23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (1908)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hefi ekki ástæðu til þess að þessu sinni að tala langt, því að jeg hefi ekki hlustað á nema tvo síðustu ræðumenn. Eru það þá eitt eða tvö atriði í ræðu hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem jeg vildi minnast á, því að þar drap hann á tvö atriði, sem enginn hefir áður minst á eins nákvæmlega.

Það er þá fyrst, að hann taldi vansjeð, að byggingarkostnaður, eða verð á húsum við námuna, stæði í hlutfalli við væntanlegt kolanám á staðnum. Jeg skal taka það fram um kolamagnið, að það kolalag, sem sjest þar í hliðinni, hefir verið talið svo kílom. skifti á lengd. Svo ef útlit er fyrir, að kolanámið haldi áfram, þá er kolamagnið því ekki til hindrunar, að hús og byggingar þurfi lengi að nota.

Annað, sem sami hv. þm. (E. A.) mintist á, var, að gera hefði þurft áætlun um kolanámukostnaðinn áður en verðinu væri slegið föstu. Sú áætlun hefir verið gerð, en ekki er hægt að miða við allan kostnað, svo sem við námugöng o. s. frv. En fyrst var miðað við það, sem það kostar að taka lausleg kol úr bakkanum, en þó var farið nokkuð hærra. Svipuð reynsla hefir orðið í Hringversnámunni, að áætlunin hefir orðið of lág.

Sami hv. þm. (E. A.) talaði um brjef Einars Gunnarssonar, en tók það ekki fram, sem E. G. og fleiri hafa að lokum tekið fram um reikningsskilin. Og þess vil jeg geta, að ekki hafa verið lögð fram fullkomin skilríki fyrir öllu, sem gert hefir verið í málinu. Virtist þm. telja, að á tilteknu tímabili hafi ekkert verið hirt um að fá vitneskju um framgang starfsins og hag námunnar. Þar sýnist hann hafa of mjög farið eftir gömlu setningunni: „Það sem ekki er til í málsskjölunum, er ekki til í heiminum“. pað er ekki nóg að byggja á því einu, er kemur fram í skjölunum. Jeg hefi getið um margt, sem ekki kom fram í nál., og hefir sumt af því farið fram í „privat“brjefum og sumt í símtölum og símskeytum, og þá ekki líklegt, að menn hafi alment vitað um það.

Dæmið, er sami hv. þm. (E. A.) dró fram um 8 menn móti 40, er ekki fyrsta sagan, sem heyrst hefir og þingm. varpa svo fram hjer á þinginu rannsóknarlaust. En göngum nú út frá, að sagan sje sönn. Get jeg þá gefið líklegar upplýsingar. Skal jeg geta þess, að Akureyringar hafa haft gömlu aðferðina, að taka kolin úr bökkunum, þar sem til næst, en grafa ekki námugöng. Nú vörðu menn tíma í að grafa námugöng, og að því vann mikill hluti þeirra verkamanna, er unnu við Tjörnesnámuna hjá landssjóði, um eitt skeið, og verður þá skiljanlegt, að þeir, sem að slíku stóðu, hafi eigi losað mikil kol á meðan. Sagan sannar því ekki það, sem til er ætlast, þó hún væri sönn. Hvort þeir hafa að öðru leyti unnið eins vel og hinir get jeg ekki um sagt, og varla háttv. þingm. heldur.

Annað hefi jeg ekki sjerstakt að athuga. En svo finst mjer nú tími til kominn að ganga nær tillögunum, sem fyrir liggja. Jeg ætla mjer alls ekki að mæla með neinni sjerstakri tillögu og heldur ekki að mælast undan umræðum, því vafalaust hafa þær skýrt málið eitthvað, þó einkennilega lítið sje, móts við tímalengd og fyrirferð, því mjer minst mörgum hafa miður tekist að þjappa orðum sínum saman og vera stuttorðir og gagnorðir.