14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg ætla mjer að fara mjög fljótt yfir sögu, enda get jeg að mestu leyti vísað til þess, sem jeg sagði í gær, og sje ekki ástæðu til að taka það upp aftur nú.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði fyrstur í dag. Við ræðu hans hefi jeg ekki mikið að athuga, get að mestu leyti þakkað góðar undirtektir, því að hann hallaðist í öllum aðalatriðum að frv. stjórnarinnar. Eina brtt. ber hann fram, en að henni ætla jeg að víkja síðar í ræðu minni.

Háttv. frsm. meiri hl. (P. J.) hneykslaðist aftur á því í dag, sem jeg sagði í ræðu minni í gær, að sú lánsupphæð, sem veita mætti samkvæmt till. meiri hl. væri 1.800.000. Þetta getur ekki stafað af öðru en misskilningi hjá háttv. frsm. (P. J.). Það stendur skýrt og ótvírætt í brtt. meiri hl , að lánin megi nema alt að 20 kr. á mann. Og 20X90.000=1.800.000. Það gæti farið svo, að öll hjeruð á landinu yrðu að leita hjálpar. Það er ekki sama sem að hver maður þurfi hjálpar. En þeir geta orðið svo margir í hverjum hreppi, sem hjálpar þurfa, að allar lánsheimildirnar yrði að nota. Það er það sama, sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrv., að öll sveitarfjelög taki hjálpinni.

Háttv. flsm. (P. J.) vill leggja áherslu á það, að hjálpin verði meiri eftir till. meiri hl. en eftir stjórnarfrv. En við það er það að athuga, að þessar brtt. eru, ef jeg má svo að orði kveða, í öðru „plani“. Háttv. meiri hl. setur svo ströng skilyrði fyrir lánveitingunum, að það er mín von og trú, að óvíða verði ástandið svo hörmulegt, sem þar er gert ráð fyrir, svo að ef fullnægja á þeim skilyrðum bókstaflega, þá vona jeg, að lánin yrðu mjög óvíða veitt. Það er eins og jeg sagði, þeirra till. eru í öðru „plani“. Þeir vilja ekki láta hjálpa fyr en út í það allra versta er komið. Annarsstaðar eru dýrtíðarráðstafanirnar miðaðar við það, að koma í veg fyrir, að þjóðin lendi nokkurn tímann í þessu „plani“ — að koma í veg fyrir, að nokkursstaðar lendi í slíku harðæri. í stjórnarfrv. er talað um neyð. En þar er ekki átt við, að neyðin þurfi að verða svona stór.

Þegar ástandið er orðið svona hart, sem háttv. meiri hl, setur sem skilyrði fyrir lánveitingunni, þá verða menn að viðurkenna, að sjerhver stjórn hlyti að hjálpa, þó að ekkert lagaákvæði væri til fyrir því. Jeg held því, að þegar á lánsheimildina er litið, með þeim skilyrðum, sem fyrir lánveitingu eru sett, þá hljóti flestir að verða sammála um það, að það er ekki það, sem við á á þessu stigi.

Háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) benti á það, að hjálpin, sem stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, væri lítil, væri eins og dropi í hafinu. En mikið er nú samt talað um dropa, sem ekki eru stærri en 5 kr. á mann. Dýrtíðaratvinnu landssjóðs í vetur hafa margir úthrópað. Ýmsir eru óánægðir með hana og kenna um ráðleysi stjórnarinnar. Og þó var tapið á allri atvinnunni, bæði við grjótvinnuna í Öskjuhlíð og Hafnarfjarðarveginn, ekki meira en ca. 70.000, en hjálp sú, sem Reykjavík einni er heimilað í þessu frv., nemur hærri upphæð. En það er nú kallað smáhjálp, sem margir hafa verið að fárast um, hve mikil væri undanfarið. Jeg held, að það sje hollara að hjálpa sveitarfjelögunum til að komast sjálfkrafa út úr vandræðunum heldur en að steypa þeim í skuldir. Mönnum ætti að vera það kunnugt, hvernig róið er í sveitarstjórnirnar að ná í lán, þegar menn vita, að hægt er að fá þau. Jeg er ekki í neinum vafa um, að það er hollara fyrir þjóðina, að reynt sje að fyrirbyggja vandræðin meðan unt er, heldur en að teyma hana út á þessa hálu lánabraut.

Þá ætla jeg að fara örfáum orðum um eftirlitið. Jeg held, að það verði að eins til að auka kostnað, án þess að það gefi nokkrar ábyggilegar upplýsingar.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) benti á það, að erfitt mundi fyrir 2 menn að komast að því, hvernig ástatt er högum manna í stóru hreppsfjelagi. Í vetur gerði jeg mjög mikið til þess að fá að vita um hagi manna hjer í bænum. Það kostaði mig afarmikla fyrirhöfn. Jeg er því sannfœrður um það, að ef utanbæjarmenn ættu að fara að rannsaka, hvort ástæða vœri til að hjálpa, þá mættu Reykvíkingar lengi bíða eftir hjálpinni. Jeg efast ekki um það, að till. meiri hl. eru fram bornar af góðum vilja, en þá ekki af nógum skilningi eða þekkingu á því, sem við á.

Jeg gat þess í gær, og það hneykslaði hv. frsm. meiri hl. (P. J.) aftur í dag, að lánskjörin kynnu að freista sveitarfjelaganna til þess að sækjast eftir lánum þessum. Það er ómögulegt að neita því, að lánskjörin eru mjög aðgengileg, þar sem lánin eru vaxtalaus fyrsta árið, og það mundi freista margra til þess að reyna að fá slík lán.

Háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) sagði, að þetta fje, sem gert er ráð fyrir að veita í frv. stjórnarinnar, væri málamynda handaþvottur.

Jeg hefi þegar áður skýrt frá því, hve mikið gagn 5 kr. styrkur hefði gert síðastliðið ár, og held því, að þessi mótbára sje þegar lögð að velli. En hjer er enn meira veitt en 5 kr. á mann. Þessar 5 kr. eru því að eins af hendi látnar, að sveitarfjelögin hafi látið fyrst af hendi 10 kr., er þau geta ekki aftur krafist. Það er einmitt „princip“ið í stjórnarfrv. að ýta undir sveitarfjelögin að gera sem mest, og prófsteinninn fyrir landssjóðshjálpinni er, að þau hafi áður lagt að sjer með framlögum og þannig sýnt þörfina.

Það hefir verið fært fram móti stjórnarfrv., að erfitt mundi að gera upp á milli, hver útgjöld væru almenn og hver sem afleiðing af dýrtíðinni. Jeg held, að það hafi verið háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem vakti máls á því. Það verður sjálfsagt örðugt að fyrirbyggja, að þessu verði á engan hátt ruglað saman. Ef einhver bæri fram brtt. í þá átt, að gera skýrar línur í þessu efni, mundi stjórnin þakklát fyrir það. Sveitarstjórnir leggja fram 15 kr. á mann. Ef stjórnin fær nú reikning yfir það, sem sveitarstjórnir hafa keypt inn og eins yfir útgjöld þeirra, þá skil jeg ekki annað en að hún geti gert sjer nokkum veginn grein fyrir því, hve mikið fje hefir farið til venjulegra útgjalda og hvað til sjerstakra útgjalda vegna dýrtíðarinnar. Það er stjórnarráðsins að skera úr, og má gera ráð fyrir því, að stjórnin geri gangskör að því að láta ekki sveitarstjórnir fá styrk, nema sannað sje, að þær hafi varið sínum hluta, 10 krónum, til dýrtíðarhjálpar.

Það var eitt atriði, sem jeg mun ekki hafa minst á í gær. Stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, að þessi dýrtíðarstyrkur sje ekki veittur þeim mönnum, er þiggja af sveit. Það er gert ráð fyrir, að þessi styrkur sje til þess að varna því, að menn fari á sveitina, en svo sje það sveitarfjelagsins sjálfs að sjá fyrir þurfalingum sínum. Með þessu frv. er því ekki verið að ljetta af sveitarstjórnum sjálfsagðri byrði, heldur hefir frv. það markmiðaðkoma í veg fyrir það, að menn þurfi dýrtíðar vegna að fara á sveitina. Það ljettir ekki af sveitarfjelögunum þeirri skyldu, að sjá fyrir þurfalingum, og ná því sveitarstjórnarlögin í engu til þessa styrks.

Að því er snertir þær brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), sem fara í þá átt, að áhrif sveilarstjórnarlaganna sjeu upphafin, þannig, að enginn styrkur, hvorki þessi nje annar, sje skoðaður sem sveitarstyrkur, þar til þremur mánuðum eftir ófriðarlok, þá veit jeg ekki, hvort rjett er að setja það inn í þetta frv. Að líkindum væri rjettara að setja það inn annarsstaðar, ef hæstv. Alþingi gæti fallist á það, en um það má deila. En hjer virðist það tæpast eiga við.

Það hefir verið tekið fram áður, og vil jeg enn leggja áherslu á það, að ef um ítrustu neyð er að ræða, þá er það lítil hjálp, sem þetta frv. hefir að bjóða, og jeg held, að 20 kr. á mann hefðu þá lítið að segja. Satt að segja get jeg ekki sjeð, að það sje rjett hjá háttv. 1. þm. G. K. (B. K.), að 200 kr. gætu verið veruleg hjálp handa stóru heimili, ef í þann harðbakka væri komið.

En út af því, sem sami háttv. þm. (B. K.) sagði um bankana, þá vil jeg taka það fram, að eins og sakir standa nú, er alveg óhætt fyrir bankana að veita sveitarstjórnum lán. Og það var áreiðanlega engin ástæða til þess fyrir bankana að neita Reykjavík um 100 þús. króna lán, svo að landssjóður varð að gerast banki fyrir hana.

Sami háttv. þm. (B. K.) gat þess, að fyrir bjargráðanefnd hefði legið glögg skýrsla um fjárhag landsins. Jeg hefi ekki sjeð þá skýrslu, og get því ekkert um hana sagt, en sú skýrsla, sem jeg gaf í þingbyrjun, var svo glögg, að enginn vandi var að átta sig á henni fyrir hvern meðalskynsaman mann.

Það virðist nú ekki hafa mikla þýðingu að auka umr. um þetta mál meir en orðið er. En er jeg lít yfirleitt á brtt. meiri hlutans frá sjónarmiði landssjóðs, er jeg í engum vafa um, að það er mjög svo óheppilegt að halda áfram á þessari lánaleið. Hitt er miklu hyggilegra, að fara þá leið sem aðrar þjóðir, að veita eftir efnum og ástæðum styrk, sem ekki er afturkræfur. Það er miklu betra fyrir landssjóð að vita í byrjun, hvar hann stendur, en að veita lán, sem hann svo að líkindum verður að gefa upp.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) mintist á samanköllun þingsins. Vil jeg vísa til þess, sem áður hefir verið um það sagt af mjer og hæstv. forsætisráðherra, og sje ég ekki ástæðu til þess að halda uppi miklum umræðum um það atriði.

Enn einu sinni leyfi jeg mjer að vænta þess, að hv. deild samþykki ekki till. minni hl., og í gær benti jeg á þær till. meiri hl., er stjórnin gat ekki fallist á.

En jeg á eftir að minnast á brtt. þeirra hv. 1. þm. Árn. (S. S.) og hv. þm. V.- Sk. (G. Sv.).

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) vildi sjerstaklega beina atvinnu landsins að áveitum, og þá sjerstaklega auðvitað að Flóaáveitunni. Vildi hann, að landsjóðsvinnan færi þar fram. Ef þessi áveita væri nálægt Reykjavík og ljett að koma fólki þangað, væri ekkert um till. að segja nema gott. En af því að hún liggur svo langt frá Reykjavík, þá virðist ekki ástæða til þess að beina þessari atvinnu inn á þessa braut. (S. S.: Ekki er Tjörnesnáman skemra frá Reykjavík). Hún er ekki rekin með það fyrir augum að veita atvinnu, heldur til þess að útvega kol til eldsneytis. (S. S.: Og líka til þess að veita atvinnu). Ekki sjerstaklega. Þessi hjeruð eru fjarliggjandi Reykjavík, liggja til sveita og þurfa því síður en Reykjavík á atvinnu að halda, nema ef vera skyldi Stokkseyri og Eyrarbakki. En þetta fyrirtæki er svo stórt, að naumast er gerlegt að leggja þessa atvinnu í það.

Um heyskapinn skal það mælt, að um það leyti, sem hægt er að vinna að honum, hafa flestir menn atvinnu. Get jeg því ekki annað en verið á móti þessari till.

En um till. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), á þgskj. 124, hefi jeg ekki annað eða meira að segja en jeg sagði í gær, er jeg talaði um vinnuna, að heppilegast mundi vera að halda atvinnunni sem næst í þeirri mynd, sem nú er hún í. Jeg ímynda mjer, að það verði eins athugavert fyrir landssjóð að kaupa afurðir dýrtíðarvinnu af sveitar- og bæjarfjelögum og að láta vinna sjálfur. Hitt er annað mál, að það er auðvitað best að haga landssjóðsvinnunni þannig, að hún gefi sem bestan arð. Sje því bægt að finna einhverja arðsama vinnu, sem miðar að aukinni framleiðslu, eins og t. d. kartöflurækt, þá tel jeg sjálfsagt, að slík atvinna sje látin sitja fyrir.