30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (1856)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætlaði ekki að standa upp að þessu sinni, en hætti á að gera það, þar sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir gert mjer svo hátt undir höfði, að taka til meðferðar það, sem jeg sagði á síðasta þingi og byggja á því. Hann byrjaði mál sitt með því að taka það fram, sem sína skoðun, að landssjóður tapaði á allri jarðasölu, og bygði það síðan á orðum mínum.

Það er nú stutt síðan hjer var til meðferðar í deildinni mál um sölu einnar slíkrar jarðar, Ólafsvalla. Í skjölum þess máls kom það fram meðal annars, að eitt höfuðból landsins, Arnarbæli, væri svo setið, að þar væri engin lausafjártíund, að eins kúgildi á ca. 80 hundraða jörð. Þetta láðist honum að taka fram, er hann talaði um ábúð landssjóðsjarða. Jeg skýt þessu fram, honum til athugunar, er hann fer að hugsa málið betur.

En þegar hann er að tala um, að landssjóður tapi altaf á jarðasölunni, þá slítur hann út úr rjettu samhengi það, sem jeg sagði á síðasta þingi. Það er rjett, að jeg gat þess á síðasta þingi, að það væri kostur við þetta jarðasölufyrirkomulag, hve tiltölulega hægt og auðvelt væri að kaupa jarðirnar. En hinn hv. þm. (J. B.) hefir ekki tekið það með í reikninginn, að jeg tók það fram í þessu sambandi, að óbeinlínis myndi við söluna þjóðareignin vaxa og þjóðin óbeint græða á sölunni. Það er eitt ákveðið þjóðareinkenni Íslendinga, á hvaða sviði sem er, að þeir vilja ekki vera öðrum háðir. Það atriði hefir komið mjög til greina í stjórnmálabaráttu vorri út á við, en sannarlega hefir það atriði ekki verið tekið nógu rækilega til athugunar inn á við. Jeg held, að það sje einnig fyrsta og sjálfstæðasta einkenni hvers manns, að hann lætur sjer mest um það hugað, sem hann á sjálfur full ráð yfir. Og það sýndi jeg líka á síðasta þingi, að jarðir í einstakra manna eign taka miklum umbótum og gerbreytast við það að komast úr eign hins opinbera í einstakra manna hendur. Það er af því, að menn fara alt öðruvísi að, er þeir fá sjálfir eignarjett á ábúðarjörð sinni. Þess vegna er það ekki nema hálfsögð saga, þótt sýnt sje með tölum, að landssjóður tapi svo og svo miklu fje á sölu jarðar. En jeg vildi biðja hann að svara mjer einni spurningu, og hafa í huga svo sem 100 dæmi svipuð því um ábúð Arnarbælis: Hvað græðir landið alt á því, ef röskur bóndi fær hverja jörð til kaups og gerir henni svo mikil skil, að hún eftir nokkur ár er 10 sinnum meira virði? Slíkir menn eru vitanlega fyrirmyndir sinnar sveitar. Og því verður ekki neitað, að margir þeirra, sem keypt hafa af landinu jarðir, sakir jarðabótaáhuga, og hafa síðan lagt alla alúð við jörðina sem sína eign, hafa orðið fyrirmyndir í sinni sveit, hafa lyft sinni jörð og jafnvel sveitinni allri um leið. Og hann mun ekki geta neitað því, að slíkar fyrirmyndir gera svo óútreiknanlega mikið gagn, að allar tölur, sem sýndar eru til sönnunar fyrir tapi landssjóðs, eru í samanburði við það hjegóminn einber, fyrir landi og þjóð. Jeg veit ekki, hvaða dæmi jeg ætti að taka til að gera honum þetta skiljanlegt. Væri t. d. spurt, hve miklu landið hefði tapað, ef hv. l. þm. Reykv. (J.B.) hefði ekki komist inn á þing, þá væri í sjálfu sjer jafnauðvelt að svara því og hinu, hve mikið landssjóður tapaði á því, að einhver þjóðjörð væri ekki seld ábúanda til sjálfsábúðar. Þetta er hliðstætt dæmi. En hvort sannfæring mín er eins í hvoru tveggja atriðinu — það er annað mál.

Það er ýmislegt í sambandi við þetta mál, sem telja mætti fram til raka fyrir sjálfsábúð. Athugum t. d. Ameríkuferðirnar hjer á árunum. Ef á þeim tíma hefðu verið fleiri jarðir í sjálfsábúð, hefði ekki hlaupið svo mikil skriða. Það er sjálfsábúðin, sem hefir gert menn ánægðari í landinu, aukið þeim hvöt til að vinna og gert landið meira virði.

Þessar tölur hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) voru annars svo strembnar, að jeg skrifaði þær ekki upp, enda koma þær ekkert í bága við mína skoðun. Hann gaf það í skyn, að hann hefði getað búist við, að jeg breytti því, sem jeg hafði sagt, en því þarf hann ekki að búast við, því að slíkt er ekki vani minn. þetta er auk þess sannfæring mín. Það getur vel verið, að sýna megi með tölum, þegar tímar líða fram, að landssjóður tapi svo og svo miklu á jarðasölunni, en þá vantar jafnframt að ákveða framfarir þær, sem leitt hafa af þessari ráðstöfun, endurbætur þær, er fram hafa farið á jörðunum.

Hjer hefir mikið verið um það rætt, hvílíkum framförum Suðurlandsundirlendið muni taka við áveituna. Það má vel vera, að svo verði. En gæti það ekki orðið til skaða? Setjum svo, að gæði landsins verði þar mikil. Þar verður betra að vera en annarsstaðar. Og ef svo verður farið að skifta þar sundur jörðum, þá er jeg hræddur um, að losna taki um ábúendur á landssjóðsjörðum í útkjálkasveitum þessa lands. En það tel jeg vist og sjálfsagt, að hagkvæmast sje fyrir okkur, að ábúð geti verið alstaðar og sem tryggust. En tryggust er hún þar, sem sjálfsábúð er, þar sem hún er í höndum landsmanna sjálfra.

Þetta er og hefir verið skoðun mín, og hún getur ekki breyst og hefir ekki breyst við tölur hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), þótt hann geri mjer svo hátt undir höfði, að byggja útreikninga sína á orðum mínum.

En því næst er það annað atriði í þessu máli, að jeg vil ekki láta taka fram fyrir hendur stjórnarinnar. Jeg veit, að hún sýnir í þessu máli fulla alúð og varkárni, og þess vegna bar jeg fram í Ólafsvallamálinu dagskrártill. um að vísa því máli til stjórnarinnar. Jeg tel það ekki eðlilegt að fara inn á þá braut, að samþykkja með þingsályktun undanþágur frá gildandi lögum, því að sú braut getur orðið hál. Stjórnin gefur að sjálfsögðu nákvæmar gætur að öllum sjerstökum aðstæðum, svo sem því, hver á jörðinni býr, og hvort hún geti tekið nokkrum sjerstökum umbótum. T. d. getur það komið til álita um þessa jörð, hvort áhættulaust muni að virða hana fyr en sjeð er, hverjum bótum hún getur tekið.

Af þessum ástæðum er jeg því eindregið fylgjandi að vísa málinu til stjórnarinnar. Mun jeg því greiða atkv. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem hjer er fram komin frá hv. þm. Mýra (P. Þ.), en móti þingsályktunartill., sem hjer liggur fyrir.