23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (1902)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Þorleifur Jónsson:

Um mál þetta hafa orðið miklar umr. undanfarna daga, sem að vísu er von. Það er eðlilegt, að námureksturinn á Tjörnesi veki umtal manna og athugun, ekki að eins hjer á þingi, heldur og einnig úti um land. Þingið hefir nú undanfarna daga verið að athuga gerðir stjórnarinnar í málinu, og hefir hv. frsm. (G. Sv.) nokkuð vítt þær. En nú munu landsmenn taka til að athuga gerðir þingsins í málinu, því að kalla má, að það sje hjeðan af að miklu á þess ábyrgð, hvernig framhaldið verður. Við, sem ekki höfum verið í fjárhagsnefnd, höfum að vísa ekki neitt að styðja álit okkar við, annað en skýrslu þá, er prentuð er á þgskj. 111, og svo það, sem komið hefir fram í umr. Og eftir öllu, sem fram hefir komið, virðist það nú ómótmælanlegt, að tapið við námureksturinn hafi orðið slíkt, sem skýrt er frá, eða rúmlega 100 þús. kr. Mjer virðist stjórnin ekki hafa neitað því.

Hitt, sem hæstv. forsætisráðherra vjek að, að á þetta mætti líta sem nokkurskonar dýrtíðarráðstöfun, þá virðist mjer, að það nái ekki nokkurri átt. Ef stjórnin hefði ætlað sjer að selja kolin undir verði, sem hún mun í sjálfu sjer ekki hafa haft heimild til, þá þurftu þau fríðindi að koma fleirum að notum en einni eða tveimur sýslum, svo það má ekki bera því við.

Því meir sem jeg hefi hugsað um málið, því ríkari hefir sú sannfæring orðið hjá mjer, að í þessu máli beri þinginu að taka verulega og ákveðið í taumana, á þann hátt, að námurekstrinum verði ekki haldið áfram á landssjóðskostnað nema að alt sje látið bera sig. Og því frekar vil jeg setja skorður við frekara framhaldi námurekstrarins með tapi, þar sem mjer virtist hæstv. stjórn ekki óa svo mjög við, þó nokkur skaði kynni að verða á námurekstrinum í framtíðinni.

Stjórnin hefir verið nokkuð vítt í umræðunum fyrir meðferð þessa máls, sumpart með rjettu, en sumpart ef til vill of freklega, því ekki er hægt að neita því, að byrjun þeirra fyrirtækja, sem enginn hefir sjerþekkingu í, er vandasöm og hætt við árekstri. Jeg ætla ekki að kveða upp neinn áfellisdóm, nje heldur sýknunardóm, um það, sem á undan er gengið. En nú álít jeg, að málið sje komið í þingsins hendur, og á þess ábyrgð verður það, hvernig fer um framhaldið. Í þessu sambandi skal jeg þá geta þess, að þær tillögur, sem fram hafa komið, geðjast mjer ekki með öllu.

Þingsályktunartill. er, að því er mjer virðist, fremur óákveðin, því lengi má þrátta um það, hvort hallinn er hverfandi lítill eða ekki, og síðari liðurinn heyrir ekki beint til Tjörnesmálinu.

Rökstudda dagskráin frá hv. þm. S.-Þ. (P. J.) virðist mjer þó enn lakari, að því leyti, að þar er stjórnin eggjuð til að halda námurekstrinum áfram þó halli verði, því hvað er verulegur halli ? Sumum þykir ef til vill ekki verulegur halli á svona fyrirtæki fyr en komið er upp í 50 þús. eða má ske 100 þús. kr. Þess vegna get jeg ekki aðhylst þessa dagskrá.

Af því að jeg vil, að skorður sjeu reistar við því, að landssjóður reki námuna til lengdar með nokkrum halla, þá ætla jeg að leyfa mjer að bera hjer fram rökstudda dagskrá, sem jeg ætla að leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseti:

Sýni það sig í sumar, að eigi sje hægt að reka Tjörnesnámuna hallalaust fyrir landssjóð, undir stjórn vegamálastjóra, álítur deildin rjett, að hætt sje við námureksturinn upp á landssjóðs kostnað, og reynt sje því að leigja námuna út, og í trausti þess, að stjórnin taki það ráð, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Vona jeg í raun og veru, að allir geti gert sig ánægða með þessi málalok. Framsetningin á að vera sleggjudómalaus, og jeg býst við, að þetta geti nálgast hugsun bæði nefndarinnar og hv. þm. S.-Þ. (P. J.). Og kostur er það fyrir stjórnina, að hjer hefir hún ákveðið að halda sjer við. Leyfi jeg mjer að svo mæltu að afhenda dagskrána hæstv. forseta.