23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (1910)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Mönnum mun nú virðast, að jeg hafi talað nógu oft í þessu máli, eftir þingsköpum. En ekki get jeg kallað það mikið, þótt jeg hafi talað þrisvar á 3 dögum, og hefir því hæstv. forseti leyft mjer að gera fáar athugasemdir.

Jeg skal ekki rökræða málið; það hefir þegar verið gert og ekki tími til þess frekar. Ummælum hæstv. forsætisráðh. þarf jeg ekki að svara; reikningar eða útreikningar hans hafa verið raktir og hraktir hjer í hv. deild, en því miður var hann þá ekki við staddur.

Jeg vil þó geta þess að hann gerir sig„ að mínum dómi, sekan í því hinu sama, er hann ber öðrum á brýn; hann blandar sjálfur saman óskyldum efnum. Hæstv. forsætisráðherra talaði um það í gær, að nefndin, fjárhagsnefndin, sem jeg er framsögumaður fyrir, leggist með till. sínum og röksemdum á móti þeirri stefnu að nota sem best það, er landið getur látið í tje. Í þessu er engin hæfa, og vil jeg leyfa mjer að mótmæla því fyrir hönd nefndarinnar. Hann lagði og áherslu á það, að það væru óskyld mál, aðfinslur nefndarinnar við stjórnina og stefna sú, sem nefndin vildi hafa. En þetta er svo skylt, að ekki verður sundur skilið. Mönnum ber saman um, að rekstur námunnar hafi farið í handaskolum. Ef að eins ætti að lýsa því, en ekki gera ráðstafanir gegn því, að svo kynni að fara framvegis, þá hlypi þingið frá skyldu sinni. Því ef eitthvað þykir fara illa, þá er það skynsamleg afleiðing að gera ráðstafanir til þess, að því verði hagað betur eftirleiðis.

Þó að hæstvirtur forsætisráðherra þættist tala um málið alment, þá mun þó flestum hafa virst hann tala um einstök atriði þess. Þó vill hann eigi bera blak af stjórninni fyrir ráðsmensku hennar í þessu máli; hefir honum þótt öðrum það skyldara. Hann gat og þess, hvað hann myndi gera, ef á sig yrði samþykt till. sem þessi. Á þetta líklega að vera bending til atvinnumálastjórnarinnar, hvað henni sje fyrir bestu.

Hæstvirtum forsætisráðherra óx fæðiskostnaðurinn eigi svo mjög í augum. Kvað hann fæðiskostnað við björgunina úr „Goðafossi“, er hann strandaði við Straumnes, hafa orðið álíka mikinn fyrir manninn á dag. En þar var þó öðru máli að gegna. Þar var fæðið selt af útgerðarfjelagi, er vildi hafa hagnað af sölunni og var því ekki sjerlega ant um að selja með sannvirði. Þrátt fyrir þennan millilið varð fæðið þó ekki dýrara en á Tjörnesi. En þar gerir landið út sjálft. — Á Siglufirði, sem mun dýrasti staður hjer á landi um síldveiðitímann, var gott fæði ekki dýrara en þetta á gistihúsum. Sumstaðar var hægt að fá það talsvert ódýrara, en annarsstaðar ef til vill nokkrum aurum dýrara.

Vil jeg þá víkja nokkrum orðum að kolaverðinu. Jeg hefi fengið þær upplýsingar úr áreiðanlegri átt, að verkstjórar hafi símað eða ritað stjórninni í fyrra sumar og lagt það til, að kolaverðið yrði hækkað. Það var ekki gert.

Hæstv. atvinnumálaráðh. taldi kolamagnið í námunni afarmikið, því nær óþrjótandi. Jeg hefi aftur á móti heyrt það haft eftir verkstjóra þeim, er sá um verkið, að hann teldi kolin á þrotum. Þetta getur verið rangt, en þó er það einkennilegt, að þessi trúnaðarmaður landsstjórnarinnar skuli láta sjer þetta um munn fara. Þetta sýnir þó, að alt er á reiki í máli þessu frá hálfu stjórnarinnar; engin vissa fyrir neinu. (P. J.: Jeg efa, að þetta sje rjett hermt.) Jeg efa það alls ekki, en verið getur, að maðurinn hafi sagt hvorum sitt.

Það, sem hjer er um að ræða, er þetta: Landsstjórnin átti, er komið var fram á haust, að láta hætta verkinu, láta ekki reka námuna í vetur.

Menn hafa nefnt námuna í Stálfjalli og rekstur hennar í sambandi við þetta mál. Menn vita þó, að þar er kolanám ekki enn rekið sem atvinnugrein. Námuna á fjelag, sem hefir í hyggju að varpa nokkrum hundruðum þúsunda til þess að rannsaka, hvort hjer sje um framtíðarnámu að ræða eða ekki. Fjelagið reynir því ekki nú að reka námuna með hagnaði, hefir jafnvel ekki verið fáanlegt til þess að selja kol. Það er kynlegt, að hæstv. atvinnumálastjórn og hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og þeir aðrir varnarmenn stjórnarinnar, er talað hafa frá sjónarmiði þingeysku samábyrgðarinnar, skuli einmitt taka ljelegustu dæmin til samanburðar. Og af því að þessi ljelegu dæmi, m. a. mótekjan í Reykjavík, hafa mishepnast, þó ekki sje nema fyrst í stað, þá á ráðlag stjórnarinnar í þessu máli að vera gott og gilt. Frá siðferðislegu sjónarmiði er engin bót í máli, þótt sýnt verði fram á, að fleira hafi mishepnast, eða jafnvel verið í sukki. Þess vegna sannar samanburðurinn við t. d. mótekjuna í Reykjavík ekki neitt. Hún var í eðli sínu að eins sumarvinna, og mikil áhersla var á það lögð að undirbúa sem best undir næsta sumar og næstu tíma. (Atvinnumálaráðherra: það var einmitt gert Tjörnesnámunni). Nei, það var einmitt vanrækt. Ef menn vildu leiða verkamenn og verkstjóra námunnar sem vitni, myndi það koma í ljós, að ekkert var búið undir vetrarvinnuna, enda var hún eigi ákveðin fyr en svo seint, að alt varð í óreiðu.

Hæstv. atvinnumálastjórn og verjendur hennar telja tillögu nefndarinnar fara einungis fram á það, sem stjórnin sje að gera eða ætli að gera. Það er þá óskiljanlegt, að þeir skuli leggjast fast á móti till., fari hún í sömu átt sem stjórnin nú á síðustu og elleftu stundu hefir ákveðið að framkvæma. Og því einkennilegra er það, sem þeir viðurkenna, að þessar framkvæmdir sjeu í samræmi við tillögur vegamálastjóra.

Loks vil jeg geta þess fyrir hönd nefndarinnar, að hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), sem á sæti í henni, hreyfði alls ekki í nefndinni þeim athugas., sem hann gerði hjer í hv. deild í gær. Hann gerði aths. við tillöguna, eins og hún var orðuð fyrst. Var henni þá breytt samkvæmt ósk hans og annara, og síðan hreyfði hann engum athugasemdum við hana. Sama máli er að gegna um skýrsluna. Við hana gerði hann engar athugasemdir, enda verður eigi sjeð, hvernig hann hefði átt að hreyfa athugasemdum við óvefengjanlega skýrslu, sem er bygð á því einu, sem upplýst er í málinu.