30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (1869)

26. mál, úthlutun matvöru- og sykurseðla

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla mjer að eins að segja örfá orð.

Jeg mundi telja það æskilegt, að svo mikill forði væri til í landinu, að stjórnin sæi sjer fært, að úthluta sveitamönnum til missiris eða lengur af honum.

Jeg hef fengið brjef víðsvegar af landinu, og meðal annars af Fljótsdalshjeraði, þar sem kvartað hefir verið um, að vörunum væri úthlutað til of skamms tíma.

Jeg hygg, að stjórnin sje fús á að taka slíkar kvartanir sem þessar til greina, en hitt gerir enginn kröfu til, að hún útbýti vöru, sem ekki er til, eða taki frá einum til þess eins að birgja annan.

Jeg hefi ekkert á móti því að vísa málinu til bjargráðanefndar.