23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (1903)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Pjetur Jónsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að tefja umr. í þessu máli meir en jeg gerði um daginn, en vegna útskýringa hv. frsm. (G. Sv.) á dagskrá minni, álít jeg mig knúðan til að gefa skýringu á því, hvernig hún er til komin og hvað jeg meina með henni. Þegar jeg lagði dagskrána fram, þá áleit jeg, að hún þyrfti ekki skýringar við, mjer virtist hún svo skýr, en úr því farið var að leggja hana út á rangan veg, skal jeg skýra hana nokkuð.

Jeg áleit ekki rjett, eins og skilja verður þingsályktunartill., að stöðva námureksturinn meðan þær tilraunir standa yfir, sem nú er verið að gera þar nyrðra, og vil jeg því, að haldið verði áfram rekstrinum fram eftir sumrinu, eða þangað til sjeð verður fyrir, hvernig þær muni reynast. Mjer hefir sem sje heyrst það á tali hv. frsm (G. Sv.), að nú væri náman komin undir þá stjórn, sem telja mætti ábyggilega, en það er stjórn vegamálastjórans og hins erlenda námuverkfræðings, og þetta er einnig tekið fram í skýrslu nefndarinnar.

Hvort halda beri þessari tilraun áfram í alt sumar er ekki tekið fram í dagskránni, og verður það auðvitað að fara eftir því, sem þessari nýju stjórn list.

Að fengnum þessum upplýsingum er jeg sammála nefndinni um það, að hætta beri námugrefti þar norður frá, svo framarlega sem það verður uppi á teningnum, að tekjuhalli verði til muna. Hv. frsm. (G. Sv.) fanst ákvæðið um tekjuhallann í dagskrá minni vera nokkuð óákveðið, en álitamál er, hvort ákvæðið „hverfandi lítill“, sem stendur í till., sje nokkuð ákveðnara. Jeg geri ráð fyrir, að þar sem ekki er verulegur halli, þar megi heita svo, að hallinn sje hverfandi lítill. En jeg vildi ekki, að algerlega yrði fyrirbygt, að stjórnin hjeldi áfram rekstrinum, þó ekki yrði hægt að fá fulla vissu fyrirfram um rekstur námunnar hallalaust. Ef stjórninni væri með öllu meinað að halda rekstrinum áfram, þá væri það líka í ósamræmi við það, sem hv. deild hefir gert í öðru máli, því það hefir nú verið samþ. hjer og sömuleiðis í Ed. að veita sýslunefnd Strandasýslu styrk til kolanáms, sem svarar 10 kr. á hverja smál. Það mætti líta svo á, að þingið teldi það ekki teljandi halla, þó hann næmi 10 kr. á hverja smál., en teldi það aftur verulegan halla, ef hann færi þar yfir. Jeg held þess vegna, að mælikvarðinn fyrir því, hvað sje „verulegur halli“, sje nokkuð fenginn með því, hvernig hv. Alþingi snýr sjer við till. um kolanám í Gunnarsstaðagróf.

Jeg skal láta þess getið, viðvíkjandi rökstuddu dagskránni frá hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.), að mjer liggur það í ljettu rúmi, þó hún verði samþ. frekar en mín. Að eins hefi jeg það að athuga við hana, að hún fer fram á, að ekki verði fengist við námugröft á þessu sumri nema það varði fyrirfram hægt að fá sönnun fyrir, að það verði hallalaust. En verði hvorug þessi dagskrá samþ., býst jeg við, að útskýring sú, sem gerð var af hv. frsm. (G. Sv.) og fleirum, viðvíkjandi þingsályktunartill., komi ekki að gagni, því að í raun og veru er niðurstaða hennar alveg sú sama og dagskránna, ef marka á útskýringuna. En ef dagskrárnar verða feldar og till. samþykt, þá verður líklega að álíta svo, að tillöguna beri að skilja eftir bókstafnum, en ekki eftir útskýringunni, en það álit jeg mjög óheppilegt.

Úr því að jeg stóð upp, þá verð jeg að minnast með örfáum orðum á fleiri atriði í þessu máli. Jeg gat um það, er jeg var að bera í bætifláka fyrir hinn mikla tekjuhalla, er verið hefir á námunni, að taka yrði meira tillit til þess en gert hefir verið, að hjer er um tilraun og rannsókn að ræða. Jeg gat um, að menn hefðu verið að gera ýmsar tilraunir þar norður frá, en jeg gat ekki um það, sem gerðist í vetur, er menn voru að leita fyrir sjer um kol. Það höfðu verið grafin námugöng, 200 fet inn í bakkanum; þá þraut kolin alt í einu, og talsvert verk var því að mestu unnið fyrir gýg. Þetta getur eðlilega komið fyrir í öllum námum, því þær geta verið brotnar í sundur og kolin því horfið á kafla, og þarf þá að leita að þeim, og eins og gefur að skilja, er að þessu mikill aukakostnaður, en einnig töluverð rannsókn.

Þá hefir líka verið allmikið minst á fæðiskostnaðinn og hversu óheyrilega dýr hann hafi verið, eitthvað kr. 3,20 á dag. Jeg hefi litið svo á, að það væri óheppilegt að láta fæðið ókeypis til reiðu, en áleit rjettara að haga því eins og í vegavinnu landssjóðs, láta verkamenn fæða sig, og getur þá hver og einn ráðið mataræði sínu, hversu dýrt það skal vera. Að þessu leyti held jeg að ekki hafi verið rjett að farið. En til afsökunar fæðiskostnaðinun skal jeg geta þess, að alt er geysidýrt, sem þarf til fæðis þarna umhverfis námuna; flutningskostnaður er geysidýr, og svo er landi þannig háttað þar nærlendis, að lítið er um mjólkurframleiðslu, svo að kaupa verður hana langt að, og er þó hörgull á henni, því ekki er þannig háttað í Þingeyjarsýslum, að hentugt sje að hafa þar stór kúabú. Mennirnir, sem við kolagröftinn fást, finna því lítið til þess, að þeir sjeu í sveit, og njóta lítið þæginda sveitalífsins.

Til samanburðar skal jeg geta þess, að í haust var haft matarfjelag á Húsavík í sláturtíðinni, þar sem verkafólkið hafði ókeypis hús og áhöld, en að öðru leyti borguðu þeir sjálfir matreiðslu.

Þegar upp var gert, kom það í ljós, að maturinn kostaði um kr. 2,60 fyrir manninn á dag. Mig furðar ekki, þó maturinn yrði dýrari í námunni, en að vísu hefði munurinn ekki þurft að verða svona mikill, ef sparlega hefði verið á haldið.

Þá er að minnast á kolaverðið. Stjórninni hefir verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki ákveðið það hærra þegar í byrjun. Jeg hygg, að það sje of hörð krafa að ætlast til þess, að stjórnin hefði gert það, og býst við, að stjórnin hafi miðað við verð á erlendum kolum, eins og það var þá, og svo við gæði þessara kola og gildi, í augum manna, er kaupa áttu. En nú var þetta hvorttveggja á nokkuð miklu reiki. Ekki varð það vitað um erlendu kolin, að þau yrðu eins dýr og raun varð á, er kom fram á sumarið, og svo höfðu þau íslensk kol, sem gengið höfðu manna á meðal, verið illa hreinsuð, og reyndust því misjafnlega. Jeg held því, að kolaverðið íslenska, hefði þótt nokkuð hátt, ef mikið hærra hefði verið farið en gert var, og hefði það spilt sölunni eða kann ske eyðilagt hana með öllu. En nú var um að gera að selja kolin og flytja á burt um sumartímann það, sem til var jafnóðum. það tel jeg hafa verið ókleift að giska á um sannvirði kolanna fyrirfram eða jafnóðum og unnið var. Kolanámi er svo hagað, að mikið er forvinna, og sjest ekki eftirtekja af allri vinnunni fyr en eftir langan tíma.

Hv. frsm. (G. Sv.) mintist á, að jeg hefði tekið það hlutverk að mjer að bera blak af stjórninni, og væri nokkurskonar „autoriseraður“ málsvari hennar í þessu máli. Jeg hefi ekki verið „autoriseraður“ hjer á þingi til neins, hvorki nú nje fyr, og alt það, sem jeg segi, er upp á minn reikning. Jeg talaði eftir sannfæringu minni og bestu samvisku, og á hún alla sök, ef nokkur er. Ræða hæstv. atvinnumálaráðh. var svo ljós og skýr, að jeg ætlaði mjer ekki þá dul að bæta úr henni. En að því leyti, sem jeg er dálítið kunnugri þessu máli en flestir þm., varð jeg að skýra frá því, sem jeg vissi betur en þeir. Jeg hefi eigi sagt annað en það, sem satt er og rjett og jeg get staðið við. Og þótt einn maður, sem viðriðinn er þetta mál, sje allnákominn mjer, þá er það gamalt mál að maður vinnur það ei fyrir vinskap manns, að víkja af götu sannleikans. Ef hv. frsm. (G. Sv.) ætlar því, að mjer hafi gengið eitthvað misjafnt til í þessu máli, þá vona jeg, að hann segi það greinilega.

Sannleikurinn í þessu máli er nú leiddur í ljós að því leyti, að alkunnugt er, að allmikill halli hefir orðið á námurekstrinum, meiri halli en búist var við. og meiri halli en menn má ske hefðu lagt út í í byrjun, hefðu menn vitað hann fyrir. Mjer kemur ekki til hugar að vilja hreinsa stjórnina af allri sök í þessu máli; einhverja sök á hún sjálfsagt, en ekki af fyrirhuguðu ráði, heldur af óviðráðanlegum orsökum. Þeir, sem í mjög mörg horn hafa að líta, geta ekki sint öllum málum sem skyldi, og má ætíð deila um, hvort þeir gera sitt ítrasta. En hinu hjelt jeg og fram, að þingið á allmikla sök í málinu. Þingið hratt þessu máli af stað undirbúningslaust, og þann sannleika ætti líka að auglýsa. Jeg fæ ekki sjeð, að öll sönnunargögn hafi komið í ljós, þó að skýrsla nefndarinnar sje rjett, það sem hún nær.

Sannleikurinn fæst ekki allur, nema alt sje í ljós leitt, sem orsakað hefir hallann, en til þess er hvorki tími nje tækifæri á þessu þingi. En þegar menn hafa að eins hálfan sannleikann, og hann er notaður freklega til þess að áfella aðra, verður sá sannleikur oft verri en svartasta lýgi.