30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (1868)

26. mál, úthlutun matvöru- og sykurseðla

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Af því að jeg býst við, að till. hv. þm. Stranda. (M. P.) fái góðar undirtektir í deildinni, þá get jeg verið fáorður um málið. Jeg býst sem sje við, að nefndin tali við þá menn, sem aðallega hafa vörusendingar stjórnarinnar með höndum, og á jeg með þessu viðforstjóra landsverslunarinnar, og þá mun margt það skýrast, sem að svo komnu máli kann að vera sumum hv. þm. óljóst.

Um það verður ekki sagt, hversu mikill vöruforði landsins verður í sumar, því það er ómögulegt að vita um það með vissu. En jeg tel sjálfsagt, að ef vöruforðinn verður ekki minni en síðastliðið sumar, þá verði öll áhersla lögð á það, að síðari liður þessarar till. verði tekinn til greina eftir föngum.

Fyrri liðurinn finst mjer ekki hafa eins mikla þýðingu og síðari liðurinn. Það verður alt að fara eftir þeim ástæðum, sem fyrir höndum verða, en nú er, eins og áður er um getið, með öllu óvíst hver vöruforðinn verður.

Það finst mjer ekki skifta svo miklu máli, þótt reglugerðin ákveði, að vörum skuli úthlutað til 4 mánaða, því jeg býst við, að því verði hagað eftir hentugleikum og ástæðum, og jeg treysti því, að ef nægur vöruforði verður fyrir höndum, þá verði úthlutunin látin ná yfir lengri tíma en reglugerðin ákveður, ef nauðsyn þykir til bera.

Það hafa komið fyrirspurnir til forstj. landsverslunarinnar um þetta efni og mjer er kunnugt um, að forstöðumennirnir munu liðka þetta til eftir föngum. Það eru margir staðir, sem þyrfti að birgja upp til 6 eða 9 mánaða, en þó er það einkum Norðurland, Fljótsdalshjerað og suðausturhluti Suðurlandsins.

Annars vil jeg ráða hv. deild til að samþykkja till. hv. þm. Stranda. (M. P.), því það er ekki heppilegt að kasta svona málum inn í deildina má ske undirbúningslaust, án þess að leita álits þeirra manna, sem um málið hafa lengi hugsað og haft það til framkvæmda eigi svo lítinn tíma.