sama rjett og aðrar þjóðjarðir. En ef á að tryggja það, að þessi jörð verði ekki seld, því þá ekki að samþykkja lög um, að engar þjóðjarðir skuli seldar? Jeg vil vísa máli þessu til stjórnarinnar, en þar með er alls ekki sagt, að jeg telji það víst, að stjórnin selji hana.

En jeg vildi lauslega minnast á ræðu hv. frsm. meiri hl. (S. S.). Hún átti víst að vera áhrifamikil, en var ekki síður í lausu lofti en framsöguræðan, en öllu lausalopalegar samin og sögð, sem von var, þar sem hún var ekki skrifuð.

Eitt af því, sem hv. frsm. meiri hl. (S. S.) hjelt fram, var að jörðin hefði áður verið prestssetur, og því ætti ekki að selja hana, að skeð gæti, að hún yrði aftur prestssetur. En jeg vil minna hann á, að það er ekki „móðins“ núna að fjölga prestum, heldur fækka þeim, og er því þessi röksemd ekki neitt bráðknýjandi, — miklu fremur hlægileg.

Sami hv. þm. (S. S.) virðist vilja færa mjer það til ámælis, að jeg hefði vakið máls á þessu máli á Heimastjórnarflokksfundi. Þetta er rjett frá skýrt hjá hv. frsm. meiri hl. (S. S.), enda þótt hann sjálfur svikist um að mæta á þeim fundi, en hins vegar held jeg því fram, að hann varði ekkert um, hverju jeg vek máls á. Það er á minni ábyrgð, en ekki hans, og bið jeg hann ekkert gott fyrir. Jeg skal minna hann á, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er búinn að sýna fram á skekkju í nefndaráliti hans, og hann er sjálfur búinn að ganga inn á, að þar hafi verið skekkja. Það bætir ekki fyrir honum að hafa skrifað nál., sem hann verður að viðurkenna fyrir öllum þingheimi að hafi verið gert af hljedrægni eða vitleysu.

Væri það rjett hjá hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að jörð þessi sje höfuðból, þá er það því rjettmætari krafa, að hún sje ekki slitin út úr sambandi við aðrar þjóðjarðir og gert lægra undir höfði en þeim. En jeg vil minna á það, að jörðin getur því að eins verið höfuðból, að hún sje vel setin, og bætt meir en búið er. Hún var í fullkominni niðurníðslu fyrir tveim árum, þegar Skúli Thorarensen kom að henni. Henni hefir mikið farið fram síðan, og hún getur orðið góð jörð með nægilegri áveitu og túnasljettum. Nú hefir ábúandinn, sem hefir bætt jörðina, og mun bæta hana meir, löngun til að fá hana keypta. Því þá ekki að selja honum, ef öðrum er selt? Auðvitað sjálfsagt að synja honum, ef öðrum er synjað.

Jeg man ekki, hvort það var hjer í deildarsalnum eða á nefndarfundi, að því var haldið fram, að það ætti afskaplega illa við að leyfa sölu landssjóðsjarða á áveitusvæðinu, vegna þess hve miklu landssjóður kostaði þar til. Þetta mun nú að mörgu leyti rjett hugsað, en má þó mótmæla. Ef menn gætu ekki fengið keyptar ábúðarjarðir sínar á áveitusvæðinu vegna áveitunnar, en í öðrum landshlutum fengju menn þær keyptar með góðum kjörum, þá væri það sá rjettindamissir fyrir menn á áveitusvæðinu, að jeg býst við, að meiri hluti hjeraðsbúa vildi ekki taka við einum eyri frá landssjóði til styrktar fyrirtækinu, ef það hefði slíkan rjettindamissi í för með sjer.

Annað atriði vildi jeg og taka fram í þessu sambandi. Landssjóður á ýmsar jarðir úti um land, sem hafa miklar innnytjar, sem landssjóður hefir ekki skapað þeim, heldur náttúran. Mjer virðist það nú horfa undarlega við, ef þeir, sem vilja kaupa þessar kostajarðir, fá þær, en menn á áveitusvæðinu geta ekki fengið þær jarðir keyptar, sem landssjóður á þar og tekið hafa miklum framförum fyrir áveituna.

Jeg frábið mjer allar aðdróttanir um mágaframdrátt, en legg alt kapp á, að ungur og duglegur ábúandi verði ekki fyrir misrjetti, hvort sem hann heitir þetta eða hitt. Jeg vil berjast á móti því, að ein jörð sje gerð að undantekningu undan almennri reglu.

En ef hv. 1. þm. Árn. (S. S.) vill, get jeg skýrt frá því, hvernig hann kom fram í nefndinni. Það var honum ekki til sóma, því að hann sveik oss þar. (S. S.:Þpingmaðurinn er að fara með ósannindi! Engin „persónulegheit“!). Það var samþykt í landbúnaðarnefnd að neita sölu Ólafsvalla vegna þess, að öllum var kunnugt, að kaupbeiðandi var maður, sem sjálfur notaði ekki jörðina og gat ekki notað hana. Þá sagðist hv. frsm. meiri hl. (S. S.) vera fús til þess að samþykkja, að Gaulverjabæjarmálinu væri vísað til stjórnarinnar, ef till. sín um Ólafsvelli yrði samþykt. En nú hefir hann snúið við blaðinu. (S. S.: Ósatt). Jeg get ekki talað við mann, sem ekki fæst til að viðurkenna sannleikann, þótt ósannindi hans hafi verið margrekin ofan í hann.