06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (1871)

26. mál, úthlutun matvöru- og sykurseðla

Frsm. (Pjetur Jónsson):

Jeg vona, að þótt þetta nál. á þgskj. 50 sje stutt, þá sje það nógu ljóst til þess, að jeg þurfi litlu við það að bæta.

Það er auðvitað mál, að vjer nefndarmenn gátum ekki tekið þetta mál öðruvísi en að tala fyrst við stjórn landsverslunarinnar. Töluðum vjer við hana um þessar tilhliðranir í seðlakerfinu, sem till. fer fram á, og er skýrt frá undirtektum hennar í nefndarálitinu. Álítum vjer því svo, sem tekið er fram í nál., að tillöguna þurfi ekki að samþykkja, því að tekið muni fult tillit til efnis hennar, eftir því sem ástæður leyfa.

Það liggur í augum uppi, að ekki er hægt að viðhafa miklar fullyrðingar um það, hve mikinn vöruforða landið fær, og er því ekki unt að kveða ákveðnar að en gert er í nál. Landsverslunarstjórnin kvaðst einlægt hafa gert ráð fyrir því, að gera þyrfti einhverjar tilslakanir á seðlaúthlutuninni og gefa undanþágu í einstökum tilfellum. Slíkt kerfi getur eðlilega ekki verið sanngjarnt undir öllum kringumstæðum. Menn standa ekki svo jafnt að vígi um þörf á vörunum, eða skilyrðin til að ná í þær vörur, er seðlaúthlutunin nær til, og verður því að taka tillit til þess í öllum greinum. Forstjórar landsversl. hafa haft þetta fyrir augum frá öndverðu, og taka því eins mikið tillit til þess eins og þeir telja hægt.